137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fundarhlé vegna nefndarfundar.

[12:14]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Því miður missti ég af upphafi þessarar umræðu undir liðnum um fundarstjórn forseta. Ég vil þó segja það varðandi fundarhaldið í utanríkismálanefnd að það var fundur þar í morgun sem dróst umfram það sem ráðgert hafði verið. Við vorum að ræða þar tvö stór mál, Icesave-mál og ESB-mál, og það var óskað eftir því og spurt hvort unnt væri að fresta upphafi þingfundar til að utanríkismálanefnd gæti lokið störfum. Það er rétt að hún lauk störfum áður en þingfundur átti að hefjast upphaflega en kom síðan saman aftur til fundar kl. hálftólf til að afgreiða mál númer tvö sem lýtur að umfjöllun um Evrópusambandið.

Hvað það varðar að nefndin sé margklofin í málinu þá á það auðvitað eftir að koma betur í ljós þegar við sjáum nefndarálitin frá annars vegar Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, hvort málefnalegur ágreiningur er jafndjúpstæður (Forseti hringir.) og hér er haldið fram. Ég efast um það þó að því miður hafi ekki reynst unnt að ná (Forseti hringir.) samstöðu allra um eitt nefndarálit.