137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

uppbyggingaráform í iðnaði.

[12:35]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Hér er gríðarlega mikið í húfi. Það er fyrirliggjandi að við erum stór matvælaútflutningsþjóð. Við flytjum líka mikið út af áli og öðrum iðnaðarvörum. Það er lykilatriði á komandi árum að við fjölgum stoðunum undir útflutningstekjum Íslendinga og það er lykilatriði að við ræðum það líka í þeirri miðri varnarbaráttu sem við erum í fyrir hönd íslensks þjóðfélags hvernig við ætlum að byggja upp.

Ég fagna svari hæstv. iðnaðarráðherra. Það er vinna í gangi en við þurfum bráðum að fara að sjá á spilin í þeirri vinnu. Við þurfum að fara að sjá hvernig ríkisstjórnin hugsar sér að byggja upp á komandi árum vegna þess að það er ögurstund í þessum efnum, það er ögurstund akkúrat núna. Ég bendi á eitt í þessu sambandi að ef við ætlum að vera í fararbroddi í uppbyggingu á grænum iðnaði og mæta allri þeirri eftirspurn sem verður eftir slíkum iðnaði á komandi árum verðum við auðvitað að forgangsraða heima fyrir. Snýst vinnan í ráðuneytinu um það að forgangsraða þeim áherslum í vil? Þetta lýtur auðvitað að orkusölunni. (Forseti hringir.) Ætlum við að forgangsraða í orkusölu þessum áherslum í vil?