137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hittir nákvæmlega naglann á höfuðið þegar við tölum um málflutning hv. þingmanna Samfylkingarinnar. Það verður að segjast eins og er að manni finnst sjálfstraust þessara þingmanna ekki vera mikið. Einhvern veginn trúa þeir því að í hinu stóra volduga ríkjabandalagi sé allt miklu betra. Lögfræðingarnir þar eru auðvitað miklu klárari heldur en lögfræðingarnir okkar og þeir hafa náð þvílíkri fullkomnun í því að búa til ýmiss konar reglugerðarumhverfi og við þurfum að flýta okkur eins mikið og við mögulega getum til taka þetta himnaríki yfir, eða ekki yfir heldur komast undir það.

Því miður er af svo mörgu að taka og því miður kemur þetta nákvæmlega svo skýrt fram í þessari umræðu. Nú þekki ég fullt af fólki sem telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að fara í Evrópusambandið. Það eru alveg málefnaleg rök. En það fólk í Samfylkingunni sem ég umgengst alla jafnan, fyrir utan félagana í þinginu, líta svo á að við eigum að gæta hagsmuna Íslands. Það segir sig líka sjálft að ef forustumenn í ríkisstjórninni líta svona á málin, hvernig hafa þeir þá haldið á hagsmunum Íslands í þessum samningaviðræðum? Setjum okkur í þeirra spor. Ef þeir mæta og telja að þeir séu með algerlega vonlausan málstað, vondan málstað — telja að allt sem manni sjálfum eða því sem snýr að manni sé slæmt — eru líkur á því að viðkomandi nái góðum samningi? Reyndar er það svo að á því eru nákvæmlega engar líkur. Ég tala nú ekki um ef menn telja mikilvægt að ýta þessu frá til að komast í hið algóða Evrópusamband.