137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:50]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að stór hluti af þessu máli er sú áhætta sem verið er að láta íslenska þjóð undirgangast, 300 þúsund manna samfélag sem væri örlítið hverfi í Lundúnaborg. Ég er mjög ósáttur við að við skulum ekki geta dregið úr þeirri gríðarlegu áhættu sem verið er að skella yfir þjóðina verði þetta að óbreyttu samþykkt. Það er þess vegna sem við höfum talað í þessari umræðu fyrir því að við skyldum í sameiningu, stjórn og stjórnarandstaða, setjast yfir þetta mál og leita nýrra samninga því það er ekki spurning að ef við komum sameinuð til slíkra viðræðna þá erum við sterkari. Því miður er mörgum spurningum ósvarað í þessari umræðu sem við höfum þráfaldlega spurt um meðal annars í gærkvöldi þar sem ekki einn einasti þingmaður Samfylkingarinnar tók þátt í umræðunni þrátt fyrir að við kæmum hér upp ítrekað og óskuðum eftir því að frú forseti gerði þingflokki Samfylkingarinnar grein fyrir því að við óskuðum eftir því að þau væru við þessa umræðu vegna þess að Samfylkingin er ekki eins hvítþvegin í þessu máli og hún vill vera láta.

Ég vil enda á því að segja að mér finnst það nöturlegt ef hæstv. forsætisráðherra ætlar ekki að taka þátt í þessari umræðu og skýra sín sjónarmið. Mér finnst vanta í rauninni allan kraft í forustumenn þessarar ríkisstjórnar. Ég hef sagt það hér áður og ég hef fundið fyrir því í þessari umræðu að íslensk þjóð hefur engan raunverulegan leiðtoga í dag. Höfum við einhvern tíma þurft á öflugri ríkisstjórn að halda sem hefur skýra framtíðarsýn þá er það á tímum sem þessum. Höfum við einhvern tíma þurft á að halda stoltum forustumönnum þjóðarinnar sem þora að takast á við þá aðila sem við þurfum að semja við þá er það núna. Þess vegna legg ég til (Forseti hringir.) að þessi ríkisstjórn leiti til okkar í stjórnarandstöðunni og að við komum sameinuð fram í þessu máli.