137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[13:53]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta voru athyglisverð skoðanaskipti milli hv. þingmanna áðan. Það er kannski eitt af því sem okkur veitti ekki af að fara aðeins yfir, einmitt í tengslum við það þegar við erum að fara yfir fjármálamarkaðinn bæði í nefndum þingsins og í þingsal, hvað fór úrskeiðis og hvernig við getum komið í veg fyrir að það gerist aftur.

Ég er sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal um skilgreiningu fólks á nýfrjálshyggju og að þeir sem tala mest um hana eru þeir sem telja sig vera mest á móti henni. Ég hef aldrei vitað hvað nýfrjálshyggja er en þó finnst mér það hvernig menn leggja út frá þeim málum og hvernig þeir tengja hana sé í besta falli mjög hæpið, eins og ég er ekki alveg sáttur við útleggingu hv. þm. Péturs H. Blöndals á kristni en það er kannski umræða fyrir annan fund en þennan.

Hins vegar er gott að vita til þess og hollt að hugsa til þess að lagakerfi okkar og þjóðfélag er byggt upp á kristnu siðferði og það tengist í rauninni miklu fleiru en við viljum kannski vera láta alla jafna. Það er gott að vita af því, því að það er sú hugmyndafræði sem hefur gert það að verkum að við erum að byggja upp velferðarþjóðfélag og það hefur verið sátt um að það sé kristin hugmyndafræði en ekki einhverjar erlendar öfgastefnur eins og margir vilja vera láta oft í umræðunni. (TÞH: … kristni sé ekki erlend stefna?) Ekki öfgastefna. Hv. þm. Tryggvi Herbertsson spyr hvort kristnin sé ekki erlend stefna, hún er í það minnsta ekki erlend öfgastefna svo að því sé algjörlega til haga haldið. Ég held að hún sé frekar hógvær stefna, enda byggjum við sjálfstæðismenn á kristnu siðferði og þar af leiðandi hlýtur hún að vera góð, er það ekki?

Virðulegur forseti. Einhver kynni að halda að þetta væri langt frá því máli sem við erum að ræða hér en svo er ekki. Það sem við erum að fjalla um er afskaplega mikilvægur þáttur fjármálakerfisins á Íslandi því að það er sama hvað mönnum finnst um sparisjóðina og það rekstrarform, hvort það hafi verið skynsamlegt og æskilegt að halda því formi og það sé markmið í sjálfu sér eður ei, þá getur enginn hlaupið frá þeirri staðreynd að það hefur verið stór þáttur í fjármálakerfi landsmanna og kannski sérstaklega fjármálakerfi hinna dreifðu byggða. Það hefur því miður farið lítið fyrir umræðu almennt um sparisjóðina og framtíðarhlutverk þeirra í nefndinni. Við gætum sagt og það eru málefnaleg rök fyrir því að við höfum ekki haft tíma til þess á sumarþinginu en samt sem áður er verið að leggja fram frumvarp sem er í rauninni að leggja grunninn að breyttu sparisjóðaumhverfi en menn hafa ekki tekið umræðuna um það, menn hafa ekki tekið þá umræðu í þingnefndinni. Það var hugmynd okkar sjálfstæðismanna og almennt í minni hlutanum að menn mundu klára það sem sneri að bráðaaðgerðunum, því sem er nauðsynlegt að gera núna, og það hafa verið færð málefnaleg rök fyrir því að það sé nauðsynlegt að ganga frá því hratt og vel, en taka síðan hinn þáttinn og undirbyggja hann betur því að þar erum við að tala um mjög stóra hluti.

Nú eru að menn tala um, og er kannski það sem er gott við það ástand sem núna er að menn eru að velta ýmsum hlutum fyrir sér og það er verið að ræða ýmislegt, en stundum hefur mér fundist að menn séu að fara einhver 10, 20, 30 ár aftur í tímann og tali um að allt hafi verið á rósrauðu skýi á Íslandi og allt að því fullkomið og við þurfum einhvern veginn að koma okkur þangað. Menn tala t.d. um það sem stenst ekki skoðun, og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sem þekkir þessi mál vel hefur farið ágætlega yfir ákveðinn þátt mála hvað það varðar, menn vilja, með ákveðinni einföldun, leggja málin upp með þeim hætti að sparisjóðirnir sem sinntu hefðbundinni starfsemi sparisjóða séu í mjög góðum málum en þeir sparisjóðir sem fóru út í einhvers konar braskvæðingu standi mjög hallir eftir. Sérstaklega hafa verið nefnd fyrirtæki eins og Exista og Kaupþing, að sparisjóðirnir hafi verið að braska mikið hvað þá hluti varðar.

Það má færa full rök fyrir því að sparisjóðirnir hefðu átt að koma sér út úr þeirri hlutabréfaeign eða a.m.k. ef þeir voru með slíka hlutabréfaeign að hafa hana eitthvað dreifðari og ekki alla í sömu körfunni hjá þessum tengdu félögum á Íslandi og þá mundu þeir örugglega standa betur að vígi hvað það varðar. Það eru hins vegar söguleg rök fyrir því, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, að þeir áttu svona stóra hluti í þessum félögum. Sögulegu rökin eru einfaldlega þau að sparisjóðirnir keyptu sig inn í Kaupþing á sínum tíma og komu ef ég man rétt mjög fljótlega að því fyrirtæki, hvort þeir voru stofnaðilar man ég ekki. Forustumenn sparisjóðanna töldu því með réttu eða röngu að þetta væri einhvers konar partur af þeirra félögum.

Hvað sem því líður, virðulegi forseti, var mjög lítið farið í, og það er auðvitað verkefnið, hvernig gekk hjá sparisjóðunum í almennum rekstri, hinum hefðbundna rekstri. Við erum með svar frá fulltrúa viðskiptaráðuneytisins, ég ætla að lesa það, sem er eina svarið sem liggur til grundvallar. Það hefði auðvitað þurft að fara miklu betur í það úr því að það er vilji meiri hlutans að fara í málið í heild sinni. Eins hefði verið miklu nær úr því að meiri hlutinn vildi fara í þetta allt saman að skoða, eins og t.d. hv. þm. Eygló Harðardóttir hefur margoft bent á, sambærilega löggjöf í þeim löndum sem við berum okkur saman við þannig að við hefðum einhver viðmið hvað þessa hluti varðar. En svo ég vitni í svar viðskiptaráðuneytisins um það hvernig afkoma sparisjóðanna var, þ.e. hefðbundin starfsemi, þá segir þar, með leyfi forseta:

„Í upplýsingum sem FME sendi ráðuneytinu í september í fyrra er samantekt um afkomutölur sparisjóðanna sem unnin var upp úr ársuppgjöri þeirra fyrir 2007. Þar kemur fram að hagnaður fyrir skatt af kjarnastarfsemi er þá plús 12%“ (Sparisjóður Þingeyinga) og niður í mínus 38% (Sparisjóður Þórshafnar). Hinir eru flestir með neikvæða afkomu. Aðeins Byr og Sparisjóður Vestmannaeyja voru jákvæðir. Kostnaður sem prósenta af kjarnatekjum var allt upp í 279% hjá þeim minnstu. Skást komu þeir stærstu út hvað þetta varðar með 44% (Byr).“

Virðulegi forseti. Þetta er fyrir 2007. Þetta er mjög gott ár í fjármálakerfi Íslendinga og þarna sjáum við samt sem áður að sparisjóðirnir almennt, þ.e. almenna starfsemin, eru reknir með tapi.

Hvernig tengist þetta því sem við ræðum hér? Enn og aftur vek ég athygli á því að hvort sem okkur líkar betur eða verr fór meiri hlutinn í það á miklum hraða, og ekki bara á miklum hraða sem ég kem nánar inn á á eftir, að keyra í gegn það sem snýr að björgunarpakkanum og er það vanreifað til að ganga frá því sem lögum frá Alþingi, heldur fóru menn yfir í breiðu myndina líka. Við erum að horfa á það, virðulegi forseti, ef hlutirnir ganga fram sem ég held að sé vilji flestra — bæði fyrri ríkisstjórn og núverandi settu það sem part af neyðarlögunum sem allir þingmenn samþykktu að reisa við sparisjóðakerfið og menn töldu það bæði skynsamlegt og í rauninni hagkvæmt fyrir ríkisvaldið — þá stöndum við uppi með sparisjóði sem verður snúið að sjá hvaða rekstrargrundvöll hafa. Að minnsta kosti hafa ekki komið fram í umfjöllun nefndarinnar áætlanir um það eða verið metið hvernig það lítur út.

Hvað þýðir þetta, virðulegi forseti? Það þýðir að að öllu óbreyttu gæti þetta mál, sparisjóðamálið allt saman, komið til okkar aftur fyrr en seinna. Það getur líka farið þannig, virðulegi forseti, vegna þess að við höfum ekki undirbyggt málið nógu vel að kostnaðurinn verði tvöfaldur, þ.e. að við þyrftum hugsanlega að bera kostnað af sparisjóðakerfinu aftur, ef þannig má að orði komast. Nú getur vel verið að þetta verði ekki þannig en það eina sem við vitum er að við vitum ekkert um það. Af hverju? Vegna þess að þingnefndin hefur ekkert farið í það.

Virðulegi forseti. Ef við ættum að geta lært eitthvað af undanförnum árum og áratugum þá er það það að okkur veitir ekkert af því í hinum ýmsu málaflokkum, sérstaklega þeim sem snúa að fjármálaumhverfinu af því að við höfum brennt okkur á því en ég held að það eigi við fleiri, að vanda okkur þegar kemur að lagasetningu. Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að við höfðum öll tækifæri til þess að setjast yfir og klára það sem snýr að björgunaraðgerðunum, kryfja það til mergjar og ganga frá því sem lögum frá Alþingi og taka síðan það sem snýr almennt að sparisjóðaumhverfinu og fjármálaumhverfinu í haust. Meiri hlutinn vildi það ekki. Meiri hlutinn vildi ekki vinna þetta í sátt innan nefndarinnar, meiri hlutinn vildi ekki ganga faglega í þessi verk, þvert á móti kallaði hann eftir ágreiningi við minni hlutann og það er algjörlega þeirra ákvörðun.

Við stöndum uppi með það, virðulegi forseti, og nú kem ég að björgunarþættinum sem snýr að því að framkvæmdarvaldið hefur fært rök fyrir því að það sé nauðsynlegt að færa niður stofnfé sparisjóðanna til að það sé réttlætanlegt að setja fjármuni inn í þá sparisjóði sem nú eru. Það er augljóst að búið er að taka ákvörðun um hvernig það verður gert og við höfum kallað eftir því að þær reglur eða þau viðmið séu upplýst innan nefndarinnar en það hefur ekki verið gert, virðulegi forseti. Þetta kom fram hjá gestum frá framkvæmdarvaldinu innan nefndarinnar þó svo að sjónarmið þeirra eða orð hafi verið mjög misvísandi. En ég ætla þeim, virðulegi forseti, sem fara með framkvæmdarvaldið ekki annað en að hafa jafnræðissjónarmið að leiðarljósi. Með öðrum orðum, þeir verða þar af leiðandi að setja sér reglur. Þegar fulltrúi framkvæmdarvaldsins sagði að þær reglur væru að sjálfsögðu til í fjármálaráðuneytinu en svo kom annar í kjölfarið og setti ofan í við viðkomandi þá ætla ég þeim aðila sem upplýsti það að hann hafi sagt satt. Ég rétt leyfi mér að vona það vegna þess að ef menn eru komnir af stað í þessa vegferð, eru byrjaðir að leggja drögin að þessu, þá ætla ég mönnum ekki annað en að miða við einhverjar reglur, gegnsæjar reglur. Ef þeir gera það ekki kallar það fram gríðarleg vandamál svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Það er auðvitað ekki verjandi að afgreiða sparisjóði misjafnlega, fara eina leið með sparisjóð A en allt aðra leið með sparisjóð B. Ég hef ekki trú á því, virðulegi forseti, að um slíkt yrði nokkurn tímann sátt.

Hvað þýðir það, virðulegi forseti, að færa niður stofnfé og jafnvel að færa stofnfé niður í núll til að ríkið geti komið inn með fjárframlag? Það þýðir, ef farið verður alla leið og stofnfé sparisjóðs fært niður í núll og ríkið kemur inn, að þá er stofnféð að fullu í eigu ríkisins. Með öðrum orðum, þetta verður þá ríkissparisjóður. Og þó svo að það fari ekki alveg niður í núll eru miklar líkur á því að ríkið sé með mikinn meiri hluta stofnfjárins. Gott og vel. Við þekkjum það að núna eru fjármálastofnanir að fara í eigu ríkisins en hvers konar sparisjóður er ríkissparisjóður, hvers konar fyrirbæri er það? (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Ég bið hv. þingmann að kalla aftur fram í, ég heyrði ekki nákvæmlega hvað hann sagði. (PHB: Það er heiðardalur.) Hv. þm. Pétur H. Blöndal kallar fram í að það sé heiðardalur og ég býst fastlega við að hann útskýri það í þingræðu á eftir.

Virðulegi forseti. Hugmyndin á bak við sparisjóðina hlýtur að vera með þeim hætti og getur ekki verið annað en að það sé þá í miklum tengslum við það svæði sem viðkomandi sparisjóður starfar á. Það er að vísu ekkert einfalt í því vegna þess að almenna reglan virðist sú að litlu sparisjóðirnir eigi erfitt rekstrarlega þó að á því séu undantekningar en undantekningarnar sýnist manni fljótt á litið aðallega koma til vegna þess að þeir sem stýra þeim sparisjóðum eru afskaplega aðhaldssamir og skynsamir aðilar. Hin hliðin á því er hins vegar sú að þeir ná kannski ekki að veita stærri aðilum og fyrirtækjum á viðkomandi heimasvæði þá þjónustu og þann stuðning sem fjármálastofnanir þurfa að veita slíkri atvinnustarfsemi þannig að atvinnufyrirtækin þurfa þá oftar en ekki að sækja fjármálaþjónustu út fyrir sparisjóðinn sinn.

Síðan hafa menn byggt upp kerfi, sem má svo sannarlega fara yfir og það er mín skoðun að fara megi yfir og gera gegnsærra og skýrara, þar sem menn hafa haft stofnfjáreigendafyrirkomulag sem í grófum dráttum gengur út á það að menn greiða fyrir stofnfé og fá á það ákveðinn arð. Svo reyna menn að finna eitthvert jafnvægi í það að menn fái einhvern arð þannig að það sé hagkvæmt fyrir viðkomandi einstakling eða fyrirtæki að setja stofnfé inn í sjóðinn en samt sem áður á sparisjóðurinn að vera það sem er kallað hornsteinn í héraði, sem hefur verið slagorð sparisjóðanna, vera meira en bara hefðbundið bankaútibú stærri banka og vera fyrirtæki sem er með sérstök tengsl við viðkomandi svæði.

Spurningin er þá sú: Hver er þá orðinn munurinn á ríkisútibúi bankans á viðkomandi stað og ríkissparisjóði? Í hverju liggur munurinn þar? Til dæmis, virðulegi forseti, ef menn ætla eða hugsa þetta út frá þeim forsendum að vilja halda í karaktereinkenni sparisjóðanna, það form, þá hafa menn til skamms tíma a.m.k. reynt að hafa einhverja tengingu frá viðkomandi svæði við stjórn sjóðsins. Það er ekki gert. Sömuleiðis að koma með einhverja áætlun um það hvernig koma mætti heimaaðilum inn í sparisjóðina, þ.e. að nýir stofnfjáreigendur væru frá viðkomandi svæði eða í sem mestum tengslum við það. En hér hafa verið færð málefnaleg rök fyrir því að það gæti af mörgum ástæðum orðið mjög erfitt þegar þessi lög hafa náð fram að ganga.

Það vakti mér ugg þegar ég hlustaði á formann nefndarinnar ræða þetta síðast þegar þetta mál var til umræðu þar sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir fór yfir það, virðulegi forseti, að það væri ekki hlutverk núverandi ríkisstjórnar að losa um eignarhluti í fjármálafyrirtækjum. (Gripið fram í.) Það væri bara ekki hlutverk þessarar ríkisstjórnar (ÁI: Þetta er rangt eftir haft…) og þótti það allt hið kómískasta mál að ræða það sem eitthvert verkefni og gott ef það var ekki flissað í þingsalnum með hv. þingmanni þó svo að ég eigi ekki von á því, virðulegi forseti, að það hafi farið í þingtíðindin, en ummælum hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur er örugglega hægt að fletta upp því að hér kallar hv. þingmaður að rangt hafi verið eftir sér haft.

Virðulegi forseti. Hins vegar vakti ég athygli á þessum ummælum í umræðunni þá. Hv. þingmaður mótmælti því ekki þá að hafa sagt þessa hluti og bætti í rauninni í það. En kannski finnst hv. þingmanni það ekki rétt núna að hafa haldið slíku fram og það er þá athyglisvert sjónarmið.

Stóra málið er hins vegar þetta, burt séð frá því, virðulegi forseti, hvað hv. þingmaður sagði, að það eru engar áætlanir eða hugmyndir um það hvernig ríkið ætlar að koma sér út úr þessu fyrirtæki. Við höfum spurt um það frá fyrsta degi hvernig menn ætli að gera það. Ef menn vilja halda í þetta fyrirkomulag sem mér heyrist mikill vilji til, í sparisjóðafyrirkomulagið eins og við þekkjum það, hvernig eiga þá nýir stofnfjáreigendur að koma að sparisjóðunum og hverjir eiga þeir að vera?

Mín skoðun er sú almennt um stofnfjáreigendur og það fyrirkomulag að það sé afskaplega mikilvægt að það fyrirkomulag sé gegnsætt. Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei almennilega skilið af hverju sumir eru stofnfjáreigendur og sumir ekki, ég hef aldrei séð auglýst eftir stofnfjáreigendum, ég hef aldrei séð reglur um það hvernig aðilar gerast stofnfjáreigendur. Ég hef bara aldrei séð það. Ég held að það væri lykilatriði, og ef ekki núna hvenær þá? að við settum slíkar reglur. En við þurfum að vanda það verk og það er eitthvað sem meiri hluti nefndarinnar ætlar ekki að gera. Meiri hluti nefndarinnar ætlar að keyra þetta mál hratt í gegn í miklum ófriði og það er ekkert sem hefur kallað á það. Ég verð að viðurkenna það, virðulegi forseti, að þegar þetta mál kom inn átti ég ekki von á að um það yrðu miklar deilur og mér finnst það í rauninni aðdáunarvert með öfugum formerkjum að það skyldi vera hægt að kalla fram ágreining í málinu. Það þarf eiginlega sérstaka lagni til þess að búa til ágreining um þetta mál í viðskiptanefnd en svo sannarlega hefur meiri hlutanum tekist það og bara tekist mjög vel upp. Og ef það hefur verið markmið að búa til ágreining um sparisjóðina í landinu fær meiri hlutinn 9,5 af 10 mögulegum í því verkefni.

Alvara málsins er sú, burt séð frá því hvort meiri hluti eða minni hluti eru sammála, að við erum að ganga frá lagafrumvarpi sem umsagnaraðilar almennt eru sammála um að þurfi betri skoðun. Hvað þýðir það, virðulegi forseti, að umsagnaraðilar kalli eftir betri skoðun? Er það vegna þess að umsagnaraðilar og þingmenn séu svo hægir, að þeir séu bara svo lengi að lesa eða eitthvað slíkt? Það hefur ekkert með það að gera, það þýðir bara það að menn eru ekki vissir um hvað þessi lagasetning þýðir.

Við höfum séð, virðulegi forseti, hin ýmsu vandamál sem upp hafa komið vegna þess að menn hafa ekki verið með það á hreinu hvað sú lagaumgjörð sem hefur verið til staðar fyrir sparisjóðina þýðir. Reyndar man ég að menn hafa rokið hér upp til handa og fóta, virðulegi forseti, við að breyta lögum um sparisjóði á þinginu og breið samstaða um það, hvort það var ekki klárað á sólarhring á sínum tíma. Slíkar deilur komu upp vegna þess að lögin voru ekki skýr, menn voru ósammála um hvað lögin um sparisjóði þýddu og fyrir hvað sparisjóðirnir stæðu og hvernig allt þetta umhverfi væri.

Sá rammi er í jafnmiklu ef ekki meira uppnámi núna. Ég vek athygli á því að Fjármálaeftirlitið sem á að hafa eftirlit með þessum lögum lagði sérstaka áherslu á að nefndin tæki það sem sneri almennt að sparisjóðunum betur fyrir, bað þingnefndina sérstaklega um það. Við því var ekki orðið og er það vægast sagt óskynsamlegt að fara í það að taka 7. gr. sem snýr að framkvæmdarvaldinu, sem er forsenda fyrir því að það geti lagt fé í sparisjóðina, endurreist sparisjóðina, að taka þann þátt sérstaklega fyrir og svara þeim spurningum sem útfærslan á lögunum eins og þau eru núna, þ.e. frumvarpinu, kallar á, því að það kallar á svör við ákveðnum spurningum. Hvað er ríkissparisjóður? Hvernig sjá menn það fyrir sér? Það er alveg ljóst að þegar þessi lög hafa verið samþykkt og framkvæmdarvaldið fer fram eins og lýst hefur verið fyrir okkur í nefndinni miðað við þær upplýsingar sem við fáum, þá sitjum við uppi með ríkissparisjóðaumhverfi. Virðulegi forseti. Við sitjum uppi með ríkissparisjóðaumhverfi. Það umhverfi höfum við aldrei haft á Íslandi áður. Nú getur vel verið að það sé til staðar í einhverjum öðrum löndum, það getur vel verið en við höfum ekki fengið neinar slíkar upplýsingar.

Það liggur líka fyrir að forsvarsmenn meiri hlutans líta ekki á það sem neina bráðaaðgerð og í rauninni aðgerð í sjálfu sér að koma ríkinu út úr fjármálastofnunum. Það liggur alveg fyrir. Við vitum líka, virðulegi forseti, að það eru uppi áætlanir, við vitum að framkvæmdarvaldið er komið lengra en það tjáir viðskiptanefnd og þingmönnum. Ég velti því fyrir mér og það væri gaman að heyra frá hv. þingmönnum meiri hlutans sem eru ekki margir í salnum núna þegar við ræðum þetta mikilvæga mál, hvort þetta sé bara hugsað sem millileikur til þess að sameina sparisjóðina ríkisbönkunum. (Gripið fram í.) Að vísu er enginn hv. þingmaður stjórnarliðsins í salnum núna en vel mætt eins og venjulega af hálfu stjórnarandstöðunnar, (Gripið fram í: Sérstaklega frá Sjálfstæðisflokknum.) en ég held og veit að hv. stjórnarliðar heyra í mér og það væri kannski ágætt að fá að vita hvort hér sé um að ræða millileið til þess að sameina ríkissparisjóðina ríkisbönkunum. Ég hef sterka sannfæringu fyrir því eftir að búið er að fjalla um þetta mál í nefndinni og fá gesti frá framkvæmdarvaldinu og það hefur í rauninni komið fram. Það hefur komið fram að samningaviðræður séu hafnar við einstaka sparisjóði og augljóst að menn eru búnir að teikna upp hvernig þeir ætla að vinna þetta, að menn eru búnir að ákveða hvaða leið á að fara í þessu. Ég held að það væri afskaplega æskilegt, svo ég orði það bara hógvært, að þingmenn vissu hvað lagasetningin þýðir í framkvæmd, hvernig þetta muni líta út eftir nokkrar vikur.

Er það er svo, virðulegi forseti, að þetta sé niðurstaða meiri hlutans, og nú er ég bara að leggja út af því og reyna að draga ályktanir af því sem fram hefur komið að menn sjái hér ríkissparisjóði, að þetta sé nauðsynlegt skref til að sameina þetta inn í stærri einingar ríkisbankanna — menn hafa í þessu tilfelli vísað í hina víðfrægu eigendastefnu, sem enginn hefur séð, sem virðist vera grundvöllurinn að mörgu, m.a. þessu og sömuleiðis Bankasýslu ríkisins — er það er svo að menn séu búnir að ákveða það að steypa þessu saman? Í það minnsta er það grunsamlegt, virðulegi forseti, hvað stjórnarliðar hafa litlar áhyggjur af því að sparisjóðirnir verði ekki lengur sparisjóðir heldur ríkissparisjóðir.

Virðulegi forseti. Stjórnarliðar hafa farið mörgum orðum við hin ýmsu tilefni, fögrum orðum, flutt hjartnæmar ræður, um mikilvægi sparisjóðakerfisins. En við munum afgreiða lög frá Alþingi, ef meiri hlutinn fær sitt fram, sem gera það að verkum að almenna reglan verður sú að hér verða ríkissparisjóðir og stjórnarliðar hafa engar áhyggjur af því, algjörlega rólegir yfir því í þingnefndinni, algjörlega rólegir yfir því í þingsal að sparisjóðirnir sem við erum búin að tala svo mikið fyrir, að það form allt að því hverfi og hér verði ríkissparisjóðir og engar áætlanir, virðulegi forseti, um það hvernig eigi að breyta því, hvernig menn ætla að koma sér út úr því. Virðulegi forseti. Er ég einn um það að finnast þetta svolítið sérkennilegt? (TÞH: Þeir eru bara vanir því að það séu ekki neinar áætlanir.)

Virðulegi forseti. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson kallar fram í að þeir séu svo vanir því að það séu ekki neinar áætlanir. Það má vera að það sé ýmislegt til í því. En ég mundi ætla, ef eitthvað er að marka fyrri ræður hv. stjórnarþingmanna, að þeir hefðu leitt hugann að þessu nema hv. stjórnarþingmenn viti eitthvað allt annað en við, viti eitthvað miklu meira, að það séu einhverjar miklar áætlanir í gangi sem menn hafi ákveðið að láta þingheim ekki vita af. Það má vel vera, virðulegi forseti.

Aðalatriði málsins er þetta: Við sjálfstæðismenn og minni hlutinn höfum verið tilbúin í það og verið sátt um það, og ég trúi ekki öðru en að svo sé um stjórnarmeirihlutann líka, a.m.k. marga þingmenn þar, að fara sérstaklega í björgunaraðgerðaþáttinn og taka síðan almennilega hið stærra umhverfi. Ég held að öllum sem að málinu koma finnist það vera skynsamleg vinnubrögð. Það var ekki gert og við sitjum uppi með frumvarp sem er vanbúið og kallar fram miklu fleiri spurningar (Forseti hringir.) en svör og er því mjög varhugavert að klára málið með þessum hætti.