137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

ríkisábyrgð vegna Icesave.

[12:52]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Samkvæmt 48. gr. stjórnarskrárinnar eru alþingismenn eingöngu bundnir við sannfæringu sína og ekki við neinar reglur frá kjósendum sínum eins og það er orðað þar. Í þessu felst að hæfisreglur stjórnsýslulaga taka ekki til starfa þingmanna sem slíkra og í 64. gr. þingskapa er svo kveðið á um skyldu þingmanns til að vera viðstaddur og taka þátt í atkvæðagreiðslu nema hann hafi lögmæt forföll eða fararleyfi. Einu hæfiskröfurnar sem gerðar eru til þingmanna við afgreiðslu mála á Alþingi koma fram í 3. mgr. þessarar greinar en þar segir að enginn þingmaður megi greiða atkvæði með fjárveitingu til sjálfs sín. Það á ekki við í þessu efni þannig að ég tel mér skylt að taka þátt í atkvæðagreiðslunni.