137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

reikniaðferð í Icesave-samningnum.

[12:48]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil leiðrétta ef ég hef sagt fyrr í umræðunni að þetta væri álit eða gagn sem væri komið fyrir fjárlaganefnd. Svo er ekki. Hins vegar hafa færir lögmenn á Íslandi bent mér á sérstaklega að svo virðist sem samninganefndin hafi mistúlkað íslenskan rétt í samningaferlinu og komist að þeirri niðurstöðu að sú villa geti leitt til þess að við tökum á okkur auka 50–100 milljarða. Það er ekki búið að reikna það fyllilega út en verður væntanlega gert í fjárlaganefnd. Maður veltir þessu fyrir sér vegna þess að maður hefur stundum á tilfinningunni í þessu máli að það skipti engu máli hvaða gögn komi fram, þetta mál eigi að keyra í gegn með góðu eða illu. Þess vegna endurtek ég spurninguna sem hæstv. utanríkisráðherra svaraði ekki: Mundi hann telja, ef satt reynist að þessi mistök (Forseti hringir.) hafi verið gerð, að þetta sé forsendubrestur í málinu sem leiði til þess að Alþingi Íslendinga eigi að hafna ríkisábyrgð á Icesave-skuldbindingunum?