137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:57]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hugtökin réttlæti, sjálfstæði og fullveldi þjóðar hafa ótæpilega verið notuð í þessari umræðu og nú get ég ekki orða bundist lengur. Hvað er það sem gerir þjóð að þjóð? Það er samstaða á erfiðum tímum. (Gripið fram í: Nákvæmlega.) Við Íslendingar þekkjum náttúruhamfarir sem lamað hafa samfélag okkar og byggðir eins og þegar snjóflóðin féllu vestur á fjörðum og á Austfjörðum. Þá stóð þjóðin saman og Íslendingar studdu hver annan og byggðirnar fundu sér tilverugrundvöll á ný, risu á fætur og lífið hélt áfram. Þannig höfum við lifað í þessu landi í gegnum aldirnar, við öxlum byrðarnar saman. Þess vegna höfum við risið upp úr fátækt og harðindum og haslað okkur völl sem menningarþjóð og velferðarsamfélag sem við erum svo sannarlega. Þó að ímyndin hafi laskast og tímabundið óminni og óráð frjálshyggju og sérhagsmunagæslu hafi gripið um sig stöndum við samt á djúpum rótum sem þjóð. Við erum dugleg þjóð og samtaka og við erum aldrei sterkari en þegar við stöndum frammi fyrir erfiðleikum.

Nú erum við stödd á rústum fallinnar hugmyndafræði. Gleymum ekki ábyrgð okkar í því sem gerst hefur í þeirri hugmyndafræði. Gleymum ekki frjálshyggjudansinum sem stóð hér áratugum saman og gleymum ekki hverjir voru helstu meðreiðarsveinar og trumbuslagarar í þeim dansi.

Sú hugmyndafræði féll yfir okkur eins og snjóflóð og nú stöndum við og erum að reyna að finna okkur bjargir. Það eina sem ljóst er í þessu máli er að við erum í sporum sem ekki eru sanngjörn, ekki réttlát, en við verðum að komast úr þessum sporum og það eina sem við getum gert er að axla þær byrðar sem við berum saman. Icesave-samningurinn er einn af þessum byrðum en við verðum að axla hann saman og standa ábyrg gagnvart öðrum þjóðum, ekki sem einstaklingar heldur sem þjóð.