137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var ekki að gagnrýna einhverja menn úti í bæ. Ég var að gagnrýna hæstv. viðskiptaráðherra. Það er ekki merkilegt að mæta hér og bera aðra fyrir sig. Það hefur enginn í þessum sal sagt að hér hafi allt verið í himnalagi, ekki nokkur maður. Það sem menn hafa hins vegar sagt sem hafa viljað hugsa um það hvernig við getum náð sem bestri stöðu úr þessu er það að nota þau vopn sem við höfum í þessu erfiða máli. Heldur hæstv. viðskiptaráðherra að enginn sé að fylgjast með þessari umræðu hér? Heldur hæstv. viðskiptaráðherra að orð ráðherra í ríkisstjórninni skipti ekki máli? Hæstv. viðskiptaráðherra og hæstv. fjármálaráðherra viku nær engu að þessu máli sem er þó þrátt fyrir allt ef ekki grunnurinn þá mjög stór þáttur í þessu deilumáli. (Fjmrh.: Það er rækilega tíundað í greinargerðinni.) Rækilega tíundað í greinargerðinni. Hér kom hæstv. ráðherra fjármála og kynnti þetta mál og vék nær engu orði að þessu. (Fjmrh.: Víst.) Hæstv. fjármálaráðherra mun væntanlega vera sjálfum sér samkvæmur og ekki bara kalla úti í sal heldur fara í andsvar. Ég hef ekki trú á öðru.

Virðulegur forseti. Hæstv. viðskiptaráðherra tók hér undir allt það sem mótaðilar okkar eru að segja, allt, og var ekki að gæta hagsmuna Íslendinga og benda á hið augljósa, þ.e. að þessi tilskipun er stórgölluð. Reyndar er það svo, virðulegi forseti, að við höfum verið órétti beitt í þessu máli og ég hélt, virðulegi forseti, að þingmenn væru sammála um það. Er einhver á því að það hafi verið réttmætt að beita hryðjuverkalöggjöfinni? (Gripið fram í.) Er einhver á því — jafnmikið og við séum ósátt við margt sem gerðist hjá okkur og viðurkennum okkar mistök — er einhver (Forseti hringir.) inni á því að þessi tilskipun sé ekki gölluð?