137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er í sjálfu sér ánægður með þessi svör frá hv. þingmanni. Það er líka rétt að það skortir á að stjórnarþingmenn séu viðstaddir umræðuna. En það skortir sérstaklega á að þeir taki þátt í henni. Ég hefði nefnilega viljað spyrja suma þeirra að því hvort þeir hafi lesið samninginn áður en þeir samþykktu að veita ríkisstjórninni heimild til að undirrita hann. Ég hef grun um að svo hafi ekki verið. Ég hef meira að segja grun um að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki verið búin að lesa samninginn þegar hún veitti hæstv. fjármálaráðherra heimild til að skrifa undir hann. Hann er á ensku og ég veit ekki til að hann hafi verið þýddur á þeim tíma. Það var skrifað undir hann um morguninn. Þetta var mjög stuttur tími. Mig langar til að vita hvort hv. þingmaður hafi velt þessu fyrir sér.

Svo er það hitt sem ég hef reyndar líka bent á að auðvitað eiga allir þingmenn á Alþingi Íslendinga að vinna að þessu máli. Þetta er það stórt. (Gripið fram í: Heyr, heyr!) Mig langar til að spyrja hv. þingmann, af því að ég stakk upp á þessu í gær, hvort hann telji að þingflokkur hans gæti verið til í að vinna með ríkisstjórninni að því að finna á þessu lausn sem íslensk þjóð gæti lifað við.