137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:40]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni og maður mundi ætla að til dæmis hæstv. viðskiptaráðherra hefði kannski kynnt sér þessa hluti sem eru beint á hans borði. En það er nokkuð um það að Samfylkingin, eins og ég nefndi svo ég vitni aftur í þessa tvo guði þess flokks, líti svo á að það sé afskaplega alvarlegt ef menn geta fundið einhverja veikleika hjá Evrópusambandinu.

Ég verð að segja eins og er að þó svo ég ætti enga ósk heitari en að Ísland yrði aðili að Evrópusambandinu þá mundi ég aldrei treysta Samfylkingunni til að vera í forustu um slík mál, aldrei nokkurn tíma því að við sem erum til dæmis aðdáendur knattspyrnuliða og erum oft svolítið heitir í umræðunni — það má færa rök fyrir því að það sé ekki allt saman mjög rökrétt þegar menn segja að þeir haldi með einu liði frekar en öðru — við bliknum í samanburði við þingmenn Samfylkingarinnar þegar þeir lýsa ágæti Evrópusambandsins og að allt sem þaðan komi sé allt að því fullkomið og stórkostlegt ef það er ekki svo og það tengist akkúrat (Forseti hringir.) því sem hv. þingmaður var að nefna hér.