137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[14:54]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög merkilegt mál sem hér er til umræðu og ef maður lítur aðeins til þess viðfangsefnis sem frumvarpið tekur á er óhjákvæmilegt að líta aðeins í eigin barm. Ég, rúmlega fimmtugur maðurinn eins og sjá má þó að ég beri aldurinn þokkalega vel, (Gripið fram í.) það er rétt, hef allt frá barnæsku, allt frá fæðingu verið með viðskiptasjóð í Sparisjóði Svarfdæla, einum elsta sparisjóði landsins og einni framsýnustu peningastofnun til langs tíma þó að heldur hafi hrakað hin síðari ár, ég skal alveg viðurkenna það. En þegar þannig háttar til er óhjákvæmilegt að mál sem þetta taki í miklu fleiri taugar en bara krónutaugina í hverri manneskju sem þarna hefur átt viðskipti eða þarna hefur alið sinn aldur alla tíð og verið í tengslum við þessa fjármálastofnun sem hefur verið sú eina á svæðinu og hlutast til um að hlutir hafi gróið og manneskjur og fjölskyldur hafi náð að skapa sér einhverja tilveru.

Þó svo að að Svarfaðardalurinn sé með fegurstu sveitum landsins og blómlegasta byggð þá háttar þannig til í okkar ágæta landi að slíkar stofnanir eru mjög víða til. Í tengslum við þau áföll sem fjármálalíf landsins hefur orðið fyrir á síðustu mánuðum hafa allir þingmenn á hv. Alþingi orðið varir við þá ókyrrð og þá spennu og það óöryggi sem þessi staða gagnvart sparisjóðakerfinu í landinu hefur skapað. Í mínum huga er það ein af frumskyldum Alþingis að eiga þá þau skoðanaskipti við það fólk sem þarna á allt sitt undir, ekki bara fjárhagslega með stofnfjáreign í sparisjóðnum eða inneignum heldur líka allt sitt undir. (TÞH: Það er ekki gert í alræðisríkjum) Í alræðisríkjum er það ekki gert, hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson. Við erum sem betur fer ekki orðin það enn, en það er mjög eðlilegt við þessi tímamót í sögu sparisjóðakerfisins á Íslandi, þetta er rúmlega einnar aldar gamalt kerfi, að þá umgangist menn það af virðingu og hafi samráð við fólkið sem hefur stofnað til þessarar fjármálastarfsemi sem hefur borið uppi slíka þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins með þeirri virðingu sem það á skilið. (Gripið fram í.)

Þannig upplifir þetta fólk ekki stöðuna í dag, því miður. Maður hefði ætlast til þess ekki síst í ljósi þeirra stjórnmálaafla sem eru í meiri hluta á hinu háa Alþingi að menn sýndu landinu sínu meiri ræktarsemi en raun ber vitni í þessum efnum. Það gildir allt annað um stofnfé í sparisjóðum en hlutafé í fyrirtækjum, það vitum við öll sem hér erum inni. En umræðan um sparisjóðina eins og hún snýr við mér og mörgum öðrum, og ég er að enduróma raddir þess fólks sem hefur haft samband við mig út af þessu máli, er með þeim hætti að fólkið skynjar hana eins og að sparisjóðirnir séu eins og hvert annað fyrirtæki sem hefur verið í braski úti í bæ. Því miður er þetta svona.

Það er ekkert skrýtið þó að fólk taki þetta inn á sig. Sparisjóðirnir voru burðarásar í hverri heimabyggð, hafa staðið vörð um nærsamfélagið sem fjárhirðirinn, hv. þm. Pétur H. Blöndal, nefndi hér áðan, þeir hafa ræktað nærumhverfi sitt. Auðvitað sér fólk þessu umhverfi sínu ógnað. Þeir sparisjóðir sem eru til — og ég er fyrst og fremst að ræða um sparisjóði sem eru úti um land, ekki eingöngu þá sem eru á höfuðborgarsvæðinu, ég tel raunar sparisjóði á höfuðborgarsvæðinu tímaskekkju en það er annað mál — en þeir sparisjóðir sem þannig háttar til um hafa á undanförnum áratugum haldið lífi í fólki og fyrirtækjum á þessum svæðum einfaldlega vegna þess að ríkisvæddar fjármálastofnanir fyrr á árum og síðar einkavæddar ræktuðu ekki þessi svæði með þeim hætti sem menn vildu að yrði gert, þ.e. bankastofnanir aðrar en sparisjóðir sniðgengu þessi veiku svæði sem við getum kallað svo úti um land sem þurftu á því að halda að fá fjármagn frá þeim sem vildu láta eitthvað gróa þar. Og hvort sem mönnum líkar betur eða verr að heyra það sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson nefndi hér áðan, þá er það hárrétt að það er þekkingin á aðstæðum heima í héraði sem skiptir sköpum varðandi þá fyrirgreiðslu sem hér um ræðir.

Að því leyti til er það ekki rétt sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði áðan og gaf í skyn að sparisjóðirnir væru stofnanir þar sem fé væri án hirðis. Á þeim stofnfundum, aðalfundum sparisjóða sem ég hef heyrt af er það þvert á móti þannig að stofnfjáreigendur ganga hart fram og rekja garnirnar úr stjórnendum viðkomandi sparisjóða einfaldlega vegna þess að þeir þekkja til þess hvernig með starfsemina er unnið.

Nú glíma menn við það á mörgum svæðum að stofnfjáraukning hefur átt sér stað í ýmsum sparisjóðum vítt um land á undanförnum tveimur árum og ástæður þess að slíkt hefur átt sér stað eru margvíslegar. Það má kannski nefna þrjár sem vert er að geta hér. Í fyrsta lagi hafa menn bara haft hug á því að byggja sjóðina frekar upp og ætlað þeim stærri hluti. Í öðru lagi hefur verið um það að ræða á ýmsum svæðum að verið er að sameina sveitarfélög og oft í tengslum við það að sameina sparisjóði og þá er eðlilegt að gerðar séu einhverjar breytingar á stofnfjáreign um leið. Þá hugsa stofnfjáreigendur fyrst og fremst um það að halda styrk síns svæðis inni í viðkomandi stofnun þannig að þess sé gætt að það svæði innan hins nýja sveitarfélags fái þá þjónustu á sviði fjármála sem menn vilja og telja eðlilegt að veitt sé. Í þriðja lagi má nefna að einstaklingar og sveitarfélög í ýmsum tilfellum hafa verið að leggja fé til sparisjóða á sínu svæði á sínum eigin forsendum.

Nú er þessu öllu hætt og þessi staða er í hættu. Í mínum huga er stóra hættan fólgin í því að verið er að skera með einum eða öðrum hætti á þessa tengingu og þennan grunn að stofnun þessa kerfis sem stofnfjársparisjóðirnir hafa verið og það er illt að mínu mati. Ég held að það sé dapurt vegna þess að þetta er kerfi sem hefur gengið vel og reynst mjög vel og ég tel að á þeirri örlagastund sem upp er runnin fyrir þessi kerfi beri mönnum að fara ítarlegar og betur yfir þetta en gert hefur verið miðað við þær athugasemdir sem mér hafa borist því að við þurfum að hafa í huga hvaða afleiðingar þetta kann að hafa. Fjöllum aðeins um það og ég held mig enn utan höfuðborgarsvæðisins.

Við skulum bara líta á þá sjóði sem ég hef heyrt sögur af. Mér hefur borist mér til eyrna að gríðarlegur fjöldi býla í Húnavatnssýslu, allt upp í 200 býli séu undir varðandi einn tiltekinn sparisjóð þar. Á að setja þetta allt í hættu? Hvar er t.d. hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra Jón Bjarnason, sem ég minnist á þeim þingum sem ég hef setið, þeim fáu, fyrir mjög ötula baráttu fyrir þessu kerfi? Ég sé ekki hæstv. ráðherra hér á bekkjunum í dag. Ég mundi ætla að umbjóðendur hans í héraði söknuðu raddar hans í þessari umræðu. (Gripið fram í: Það er svo mikið að gera í strandveiðunum.) Já, það er brjálað að gera í strandveiðunum, það er hárrétt. Þær ganga mjög vel að sögn hæstv. ráðherra. Hér eru mætt hv. þingmenn Álfheiður Ingadóttir, formaður viðskiptanefndar, og Magnús Orri Schram, varaformaður nefndarinnar, og það ber að þakka þá eljusemi sem þau sýna þessu máli. En ég hef, ég skal viðurkenna það, saknað ákveðinna radda í þessari umræðu — og sérstaklega úr þeim stjórnmálaflokki sem hv. formaður viðskiptanefndar kemur úr, Vinstri grænum — tala fyrir því að verja þetta kerfi.

Ég sé það ekki fyrir mér t.d. sem Svarfdælingur að upplagi að Svarfdælir, Árskógsstrendingar, Hríseyingar fari að tala um ríkissparisjóð Svarfdæla. Það er bara kerfi sem gengur ekki upp og menn munu ekkert vinna á því en svo háttar til að þetta er eina fjármálastofnunin í því sveitarfélagi. Hvernig á að gera þetta, hvernig ætla menn að vinna þetta? Liggur fyrir að hv. viðskiptanefnd hafi metið áhrifin af þeirri gjörð sem stendur til að framkvæma hér á þau svæði landsins sem þetta hefur og mun hafa gríðarleg áhrif á? Er til mat um það? Hefur verið lagt eitthvert mat á áhrif þessa frumvarps á byggðir landsins, framtíðarvöxt, möguleika á atvinnuuppbyggingu eða þó ekki væri nema að verja það sem fyrir er? Ég teldi það gríðarlega gott skref að leggja í þá vinnu að vinna slíka úttekt, þó ekki væri nema að svara því fólki sem bíður svara, því eftir því sem mér skilst á þeim sem hafa borið mér fregnir af þeirri vinnu sem farið hefur fram í tengslum við nefndina liggur ekkert slíkt mat fyrir. Það liggur heldur ekki fyrir með hvaða hætti þetta verður unnið og ég vænti þess að það eigi þá eftir að koma fram í þeirri umræðu sem hér á eftir að fara fram.

Ég skal ekki draga úr því að örugglega vinna menn þetta starf af fullum vilja, ég ætla fólki ekki annað, til að mæta með sem bestum hætti áhrifunum af því sem er að skekja sparisjóðakerfið í landinu í dag. En viðbrögðin sem mér berast af því eru þau að fólk hefur litla sem enga trú á því að þessi frumvarpssmíð muni hafa þau áhrif sem til er ætlast af hvaða ástæðum svo sem það er. Við erum að vinna að lagasetningu sem höndlar um aleigu fólks, fleiri hundruð einstaklinga og fjölskyldna úti um allt land, og ég ítreka það að þá á ég ekki við endilega peningalega eign í stofnfé viðkomandi sparisjóða. Með aleigu fólks í þessu tilliti á ég við umhverfi þess, þ.e. hvar það hefur kosið sér búsetu og vill lifa sínu lífi. Aleigan er fólgin í því að það samfélag sem það hefur kosið sér og sett sig niður í geti átt lífvænlega framtíð. Grunnurinn í því er sá að á því svæði sé einhver fjármálastofnun sem ber hag þess byggðarlags fyrir brjósti og eftir því sem mér skilst eru menn að hætta því með því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Ég vil því hvetja hv. viðskiptanefnd til þess að gaumgæfa þetta mál rækilega, gefa sé þann tíma sem þarf til þess að leggja grunn að mjög vandaðri og góðri lagasetningu.