137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[16:19]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka undir með hv. þm. Magnúsi Orra Schram, það er mjög mikilvægt að við komumst út úr þessu sem fyrst ef við förum þarna inn. En þá velti ég fyrir mér: Hvar eru hugmyndirnar um hvernig fara á út? Ég hef ekki séð þær, það getur vel verið að þær hafi farið fram hjá mér. Ég hef ekki séð neina útfærslu á því hvernig við förum út úr sparisjóðunum aftur, að menn séu búnir að teikna upp ferilinn. Það er það viðfangsefni sem við erum með í höndunum öllsömul, þ.e. hvernig við ætlum að fara út úr þeim aftur.

Við erum með alla bankana í fanginu og ég velti fyrir mér: Er bara ekki komið nóg? Koma ekki mörg fyrirtæki á hverjum degi? Hvernig á þetta allt saman að enda? Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt, og ég tek alveg heils hugar undir það með hv. þingmanni, að við komumst út úr þessu. Ég hef bara því miður ekki séð neitt plan um hvernig við eigum að gera það. Ég held að breytingartillagan sé hugsanlega liður í því að það sé hægt vegna þess að allt er hrunið. Þá verða menn að skoða málin út frá því að allt er mjög lítils virði í dag. Ef menn ætluðu sér að endurskoða þetta eftir ákveðinn tíma væri það mun skynsamlegra vegna þess að mér finnst uppbyggingin og hugsunin á bak við sparisjóðakerfið svo mikilvæg. Það er hins vegar staðreynd að það voru nokkrir tugir einstaklinga sem rústuðu það kerfi og mér finnst að við þurfum að skoða það mjög alvarlega hvort við ætlum að láta þá komast upp með það eða hvort við viljum aðeins draga andann.