137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[15:38]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir ræðumenn hér í dag árétta það að hér er um gríðarlega mikilvægt mál að ræða. Það ber með sér og efnisatriði þess eru á þann veg að miklu varðar að vel sé að því staðið til þess að stuðla að því að sparisjóðirnir í landinu eigi sér framtíð þar sem þeir hafa tækifæri til þess að starfa og eflast. Ég held að það sé það sem við hljótum öll að vilja stuðla að. Okkur greinir á um leiðir og það hefur komið fram bæði við 2. umr. og eins nú við 3. umr. að skiptar skoðanir eru um ákveðna þætti í þessu. En ég trúi ekki öðru en að það sé sameiginlegt markmið okkar sem hér erum að stuðla að því þannig að sparisjóðirnir eigi sér framtíð, eigi möguleika á því að vaxa og dafna í því umhverfi sem verður fyrir fjármálafyrirtæki í framtíðinni. Þetta er sem sagt afskaplega mikilvægt mál og þess vegna vekur athygli að hv. þingmenn stjórnarflokkanna hafa alfarið látið hv. formann viðskiptanefndar, hv. þm. Álfheiði Ingadóttur um það að taka þátt í þessari umræðu. Aðrir hv. þingmenn stjórnarflokkanna hafa misst málið um þetta mál.

Það er líka athyglisvert að ekki hefur sést til þess hæstv. ráðherra sem ber ábyrgð á þessum málaflokki hér við 3. umr. Nú kunna að vera á því eðlilegar skýringar. En mér finnst það hins vegar galli að hæstv. viðskiptaráðherra Gylfi Magnússon skuli ekki hafa verið viðstaddur þessa umræðu því að það hefði áreiðanlega verið gagnlegt að geta átt orðastað við hæstv. ráðherra um þá sýn sem hann hefur á þessi mál og afstöðu til einstakra þátta í þeim vegna þess að auðvitað er það hann sem hefur af hálfu framkvæmdarvaldsins forræði á þessum málaflokki, þar á meðal forræði á stefnumótun í ráðuneytinu um það hvernig þessum málum verði hagað til framtíðar. Fjarvera hæstv. ráðherra, sem eins og ég tek fram kann að eiga sér eðlilegar skýringar, er galli í þessari umræðu og það er galli, þrátt fyrir ágæti hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur formanns viðskiptanefndar þá er það galli að aðrir hv. þingmenn stjórnarflokkanna skuli ekki taka þátt í þessari umræðu og velti ég því fyrir mér hvað valdi. (ÁI: Kannski af því að þetta er 3. umr., hv. þingmaður.) Þriðja umræða væri tilgangslaus ef hún væri einvörðungu til þess fallin að menn kæmu með einhverjar yfirlýsingar eða eitthvað þess háttar. Þriðja umræða er jafngild öðrum umræðum að því leyti að menn geta komið hér með sjónarmið og skoðanir.

Það kom hér skýrt fram við 2. umr. að afar skiptar skoðanir voru um málið og þingmenn, bæði úr stjórnarliðinu og stjórnarandstöðunni lýstu því yfir að mikilvægt væri að málið færi til nefndar milli 2. og 3. umr. Það er ljóst að ekki hefur tekist að ná saman sjónarmiðum i nefndinni milli 2. og 3. umr. þannig að sá ágreiningur sem uppi var við 2. umr. er enn til staðar og það er eðlilegt að menn skiptist á skoðunum og noti þau tækifæri sem þingsköp gefa til þess að skiptast á skoðunum um umdeild mál. Það er sem sagt misskilningur ef sá skilningur er á ferðinni einhvers staðar hér að 3. umr. sé bara einhvers konar afgreiðsla. Þriðja umræða er jafngild og menn hafa tækifæri til þess að koma sjónarmiðum á framfæri.

Varðandi stöðu sparisjóðanna er ljóst að fyrir bankahrunið í október var vitað að staða margra sparisjóða var afskaplega alvarleg og þegar á þeim tíma voru stjórnvöld farin að velta fyrir sér lausnum að því leyti. Bankahrunið hafði síðan gríðarleg áhrif á sparisjóðina eins og annað. Þess vegna er eðlilegt að Alþingi bregðist við með breytingum á lögum. Við setningu neyðarlaganna var hugað að stöðu sparisjóðanna með tillögum um möguleika ríkisins til þess að greiða götu þeirra með fjárframlögum. Um það var í sjálfu sér samstaða að það væri mikilvægt að ríkisvaldið, á þeim tíma þegar bankakerfið í landinu lagðist á hliðina, þ.e. að sparisjóðirnir yrðu ekki út undan í því starfi heldur að það væri hugað að því að þeirra staða yrði styrkt á sama tíma og ríkið var að fá í fangið stóru ríkisbankana. Það byggði á þeirri hugmynd eða því viðhorfi að sparisjóðirnir hefðu mikilvægu hlutverki að gegna. Ég ætla ekki að fara yfir það. Margir þingmenn hafa rakið það hér í umræðunni hversu miklu og mikilvægu hlutverki sparisjóðir hafi að gegna í byggðum landsins.

Ég vil þó árétta annan þátt sem ekki snýr að byggðunum heldur að fjölbreytileika fjármálakerfisins út frá samkeppnislegum sjónarmiðum meðal annars. Ég held að það sé afar mikilvægt að hér á landi séu aðstæður til þess að það þrífist fjölbreytileg fyrirtæki á fjármálamarkaði, að ekki séu öll fyrirtækin steypt í sama mót, og eins að það verði ekki þannig til frambúðar að fjármálakerfið verði undir einni stjórn ef svo má segja, að fjármálakerfið og fyrirtæki á fjármálamarkaði verði ekki öll á forræði ríkisins.

Þar kem ég að því sem hefur mest borið á í þessari umræðu og raunar við 2. umr. líka. Það varðar 7. gr. frumvarpsins og þær áhyggjur sem við þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum af því ákvæði og raunar fleiri þingmenn. Við óttumst að þetta ákvæði geti leitt til þess að það verði annars vegar um að ræða meiri ríkisvæðingu á þessum vettvangi en æskilegt er og hins vegar þetta sem margoft hefur verið bent á hér, að með niðurfærslu stofnfjár sé skorið á tengsl við grasrótina, að tengslin og tengslanetið, sem er grunnurinn að starfsemi sparisjóða, verði fyrir bí ef niðurfærslan verður með þeim hætti og ríkið tekur til sín allt stofnfé. Þetta eru áhyggjurnar og eins og hefur komið fram hér við þessa umræðu hefur þeim áhyggjum ekki verið svarað.

Að lokum, hæstv. forseti, vil ég árétta það sem raunar hefur komið fram áður í þessari umræðu. Það varðar það að nú er ljóst að eins og bankarnir hafa lent í höndum ríkisins eins og kunnugt er án þess að það hafi verið ósk nokkurs manns þá er líka fyrirsjáanlegt að áhrif ríkisins á sparisjóðina verða meiri en nokkur í sjálfu sér eða flestir alla vega hefðu óskað. Þá vaknar þessi spurning sem hefði verið gott að fá skýra línu í hér við meðferð þessa máls, þ.e. það hvernig ríkið sæi fyrir sér að það gæti komist út úr sparisjóðunum miðað við þá stöðu sem er uppi. Það vantar líka varðandi ríkisbankana sem er þó annað mál en kemur hugsanlega síðar til umræðu hér í dag. Ég held að það sé afar mikilvægt að við göngum ekki út frá því að afskipti ríkisins af þessum markaði með þeim hætti sem við höfum lent í eftir bankahrunið verði varanleg heldur að það sé litið á þetta sem afar tímabundið ástand sem þurfi að komast út úr. Í því sambandi þarf að huga líka að sparisjóðunum. Það hefur verið boðað að lögin um fjármálafyrirtæki muni sæta heildarendurskoðun og hugsanlega koma þessi atriði þar inn. Við vitum líka að lengi hefur staðið til að þau ákvæði laganna sem varða sparisjóði og reglur um starfsumhverfi sparisjóða sæti heildarendurskoðun. Ég lít nú ekki svo á að þetta frumvarp feli í sér slíka heildarendurskoðun.

Þar sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hefur óskað eftir að veita andsvar væri kannski rétt ef hún gæti upplýst, af því að það hefur þá farið fram hjá mér ef það er í gögnum málsins, hvort meiri hluti hv. viðskiptanefndar líti svo á að þetta frumvarp feli í sér þessa heildarendurskoðun og hver afstaða meiri hlutans sé til þess að slík heildarendurskoðun fari fram og eftir atvikum hvaða meginlínur ættu þá að vera í slíkri heildarendurskoðun.