137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:05]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst eins og hv. þingmaður tali hér eins og það verði engin framþróun á næstu árum, það verði enginn hagvöxtur, engar auknar gjaldeyristekjur (SDG: Hvernig á það að gerast?) og að hér standi allt í stað. Auðvitað mun hér verða hagvöxtur aftur þegar við munum koma efnahags- og atvinnulífi okkar í gang og að því erum við að vinna af fullum krafti, m.a. með því að endurreisa bankana. Við gerum auðvitað ráð fyrir hagvexti, auknum útflutningstekjum og auknum gjaldeyristekjum. Fyrr má nú vera svartsýnin að halda að hér standi allt í stað á næstu árum. (Gripið fram í.) Ég á aðra og betri ósk fyrir þjóðina en að svo verði.

Varðandi þá samninga sem gerðir hafa verið — menn horfa á þau kjör sem þó hafa náðst fram — spyr ég: Telja menn yfirleitt að hægt sé að ná fram hagstæðari kjörum en við höfum náð fram? Hvaða áhættu taka menn með því að samþykkja þessa samninga og fara í endurskoðun á því? Vextirnir hafa verið að hækka meira að segja eftir að við náðum þessum samningi. Við erum að tala um skuldaálag upp á 125 punkta og hvað eru þeir hér á landi núna? Ætli þeir séu ekki 670 punktar eða eitthvað slíkt? (Gripið fram í.) Það er því ekki hægt að tala um óhagstæða samninga miðað við þá stöðu sem uppi er núna. Við erum í skjóli á meðan við erum að ná okkur upp úr þessum miklu erfiðleikum sem við erum í, við þurfa ekki að borga af þessum lánum fyrr en eftir sjö ár og við skulum vona að við getum rifið upp hagvöxtinn og atvinnulífið. Að því erum við auðvitað að vinna. En guð minn góður, svartsýnistalið í hv. þingmanni um að hér muni ekkert gerast og það muni verða stöðnun næstu árin — það er ekki þannig. Við getum rifið okkur upp úr þessu og við eigum að tala kjark í þjóðina en ekki rífa hana niður með svona svartagallsrausi eins og maður heyrir aftur og aftur úr þessum ræðustól.