137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fundarhlé vegna nefndarfundar.

[12:01]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Lagt er til að kvöldfundur verði í kvöld í þinginu og ég vil vekja athygli þingheims á því að hér er lagt upp með dagskrá sem varð til með nokkuð óvæntum hætti þar sem ákveðið var að fara ekki í umræðu um ESB-umsókn vegna þess að utanríkismálanefnd hafði ekki lokið við að senda frá sér sín álit. Vandinn er sá að á undanförnum dögum hefur stjórn þingsins ekki verið með þeim hætti sem ásættanlegt er. Við teljum að það sé ekki nægilega fast haldið á málum. Það er vilji okkar sjálfstæðismanna að kláruð verði þau stóru mál sem liggja fyrir, bæði umsóknin um ESB-aðild og Icesave-samkomulagið, þannig að sómi sé að fyrir þingið. En það veltur auðvitað á því að betur sé haldið á þingstjórninni. Sú uppákoma sem varð í morgun þar sem ákveðið var að fresta þingfundi vegna þess að einn nefndarformaður hafði samband við þingforseta og óskaði eftir slíku án þess að búið væri að ráðfæra sig við aðra gengur auðvitað ekki upp.