137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[15:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða stórt mál sem snertir mjög marga, byggðarlög, fyrirtæki, einstaklinga, fjárhagslega hagsmuni og fjárhagslega heilsu, eins og sparisjóðirnir hafa mjög oft auglýst. Það snertir fjárhagslega heilsu mjög margra. Sparisjóðirnir hafa í gegnum árin gegnt mikilvægu hlutverki í fjármálastarfsemi víða um land, ekki eingöngu út frá viðskiptalegum sjónarmiðum heldur einnig út frá félagslegum sjónarmiðum og hafa þeir verið akkeri í byggðarlögum, akkeri heimamanna, akkeri héraðanna þegar á reynir varðandi fjármögnun ýmissa framkvæmda, fjármögnun lána til bygginga og slíks, meðan hinir svokölluðu frjálsu bankar, ef það má orða það þannig, eða þau fyrirtæki sem voru í öðru umhverfi neituðu jafnvel að lána til þessara byggðarlaga af því að þeir töldu þau hreinlega ekki lífvænleg. Þá skiptu þessir sparisjóðir miklu máli og voru þeir þær stofnanir og þeir aðilar sem íbúar og fyrirtæki í þessum byggðarlögum gátu leitað til.

Það á því ekki að koma á óvart að fyrirtæki og einstaklingar skuli hafa stutt við þessar stofnanir með ráðum og dáð m.a. með því að setja umtalsverða fjármuni í formi stofnfjár inn í þessar stofnanir til þess að styrkja þær, til þess að halda þeim í héraði, til þess að hafa áfram aðgang að því sem telja má sjálfsögð réttindi íbúa og fyrirtækja, þ.e. aðgang að ávöxtun á fjármunum og aðgang að lánsfé. Í mörgum tilfellum erum við því að ræða um stofnanir og fyrirtæki sem eru sumum byggðarlögum jafnmikilvæg og sjúkrahúsið, jafnmikilvæg og framhaldsskólinn eða grunnskólinn. Að mínu viti getum við því ekki leyft okkur að setja alla sparisjóði undir einn og sama hatt og tala um þá í sömu setningunni.

Við vitum að til eru fjármálastofnanir sem tóku þátt í miklum æsingaleik fyrir nokkrum mánuðum og er þeim kannski ekki vorkunn þess vegna. En þeim er vitanlega vorkunn sem lögðu fé sitt inn í þær stofnanir í þeirri góðu trú að þeir væru að efla þær til þess að styðja við nærumhverfi sitt og styðja við atvinnulífið.

Hér hefur verið komið inn á hvort það sé vilji löggjafans að búa til og fara af stað með ríkissparisjóði og af frumvarpinu verður ekki annað séð en að veruleg hætta sé á því af því að það er ekki alveg ljóst hvernig og hve lengi ríkið ætlar sér að halda því sem þeir ætla sér, að því er virðist, að eignast. Það er stórmál að færa niður stofnfé einstaklinga, sveitarfélaga, samtaka og fyrirtækja, sem hafa byggt upp sparisjóð sinn með félagsleg sjónarmið og hagsmuni nærsveitarinnar og nærsamfélagsins að leiðarljósi.

Í 7. gr. sem er oft rætt um er fjallað um lækkun stofnfjár og framkvæmdarvaldið hefur bent á að nauðsynlegt sé að gera það. Það vantar svolítið mikið upp á að upplýst sé með hvaða hætti það verði gert og svo virðist sem fram hafi komið misvísandi upplýsingar um hvort til séu einhverjar reglur til að fara eftir varðandi það. Það er mjög mikilvægt að vita hvort svo sé. Ef þær eru ekki til er eðlilegt að semja þær og að þær liggi frammi áður en málið er endanlega útrætt.

Maður veltir fyrir sér, fyrst sagt er í ræðum og víðar að tillit verði tekið til þeirra sem eiga stofnfé og til viðskiptavildar og þess háttar, hvernig það verði gert og hvernig menn ætli að standa að því. Það er augljós hætta á að aðgerð sem þessi færi ríkisvaldinu endanlega nánast alla umsýslu með fjármálastarfsemi í landinu og við getum örugglega talað lengi um hvort það sé mjög heppilegt. Persónulega tel ég alveg stórhættulegt að slíkt gangi eftir því að samvinnufélagsformið sem er á sparisjóðunum er eitt af því skynsamlegasta sem við getum haft í félögum okkar. Það er líka mikilvægt að gera sér grein fyrir því að það er töluverður munur á stofnfé og hlutafé, það er ekki verið að tala um sama hlutinn. Annað veitir mikinn rétt til arðgreiðslna og sölu en hitt var ekki þannig, alla vega ekki til skamms tíma.

Það sem skiptir kannski mestu í málflutningi mínum er að ég óttast að með því að færa niður stofnféð og ef ekki verður tekið tillit til hvers sparisjóðs fyrir sig — þeir eru misjafnir — séum við að láta lífið fjara út hægt og rólega í ákveðnum byggðarlögum þar sem þessar stofnanir hafa verið akkerið. Það er alveg ljóst að niðurfærsla á stofnfé mun koma verulega við beina fjárhagslegu afkomu og hagsmuni þeirra sem settu í það fé, þ.e. sveitarfélaga, einstaklinga, fyrirtækja og bænda, ef það er gert einhliða, og takmarka þá um leið getu samfélagsins til þess að byggja sig upp á þeim tímum sem nú eru. Það mun takmarka getu samfélagsins til þess að bregðast við þegar á þarf að halda og það takmarkar um leið að skynsamleg uppbygging geti átt sér stað nema ríkisvaldið tryggi með einhverjum hætti að þessir aðilar, sem svo sannarlega eiga það ekki skilið, verði ekki fyrir skaða. Að ríkisvaldið tryggi um leið aðgang þessara byggðarlaga, einstaklinga og fyrirtækja að lánsfé, að stofnunum, til þess að ávaxta sitt pund — þeir sem enn geta það — og stuðli að uppbyggingu í þessum byggðarlögum.

Eitt og annað hefur tekið breytingum í frumvarpinu og er það eflaust flest ef ekki allt til bóta. Hins vegar vil ég halda því til haga að ekki var tekið tillit til þeirra breytingartillagna sem hv. þm. Eygló Harðardóttir lagði fram þar sem hún lagði mikla áherslu á þessa 7. gr. sérstaklega svo og aðra hluti er sneru að 1. gr. og 1. mgr. 14. gr., svo eitthvað sé tínt til. (Gripið fram í.) Já, og stjórn sjóðanna. Það er vitanlega lykilatriði að fjalla um hvernig stjórn og öll umsýsla með það fé sem eftir verður í þessum sjóðum verður til framtíðar.

Það sem einnig stendur upp úr varðandi þetta frumvarp og þá miklu vinnu sem lögð hefur verið í það er að ég hef á tilfinningunni að hér sé ekki búið að vinna alla heimavinnuna og að verið sé að beita almennum aðgerðum. Almennar aðgerðir eru yfirleitt bestar en þegar við erum með svo ólíkar stofnanir og fyrirtæki eins og sparisjóðina er mjög hæpið að beita slíkri aðgerð á þessar stofnanir þar sem við erum að fjalla um tilvist, rekstur og grundvöll sem er nánast eins og svart og hvítt, (Gripið fram í: Nei, nei.) hvort við erum að tala um lítinn sparisjóð norður í landi eða öflugan sparisjóð í Reykjavík sem lítur nánast út eins og hver annar banki hér á höfuðborgarsvæðinu. Þetta eru tveir ólíkir hlutir, það er alveg ljóst, og markmiðið og hugsunin sem að baki búa eru vitanlega hvort úr sinni áttinni.

Ef ríkisvaldið heldur rétt á málum og vandar sig við verk sín held ég að við höfum tækifæri til þess að efla sparisjóðina frekar og hafa þá áfram sem fyrirmyndarstofnanir í þeim héruðum þar sem þeir starfa þannig að þeir geti verið stolt síns byggðarlags. Ég held að það sé ekki rétt að gera það með því að byrja á að draga kraftinn úr heimamönnum sem hafa sett í þá fé, með því að færa niður stofnféð með þeim hætti sem hér er boðað. Það hefði hugsanlega verið hægt að fara nokkrar aðrar leiðir til þess að ná fram þeim markmiðum sem ríkisvaldið boðar hér. Það hefði hugsanlega verið hægt að skilja á milli nýs stofnfjár og þess eldra þegar kemur að því að deila út arði eða einhverju slíku. Það er ýmislegt sem hefði mátt skoða sem því miður virðist ekki vera tækifæri eða tími til miðað við þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð.

Það er líka rétt að geta þess að Fjármálaeftirlitið lagði sérstaklega áherslu á að vandað yrði til verka því að við erum jú að tala um einn af meginörmum fjármálakerfis Íslands og því er mjög hæpið að fara fram með einhverjum gassagangi í þessu máli.

Fjölmargir stofnfjáreigendur, almennir stofnfjáreigendur, einstaklingar og fulltrúar opinberra aðila sem eiga stofnfé í þessum sparisjóðum, hafa haft samband við okkur þingmenn og lýst áhyggjum sínum yfir því hvaða skref er verið að taka. Ég hefði talið að skynsamlegra hefði verið að fara að ráðum Fjármálaeftirlitsins og vinna þetta enn þá betur en hér er gert. Það er rétt að sparisjóðirnir hafa verið í lagalegri óvissu um langa hríð en miðað við þetta frumvarp er ljóst að það mun ekki slá á þá óvissu. Það mun þvert á móti auka á hana þar sem ríkissjóður virðist ætla að verða einn helsti stofnfjáreigandi flestallra sparisjóða í landinu, ef ég skil þetta frumvarp rétt, og búa þar með til ríkissparisjóð sem er þá við hliðina á ríkisbönkunum. Mér hefur ekki sýnst hafa gengið neitt sérstaklega vel hjá ríkinu að reka ríkisbankana eða koma þeim í gang þannig að þeir þjóni íbúum og fyrirtækjum þessa lands. Því hef ég verulegar efasemdir um að ríkisvaldinu takist það nokkuð betur upp með sparisjóðina og óttast í raun, eins og fram kom í máli mínu áðan, að þetta verði til þess að draga úr þeim kjark og þor, því miður.

Frú forseti. Stofnfjáreigendur sem lagt hafa fé sitt, líf og sálu í þessa sparisjóði til þess að viðhalda þeim og styrkja í heimabyggð til þess að þeir sinni sínu nærumhverfi, þurfa á bjartsýni og stuðningi að halda. Þeir þurfa á því að halda að sparisjóðirnir séu efldir með markvissum aðgerðum en ekki að enn frekari óvissa sé sköpuð um framtíð sparisjóðanna, um þá fjármuni eða þá eign sem þeir hafa sett í þessi fyrirtæki til þess eins að þau geti starfað áfram og stutt við nærumhverfið, menninguna, uppbygginguna og sinnt þeim skyldum sínum sem m.a. er kveðið á um í reglum um sparisjóði. Sparisjóðirnir eru sérstakt fyrirbæri í samfélagi okkar sem okkur ber að vernda, styrkja og efla.