137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[16:11]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta. Þetta er nú svo sem kannski meðsvar en ekki andsvar þar sem við erum sammála um mikilvægi sparisjóðanna í uppbyggingu í hverju byggðarlagi fyrir sig.

Ég þekki ekki nákvæmlega það lagaákvæði sem hún er að vitna til í sambandi við þetta. En þetta fjallar fyrst og fremst um það að við þurfum að koma sparisjóðunum í var, þ.e. ef við ætlum að hafa þetta sparisjóðakerfi eins og það er í dag þá verðum við að koma þeim í var. Um það erum við sammála. Við erum hins vegar kannski ekki alveg sammála um aðferðina. Ég sagði hér í ræðu minni að ég ætlaði engum hér að hugsa neitt annað.

Þegar menn vilja ekki stoppa með það í þessu frumvarpi að fara með stofnféð niður fyrir hugsanlega einn og hafa þetta opið þá held ég að við séum að steypa sparisjóðunum fram af. Það er bara mín skoðun. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að gefa þennan vonarneista eins og í þessari tillögu sem ég las upp hér frá ágætum manni sem kom með tillögu til nefndarinnar. Síðan hafa komið fram mismunandi skoðanir líka í nefndinni þar sem Fjármálaeftirlitið hefur talað um að það ætti að klára þennan björgunarþátt og hugsa síðan hitt til lengri tíma séð. Um það fjallar þetta fyrst og fremst.

Frumvarpið eins og það kemur mér fyrir sjónir, þ.e. það sem mun gerast er að það verður einn ríkissparisjóður. Það held ég að muni gerast. Þá munum við, eins og ég sagði hér áðan, geta bara sett sparisjóðina, hvert útibú fyrir sig — ef það er stefna ríkisvaldsins að gera það — þá finnst mér bara eðlilegt að menn taki bara sparisjóðina og setji þá hvert útibú inn í hvern ríkisbanka, því nóg eigum við víst af þeim, á hverjum stað sem þeim þykir það henta, hvort heldur sem menn setja þá alla í Landsbankann eða Kaupþing eða hvernig sem það er. Mér finnst þetta fyrst og fremst snúast um þetta uppbyggingarkerfi og þetta net sem sparisjóðirnir hafa verið í gegnum áratugina eins og við hv. þingmaður og formaður viðskiptanefndar, Álfheiður Ingadóttir, erum sammála um.