137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ef við höfum lært eitthvað af bankahruninu hlýtur aðalatriðið að vera það að líta á hlutina eins og þeir eru og reyna ekki að blekkja almenning. Einungis þannig er hægt að taka á vandanum. Ríkisstjórnin er aftur fallin í sömu gryfju og bankarnir gerðu í örvæntingu sinni þegar þeir reyndu að kveða niður alla neikvæða umræðu og fela vandann. Hver man ekki eftir á síðustu vikunum fyrir hrunið þegar haldnar voru ráðstefnur eins og „Ísland — öfundsverðar framtíðarhorfur“? Þannig virðist hæstv. forsætisráðherra ætla að leysa málið núna, með því að lýsa því yfir að ástandið verði svo miklu betra, en hún getur ekki nefnt eina einustu ástæðu fyrir að það eigi að gerast. Forsætisráðherrann gerir líka þá sígildu skyssu sem nefnd var sem ein helsta ástæða alheimsfjármálakrísunnar og hafa verið skrifaðar heilu bækurnar um það. Það er sú skyssa að meta framtíðina út frá tölfræði fortíðar. Hæstv. forsætisráðherra og raunar hæstv. viðskiptaráðherra líka gera ráð fyrir því að hér verði áframhaldandi vöxtur útflutningstekna á næstu árum vegna þess að á síðustu árum hafi útflutningstekjur aukist svo mikið.

En hvað gerðist á síðustu árum? Það var byggt eitt risaálver, það var byggð risastór virkjun til að halda því álveri gangandi og risavaxið og allt of stórt íslenskt bankakerfi fór í útrás. Hvernig ætlar hæstv. forsætisráðherra að skapa útflutningstekjur í framtíðinni, útflutningstekjur sem verða viðvarandi, verða sjálfbærar í ljósi þess að oft í gegnum tíðina hefur ríkt stöðnun í útflutningstekjum? Það er ekkert sem segir að þær fari stöðugt vaxandi. Það var undantekningartilvik með byggingu risaálvers. Ætlar hæstv. forsætisráðherra að beita sér fyrir byggingu nýs risaálvers? Gleymir þá kannski hæstv. forsætisráðherra því að til þess að byggja risaálver þarf að taka gríðarlega há lán og svo þarf að borga af þeim lánum? Þetta er ekki svo einfalt.