137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:22]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hinn nýi hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, kvartar mikið undan okkur framsóknarmönnum þegar við spyrjum beinna spurninga í þessari mikilvægu umræðu. Hann sagði að í kjölfar bankahrunsins hefði það ekki tíðkast af hálfu vinstri grænna að stunda einhverjar skylmingar heldur hefði verið mikil ábyrgð í þeirri umræðu. Ég ætla að rifja það upp fyrir hv. þingmönnum Vinstri grænna hvað gerðist þriðjudaginn 20. janúar. Þá öskruðu þingmenn Vinstri grænna í þessum sal: „Vanhæf ríkisstjórn.“ Vinstri grænir voru ekki ábyrgir þá í umræðu í þingsal. Það má margt segja um málflutning okkar framsóknarmanna í þessari umræðu en við komumst ekki í hálfkvisti við þann málflutning sem hv. þingmenn Vinstri grænna viðhöfðu í janúarmánuði. Var ekki málflutningurinn sá að almenningur ætti ekki að greiða óreiðuskuldir auðmanna? Hvað hefur breyst á nokkrum mánuðum hjá hv. þingmönnum Vinstri grænna? Hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon getur ekki hlaupist frá þessu og ég efast um að hann þori upp í andsvar við mig út af þessu máli.