137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Málatilbúnaður allur í þessu gífurlega stóra máli, líklega stærsta efnahagsmáli sem komið hefur fyrir Alþingi Íslendinga er búinn að vera með ólíkindum. Alveg frá upphafi hefur stjórnin hrakist úr horni í horn og stöðugt verið staðin að því að greina annaðhvort hreinlega rangt frá eða með ófullnægjandi hætti. Seint í gærkvöldi kom í ljós að Alþingi hefur ekki fengið í hendur öll gögn er varða þetta mál. Það kom sem sagt á daginn að embættismenn höfðu fengið það verkefni að handvelja hvaða gögn þingmenn fengju að skoða varðandi þetta mál.

Ég vil taka undir áskorun hv. þm. Birgis Ármannssonar frá því í gærkvöldi um að alþingismenn geti að minnsta kosti fengið kost á því að skoða hvaða gögn sé um að ræða og geti þá ákveðið sjálfir hvort þeir kynni sér þau nánar. Einnig hafa komið fram nýjar upplýsingar um þá fjárhagsstöðu ríkisins og þjóðarinnar sem lögð var til grundvallar í þessum samningum og raunar hefur komið í ljós nú þegar að forsendur samningsins eru brostnar áður en Alþingi er búið að staðfesta hann svo að þetta mál allt saman verður fáránlegra með hverjum deginum og ég vona að þingmenn láti sér ekki til hugar koma að staðfesta samning sem er þess eðlis að forsendur fyrir honum eru þegar brostnar miðað við það sem kemur fram í samningnum sjálfum. Þetta er svo fáránlegt að það er erfitt að koma orðum yfir þetta.

Reyndar hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn reynt að réttlæta þessar breyttu forsendur með þeim hætti að greiðsluþol Íslands hafi aukist frá því sem áður var sagt. Gjaldeyrissjóðurinn hafi áður sagt að landið mundi ekki þola skuldsetningu upp á 240% af landsframleiðslu. Nú virðist hann ætla að breyta um stefnu í þessu efni og segir að ja, þetta hafi nú færst til. Og hverjar eru ástæðurnar sem gefnar eru upp? Þær eru að hér hafi allt versnað svo mikið að við getum frekar staðið við skuldbindingar okkar. Hvernig má þetta vera? Jú, bent er á að vegna þess að skuldir eru miklu meiri heldur en gert var ráð fyrir þá þurfi meiri niðurskurð, þá þurfi gjaldeyrishöftin að vera við lýði lengur, þá verði minni neysla í samfélaginu, við höfum síður efni á því að flytja inn vörur og þar af leiði að við getum frekar staðið við meiri skuldir en ella. Þessi röksemdafærsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins skýrir kannski þau vandræði sem sjóðurinn hefur komið svo mörgum ríkjum í með ofskuldsetningu, skuldsetningu sem ríki sem hafa þegið aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa jafnvel setið uppi með áratugum saman og sitja mörg hver uppi með enn þá og eru lent í fátæktargildru vegna þess að hinar óhóflegu erlendu skuldir halda gjaldmiðli landanna í lágmarki. Og það er ekki hægt að deila um að Icesave-samkomulagið muni halda gengi krónunnar lágu í að minnsta kosti 15 ár, líklega miklu lengur. Þetta leiðir til þess að efnahagur þessara ríkja helst veikur, fólk flyst úr landi, fólk sem getur starfað annars staðar. Læknar, verkfræðingar, slíkt fólk fer og smátt og smátt heldur hnignunin áfram. Þetta er sú braut sem þessi ríkisstjórn er að setja þjóðina inn á með þessum Icesave-samningi og rökin eru þau ein að eitthvert minnisblað hafi verið undirritað um að menn hygðust reyna að ná samkomulagi og þar með hafi allt saman verið tapað. Raunar er þeim rökum bætt við líka að aðaltjónið komi ekki til fyrr en eftir nokkur ár og þar af leiðandi getum við leyft okkur að horfa fram hjá því.

Nei, við getum ekki leyft okkur að horfa fram hjá því að verið sé að leggja slíkan skuldaklafa á þjóðina að hún geti ekki með nokkru móti staðið undir honum. Hæstv. viðskiptaráðherra sem hefur reynt að færa rök fyrir því að þetta sé ekki svo mikið vandamál hefur ekki enn þá sýnt fram á hvernig sá gjaldeyrisafgangur, ekki bara gjaldeyristekjur, eigi að vera til svo hægt sé að standa undir þessum samningum. Þvert á móti hefur verið sýnt fram á það, meðal annars í nýlegri úttekt Sigurðar Hannessonar doktors í stærðfræði, að ekki verður hægt að skapa nægan gjaldeyri til að standa undir þessum samningi. Jafnvel þótt við fyndum olíu væri ekki hægt að skapa nógan gjaldeyri. Hvernig stendur á því? Það er vegna þess að til að fjárfesta í útflutningsgreinum eins og olíuvinnslu þarf gríðarlegan erlendan kostnað. Norðmenn held ég að hafi þurft að bíða í 20 ár áður en þeir fóru að koma út í plús af olíuvinnslu sinni svo að þessi samningur er algjört glapræði sem þingið má ekki einu sinni leyfa sér að hugleiða að staðfesta. Ég held að menn ættu að líta aðeins til fyrri kynslóða Íslendinga og þeirrar baráttu sem þær háðu fyrir að verja sjálfstæði þjóðarinnar oft við gífurlega erfiðar aðstæður og reyna að telja í sjálfa sig smákjark út frá því í stað þess að gefast upp. (Forseti hringir.)

Hæstv. forsætisráðherra ætlar að taka til máls svo ég mun víkja og leyfa hæstv. forsætisráðherra loksins að tjá sig. (Gripið fram í.)