137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[15:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var nokkuð undarleg ræða. Maður hlýtur að spyrja sig hvar hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefur verið staddur undanfarin ár í hlutafélagavæðingu sparisjóðanna á vakt Sjálfstæðisflokksins þegar allt eigið fé hefur verið sogað út úr þessum sjóðum sem varð til þess að þegar að hruninu kom síðastliðið haust voru þeir verulega illa staddir, miklum mun verr en menn töldu. Ég spyr mig bara: Hvar var Kristján Þór Júlíusson? Hann var að tala um eitthvert allt annað umhverfi, hann talar um að á þessu tímabili hafi menn verið að byggja sjóðina upp og styrkja byggðirnar. Ég gæti haft um það mörg önnur orð.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann: Hvar er í þessu frumvarpi skorið á tengslin milli byggðarlaga og sjóðanna? Vegna þess að í þessu frumvarpi er í fyrsta sinn kveðið skýrt á um það að í stofnsamþykktum sparisjóða skuli skýrt tilgreint samfélagslegt hlutverk þeirra. Það hefur skort hingað til. Við vitum að hér hafa risið upp sameinaðir sparisjóðir sem hafa ekkert hugað að neinu samfélagslegu hlutverki. Hvar er skorið á tengslin milli byggðarlaga og sjóða? (Gripið fram í.) Það var kallað hér fram í en ég kem upp í seinna andsvari.