137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[13:51]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Vonandi með því að hafa trú á fólki, ég vona svo sannarlega að það sé alla vega byrjunin að hafa trú á hinu góða í manneskjunni.

Hins vegar er ég, og það er eitthvað sem ég hefði mikinn áhuga á að kynna fyrir hv. þingmanni, einmitt að vinna að þingsályktunartillögu sem ég vonast til að geta lagt fram á haustþinginu. Hún byggir á mjög langri og viðamikilli ályktun Alþjóðavinnumálasambandsins, ILO, þar sem einmitt er verið að hvetja ríkisstjórnir víðs vegar í heiminum til að taka upp hugmyndafræðina á bak við samvinnuhreyfinguna og gera sitt besta til að hvetja til þess að slík rekstrarform nái að blómstra og ekki bara rekstrarformin, heldur er bent á hvað hægt væri að gera jafnvel innan skóla, eins og að hvetja til þeirrar hugsunar að menn eigi að taka þátt í samfélagslegum verkefnum og menn eigi að gefa af sér. Ég skal svo sannarlega kynna þetta fyrir hv. þingmanni.

Ég vil líka hvetja hann til að skoða hvað hefur verið að gerast í löndunum í kringum okkur, eins og í Bretlandi og á Norðurlöndunum þar sem samvinnuhreyfingin hefur einmitt gengið mun betur á undanförnum árum. Þar hafa líka verið að poppa upp ný form fjármálafyrirtækja, hin svokölluðu Credit Unions sem aðeins einstaklingar geta staðið að og það er mjög stífur rammi um það hvað þau fyrirtæki geta leyft sér. Ég hef líka skoðað norsku löggjöfina. Þar eru sett mjög stíf skilyrði fyrir því í hverju t.d. sparisjóðir geta átt og það er eitt af því sem ég mundi gjarnan vilja skoða líka varðandi reksturinn á sparisjóðum á Íslandi.

Það eru ýmsar leiðir til að tryggja þetta en ég held að við verðum að byrja á því að hafa trú á hinu góða í manneskjunni.