137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[13:44]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að taka það á mig að ég tók mér það bessaleyfi að þýða enska slanguryrðið „free-riders“ yfir á íslensku sem „sníkjudýr“. Ég veit að þessi þýðing hefði kannski átt betur við sem þýðing á enska orðinu „parasite“. Ég gat þó ekki skilið þau orð sem féllu öðruvísi en að með þeim væri átt við að einhver tæki eitthvað sem hann ætti í rauninni ekki rétt á.

Ég verð hins vegar að benda hv. þingmanni á að við t.d. höfum verið mjög sammála um að leggja aukna áherslu á jafnrétti kynjanna í skipan stjórna fyrirtækja, stofnana á vegum ríkisins og almennt í samfélaginu. Ég veit ekki betur en þar séum við að reyna að koma fram ákveðinni hugmyndafræði og ákveðinni hugsun með löggjöf. Ég er því algjörlega ósammála hv. þingmanni um að ekki sé hægt með einhverjum hætti að hvetja til hegðunar með löggjöf sem einkennist af samkennd, samhyggju og samvinnu sem ég viðurkenni alveg að ég er óþreytandi að tala fyrir.