137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:41]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki hægt annað en taka undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni varðandi ræðu hæstv. viðskiptaráðherra hér í gær. Mér var gjörsamlega misboðið að hlýða á þessa ræðu. Það vantaði í raun ekkert upp á annað en að hæstv. viðskiptaráðherra berði sig á bert bakið með gaddabelti eins og hann talaði. Raunar lét hv. þingmaður hjá líða að nefna annan samfylkingarmann, hæstv. félagsmálaráðherra, sem kom og hélt einhverja furðulegustu ræðu sem ég hef heyrt á Alþingi frá því að ég fór að fylgjast með stjórnmálum en það er nokkuð langt síðan miðað við aldur. Meðal þess sem hæstv. félagsmálaráðherra nefndi þar var að — ja, hann gerði nú ákaflega lítið úr málstað Íslendinga á allan hátt en nefndi þó sérstaklega að lagaleg rök Íslendinga væru ekki upp á marga fiska og að þeir fræðimenn innlendir sem erlendir sem hefðu haldið þeim fram væru kannski ekki merkilegir heldur en vísaði hins vegar í og þótti mikið til koma starfsmanns Evrópusambandsins sem hafði verið á þveröfugri skoðun. Ég hef því áhuga á að heyra mat hv. þingmanns á málflutningi hæstv. félagsmálaráðherra. Þessir tveir samfylkingarmenn sem hafa talað mest í þessu máli, hæstv. félagsmálaráðherra og hæstv. viðskiptaráðherra, þ.e. það hefur verið rauður þráður í málflutningi þeirra hversu ömurlegur málstaður Íslendinga sé í þessu máli og raunar hversu ömurlegir Íslendingar væru yfir höfuð og hafa verið sagðar ýmsar „séð og heyrt sögur“ því til stuðnings. Hvað þykir hv. þingmanni um þennan málflutning og hvernig telur hv. þingmaður að þessi málflutningur verði dæmdur eftir nokkur ár?