137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:03]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er fagnaðarefni að hæstv. forsætisráðherra skuli loksins hafa treyst sér til að taka þátt í þessari umræðu þó að ráðherrann hafi því miður ekki haft annað fram að færa en endurvinnslu á rökum hæstv. viðskiptaráðherra sem mönnum hefur þótt tiltölulega lítið til koma, enda hefur ráðherrann ekki sýnt fram á það hvernig gjaldeyrisafgangurinn á að verða til. Og hæstv. forsætisráðherra ber enn á ný skuldirnar saman við þjóðarframleiðslu.

Ég og fleiri höfum reynt að útskýra það að landsframleiðsla hefur lítið með það að gera hvort við getum átt afgangsgjaldeyri. Það er ekki upp á neitt að hlaupa. Megnið af gjaldeyristekjum okkar fer sem stendur annaðhvort í nauðsynlegar innflutningsvörur, vörur sem jafnvel þarf til að standa undir útflutningi eða í það að borga af erlendum skuldum sem hrannast hafa upp. Það hefur því ekki verið sýnt fram á þennan afgang. Mér sýnist ríkisstjórnin stöðugt falla dýpra í sömu gryfju og bankarnir gerðu í örvæntingu sinni á lokasprettinum þegar þeir litu fram hjá stóru myndinni og hugsuðu sem svo að það mætti skuldsetja sig hér og þar vegna þess að í framtíðinni yrði allt svo miklu betra, verðmæti eigna mundi aukast svo mikið, það færi allt á blússandi siglingu aftur og þegar fram liðu stundir mundu menn geta staðið undir öllum þessum lánum sem verið væri að taka hér og þar. Ef samningurinn verður samþykktur mun þessi ríkisstjórn aldrei aftur geta leyft sér að gagnrýna framferði bankamannanna á Íslandi vegna þess að hún er búin að gera nákvæmlega það sama nema bara á miklu stærri skala þar sem þjóðin öll er undir.