137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:32]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Frú forseti. Það leikur enginn vafi á því að það er margt gallað í umgjörð fjármála í heiminum og sérstaklega í Evrópu og hinu evrópska fjármálakerfi. Einn galli birtist á þann veg að þegar Landsbankinn sigldi til Hollands á vormánuðum 2008 nánast gjaldþrota með handónýtt eignasafn í miklum vandræðum með sitt lausafé þá gátu Hollendingar ekki þrátt fyrir hávær mótmæli með nokkru komið í veg fyrir það. Það er einn galli á hinu samevrópska regluverki.

Það má vissulega deila um það hvort þessi tilskipun sem oft er vísað til sé gölluð. En við skulum hafa í huga hvað gerðist. Það fór banki á hausinn og tryggingar voru greiddar eins og til var ætlast. Við getum haldið upp öllum vörnum og höfum haldið uppi öllum vörnum vegna þess. En það stendur samt sem áður eftir að tilskipunin átti að tryggja að menn fengju greitt ef banki færi á hausinn og það gerðist þannig að halda því fram að þessi tilskipun hafi verið svo meingölluð að hún hafi gert eitthvað annað heldur en að var stefnt, ja, menn þurfa að færa betri rök fyrir því heldur en fram hafa komið. Það breytir því ekki að samningamenn Íslands hafa haldið fram öllum rökum meðal annars þeim að þessi tilskipun sé gölluð.

Síðan skulum við hafa í huga fyrst talað er um ábyrgð og að það sem hér er sagt berist út fyrir landsteinana. Þeir þingmenn sem hér tala eins og Ísland eigi að fara einhverja Argentínuleið eru kerfisbundið og markvisst að grafa undan lánstrausti Íslands, því að á hverju byggir lánstraust? Það byggir ekki bara á getu til að greiða heldur líka vilja til að greiða þannig að þeir sem lýsa því yfir að Íslendingar eigi ekki að greiða eru kerfisbundið að grafa undan hagsmunum Íslands.