137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[15:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Allsherjarnefnd er mikil nefnd og hefur mörg verkefni en ég get þó upplýst hv. þingmann um það að allsherjarnefnd bar ekki ábyrgð á afgreiðslu neyðarlaganna en allsherjarnefnd er auðvitað merk nefnd og kemur að mörgum málum.

Ég ætla ekki í stuttu andsvari að fara í einhverja lögskýringu í þessu sambandi. Ég bendi hins vegar á að útfærslan á þessum ákvæðum neyðarlaganna er auðvitað það viðfangsefni sem við erum að fást við, við erum að fást við að útfæra þá stefnu sem þar var sett. Ég varpa því fram hér — og hv. þingmaður getur þá komið nánar inn á það í síðari ræðu sinni — að það sé í rauninni hægt að ná þeim markmiðum, alla vega sem ég sé sem mikilvæg í þessu sambandi um tengslin við stofnfjáreigendur, tengslin við grasrótina, þannig að það verði eitthvert gólf á þeirri niðurfærslu sem við höfum verið að ræða um hér, að ef farið verði út í niðurfærslu verði a.m.k. tryggt að það sé eitthvert gólf þannig að það sé ekki svo að sparisjóðirnir fari með öllu í hendur ríkisins eins og ótti okkar sjálfstæðismanna beinist að.