137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

strandveiðar.

[12:42]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég verð að játa að svar hæstv. ráðherra veldur mér nokkrum áhyggjum. Það er eins og hæstv. ráðherra hafi ekki fylgst mjög vel með því sem hér var sagt. Það var ekki spurt um hvernig gengi að láta menn fara eftir reglunum. Það sem spurt var um og menn hafa áhyggjur af er hvers eðlis reglurnar eru og hvaða afleiðingar þær hafa.

Þetta mun bara fara svona: Annaðhvort eykur hæstv. ráðherra kvótann sem er til ráðstöfunar í þessu til að mæta því að fleiri og fleiri koma inn, og það sem mun gerast er að bátunum fjölgar til að nýta hinn aukna kvóta, eða að hæstv. ráðherra gerir ekki neitt og bátunum fjölgar þangað til að menn geta farið með þetta eins og gert var í Bandaríkjunum með lúðuveiðarnar, þar var hleypt af fallbyssu, menn veiddu í þrjá tíma og veiðunum var lokið. Eða í þriðja lagi að hæstv. ráðherra lokar fyrir aðganginn sem er auðvitað langlíklegast að gerist eftir að hann er búinn að hækka kvótann í tví- eða þrígang og getur ekki komist lengra í þá áttina. Og hvað gerist þá? Það myndast ný réttindi fyrir þá sem fóru inn í þetta og þeir sem helst fara inn í þetta kerfi eru auðvitað þeir sem voru í gamla kerfinu, seldu sig út úr því og áttu bátana. (Forseti hringir.) En auðvitað munu fleiri bætast við og þetta mun allt enda í tómri vitleysu þrátt fyrir það að menn fari einmitt eftir reglunum eins og hæstv. ráðherra fór yfir. Að sjálfsögðu munu menn gera það en niðurstaðan verður akkúrat þessi, því miður.