137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fundarhlé vegna nefndarfundar.

[12:08]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það sem truflað hefur stjórn þingsins þessa vikuna eru fyrst og fremst tvö stór mál, Evrópusambandið annars vegar og Icesave-málið hins vegar. Við höfum upplifað það í þessari viku, ekki bara að heilum nefndardegi væri bætt við vegna þess að ríkisstjórnin var með algerlega óraunhæfar væntingar um það hversu hratt málin gætu unnist í nefndum heldur hefur innan dagsins þurft að fresta þingfundum vegna þess að uppi voru óraunhæfar væntingar um að málin væru að klárast.

Staðreyndin er sú og það birtist auðvitað mjög vel í starfi utanríkismálanefndar að ESB-málið er ekkert annað en djúpsprengja inn í þingið sem er margklofið og allt í tætlum. Það er þannig sem ríkisstjórnin stýrir landinu, það er þannig sem ríkisstjórnin stýrir þinginu — sprengir allt upp í tætlur, elur á sundrung og ósamlyndi meðal þjóðarinnar þegar þörfin er mest fyrir samstöðu. Það eina sem stjórnarandstaðan fer fram á í utanríkismálanefnd í þessu máli (Forseti hringir.) er að þar sem þessi staða er uppi skuli efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu og ég held að hæstv. forseta mundi þá ganga (Forseti hringir.) aðeins betur að halda utan um stjórnartaumana á þinginu.