137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

reikniaðferð í Icesave-samningnum.

[12:50]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég hef stundum sagt úr þessum stóli þegar ég hef fengið spurningar sem eru að eðli til svipaðar þeirri sem hv. þingmaður varpaði til mín að í þeim efnum fylgi ég hinni gullnu reglu sem fyrrverandi forsætisráðherra Breta, Margaret Thatcher hélt í heiðri. Hún sagðist ekki svara fræðilegum spurningum. Hv. þingmaður hefur varpað því hér fram (Gripið fram í.) að gildir lögmenn — og ég dreg ekkert úr verðleikum þeirra — hafi sagt honum að tilteknir hlutir hafi verið gerðir með röngum hætti og það geti haft alvarlegar afleiðingar á niðurstöðu og útreikninga. Þá segi ég við hv. þingmann: Ég tel að það væri rétt hjá honum og í samræmi við þingskyldur hans við rannsókn þessa máls að leiða þessi sjónarmið fram þá af munni þessara lögfræðinga í fjárlaganefndinni eða með skriflegum hætti. (Gripið fram í: Það verður gert.) Nefndin fer þá yfir það og kemst að því hvort það sé talið hugsanlegt að einhvers konar forsendubrestur sé í þessu máli Ég er ekki fær um hér að kveða upp úr með það. (HöskÞ: En ef þetta væri rétt?) (Forseti hringir.) Ég er ekki í fjárlaganefndinni og ég segi eins og Margaret Thatcher að maður á ekki að svara fræðilegum spurningum, sérstaklega ekki ef þær eru í þáskildagatíð og viðtengingarhætti.