137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fundarhlé vegna nefndarfundar.

[12:18]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Forsætisnefnd þingsins hittist korter fyrir kl. 10 í morgun á stuttum fundi til að fara yfir dagskrá fundarins í dag. Ég sit í forsætisnefnd. Við erum rétt komin út af forsætisnefndarfundi að ganga til salar til að hefja þingfund þegar virðulegur forseti þingsins frestar fundi. Það er að beiðni formanns utanríkismálanefndar vegna þess að óskað var eftir fundi í utanríkismálanefnd. Sá fundur hófst kl. 11.30. Það kann að vera að málið sem utanríkismálanefnd er að fjalla um sé brýnt og þurfi marga og mikla umræðu en það þarf líka að sýna þeirri dagskrá sem þegar hefur verið ákveðin og boðuð tilhlýðilega virðingu og í mínum huga, virðulegi forseti, hefði verið farsælla að setja fund, ganga til dagskrár og fresta hins vegar fundi ef það hefur þótt tilhlýðilegt vegna fundar í utanríkismálanefnd.