137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:38]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo það sé ekki misskilið þá var ég að biðja um skoðun þingmannsins en ekki ástæður þess eða hvort hann væri inni á gafli hjá vinstri flokkunum þannig að það leiðréttist. Ég þakka kærlega fyrir svarið.

Hv. þingmaður kom einnig í máli sínu að innstæðutryggingarsjóðnum og ábyrgðina á honum. Það sem mér hefur fundist vanta í þessa umræðu og hefur gleymst og ríkisstjórnin heldur ekki til haga hér, enda er það óþægilegt fyrir hana og til þess fallið að veikja málstað ríkisstjórnarinnar, er að Evrópusambandsríkin tóku sig til eftir hrunið mikla á Íslandi og skoðuðu reglurnar sem gilda um innstæðutryggingu á sjóði í löndunum. Þau hafa fundað einu sinni í mánuði eftir að bankarnir hrundu á Íslandi og hafa nú búið til viðbragðsáætlun ef slíkt kemur fyrir aftur og það þurfum við að kynna okkur fyrir 2. umr. og vonandi kemur það betur inn í nefndina sem fjallar um málið. Við þurfum að kynna okkur út á hvað þessar tillögur ganga og jafnvel hvort þar sé fallið frá ríkisábyrgð hjá innstæðutryggingarsjóði hvers lands fyrir sig því ég vissi að það stóð til.