137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[16:26]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég hef fylgst með umræðunni í dag um þetta frumvarp um sparisjóðina. Ég hygg að það hafi verið svo þegar ósköpin dundu yfir í haust að margir hafi vonast til þess að sparisjóðirnir mundu með einhverjum hætti komast í gegnum þann vanda án þess að til þess að þyrfti að koma að grípa þyrfti til sérstakra aðgerða. En því miður er það ein birtingarmynd þessa alls að sparisjóðakerfið var einnig orðið mjög samsamað bankakerfinu í landinu. Þetta á sérstaklega við um stóru sparisjóðina, Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis að sjálfsögðu, Sparisjóð Keflavíkur, sparisjóðinn í Borgarfirði og fleiri þar sem menn höfðu vegna þess hvernig kerfið er uppbyggt tekið töluverða sameiginlega áhættu í þeim sameiginlegu fyrirtækjum sem að þessum sparisjóðum stóðu. Þar getum við auðvitað nefnt sambandið milli SPRON og Kaupþings sem dæmi og síðan greiðslumiðlunina í Sparisjóðabankanum. Það kom því fljótt í ljós að væntanlega yrðu sparisjóðirnir fyrir töluverðu áfalli ásamt þeim öðrum bankastofnunum sem við því miður höfum þurft að færa til ríkisins.

Það er svo sérkennilegt við sparisjóðina hér á landi að þeir eru svo ólíkir, virðulegi forseti. Ef við horfum á Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis þá er hann fyrir okkur Reykvíkingum eins og hver annar banki en þegar komið er út á land, þar sem ég þekki líka töluvert til, er staða sparisjóðanna með allt öðrum hætti en einhvers banka í Reykjavík. Það sem gerðist þegar bankarnir voru einkavæddir — það hefur oft verið rætt í þessum sal að undanförnu að þar hafi hlutirnir kannski ekki alltaf gengið fram með þeim hætti sem best hefur verið á kosið, sú umræða verður tekin síðar og um það kann hverjum að sýnast sitt — en hitt er ljóst að eitt af því sem gerðist þegar bankarnir fóru í einkarekstur var að breyting varð á útibúaneti ríkisbankanna. Þeir höfðu nefnilega, gömlu ríkisbankarnir, haft mjög mismunandi sjónarmið til þess hvernig þeir þjónustuðu landsbyggðina.

Landsbanki Íslands, sá gamli, var mikil meginstoð í sjávarútvegsfyrirtækjum í landinu og með þétt útibúanet úti um allt land. Ég þekki það á Austurlandi þar sem hann er mjög víða með útibú. Svo var ekki með t.d. Íslandsbanka sem reis upp af samtökum atvinnurekenda sem höfðu allt önnur sjónarmið uppi. Íslandsbanki hafði t.d. ekki mikil ítök úti á landi. Búnaðarbankinn hafði það kannski frekar vegna sambandsins við bændur í landinu. En það voru nefnilega aðrir aðilar sem höfðu líka mjög mikið erindi úti á landi og það eru þeir aðilar sem ég hygg að þeir þingmenn sem hafa talað hér í dag hafa hvað mestar áhyggjur af. Það eru litlu sparisjóðirnir sem eru svo allt öðruvísi en venjulegur banki, hafa allt aðrar skoðanir á því hvernig eigi að haga sér í samfélaginu, líta á hlutverk sitt með allt öðrum hætti en venjuleg bankastofnun.

Sparisjóður Svarfdælinga norður á Dalvík t.d. tók mjög merkilega ákvörðun árið 2007, nokkuð sem kom mörgum á óvart að lítill sparisjóður gæti gert og kannski var það afsprengi þess hve vel hafði gengið í fjármálalífi Íslendinga á þeim tíma. Ég hygg að mörgum þyki ágætt núna að Sparisjóður Svarfdælinga hafi tekið þá ákvörðun sem hann tók meðan hann hafði enn þá fé, en það var sú ákvörðun að styrkja Dalvík í því að byggja menningarhús, nokkuð sem Dalvíkingar höfðu haft áhuga á um langa hríð en höfðu ekki möguleika til að sækja fé til þess í opinbera sjóði. Sparisjóður Svarfdælinga leit hins vegar allt öðruvísi á hlutverk sitt í þessu litla bæjarfélagi og ákvað að gefa bænum menningarhús. Þarna var kannski sú birtingarmynd tærust þegar vel gengur og menn vilja láta bæjarfélagið njóta þess, hvernig hlutunum er fyrir komið.

Þetta er ekki eina dæmið um það að menn vilji láta gott af sér leiða í víðum skilningi. Þeir sem eru Akurnesingar og hafa búið þar þekkja það þegar stöndugt útgerðarfélag á Akranesi, Haraldur Böðvarsson, ákvað að gefa Akurnesingum bíó vegna þess að að það vildi láta bæinn njóta þess hve vel hefði gengið og líka að láta íbúa og þá sem stóluðu á þetta fyrirtæki njóta uppgangsins sem þessu fyrirtæki hafði sem betur fer hlotnast. Þetta er ein birtingarmynd þess hversu miklu skiptir að vera með fyrirtæki í byggðum landsins.

Sparisjóðirnir hafa nefnilega haft gríðarlega mikla þýðingu gagnvart smáum atvinnurekstri úti um allt land og jafnvel á eyjum utan lands á Íslandi. Þegar erfiðara er að leita til Reykjavíkur um fyrirgreiðslu við lítinn smáiðnað, smáatvinnugreinar, sjávarútveg, skipta þessir sparisjóðir gríðarlega miklu máli. Ég held að það sé af þeim sökum, ég held að það sé akkúrat af þessum ástæðum sem sumir hafa áhyggjur af því að sum ákvæði í þessu frumvarpi verði til þess að þessi fyrirtæki, litlir sparisjóðir, fjarlægist byggðirnar þaðan sem þeir eru upprunnir.

Um daginn þegar ég var á ferð um Norðausturkjördæmið til að hitta fólk í mínu gamla og góða kjördæmi fór ég norður á Þórshöfn og hitti forsvarsmenn Sparisjóðs Þórshafnar. Þar höfðu menn verulegar áhyggjur af því hvað yrði um þann litla sparisjóð og töldu að kannski hefði það gerst sem þau óttuðust hvað mest að allt það versta við þetta bankahrun væri að birtast þeim heima á Þórshöfn. Ég held að óttinn hafi kannski ekki síst verið sá að ríkið með þeim aðgerðum sem nú eru fyrirhugaðar verði einmitt sá aðili sem þeim fannst kannski Landsbanki Íslands eða Útvegsbankinn gamli eða hver sem var suður í Reykjavík hafa verið og var ástæðan fyrir því að menn settu þennan sparisjóð á fót.

Það er ekki bara það að menn hafi áhyggjur af því stofnfé sem þeir áttu í þessum sparisjóðum og það er ekki bara það að menn viðurkenni það að sparisjóðirnir voru kannski komnir langt frá uppruna sínum þegar menn voru farnir að hantera þetta stofnfé eins og hvert annað hlutafé og gleymdu þá því til hvers þessir sparisjóðir voru stofnaðir. Þeir sem settu þá á laggirnar vildu nefnilega einvörðungu tryggja sínu byggðarlagi sem bestu skilyrði og þess vegna lögðu þeir fé inn í sparisjóðina án þess að ætlast til þess að af því kæmu neitt sérstaklega miklar rentur.

Margt hefur verið sagt um þetta sparisjóðafrumvarp og ég efast ekki um að auðvitað er tilgangur þeirra sem leggja frumvarpið fram að reyna að halda utan um þau verðmæti sem í sparisjóðunum felast, en við deilum um leiðirnar að því og hvernig eigi að gera það. Við deilum um það hvort rétt sé að ríkið fari skilyrðislaust inn í þessa sparisjóði eða hvort hægt sé að hugsa sér aðra leið. Ég hygg að menn hafi vonast til þess að tíminn gæti verið rýmri til að finna út úr því hvernig best væri að tryggja sparisjóðunum langvarandi líf og líka tryggja það að þeir haldi áfram að verða það mikla skjól sem þeir hafa verið í byggðum landsins.

Ég sit ekki í viðskiptanefnd og hef því miður ekki heyrt öll þau sjónarmið sem upp hafa komið þar, virðulegi forseti, um sparisjóðafrumvarpið. Ég hef hins vegar hlustað á umræðuna í dag og ég hef líka hlustað á fyrri stigum þessa máls, í 2. umr. og eins í upphafi málsins, fyrir utan það að ég hef auðvitað ráðfært mig og lesið þau gögn sem ég hef haft aðgang að um þetta mál en ég hef ekki lesið hverja einustu umsögn um það. Ég byggi afstöðu mína töluvert á því hvort hægt hefði verið með einhverjum hætti að tryggja betur aðkomu heimamanna að þeim sparisjóðum sem núna eru í þessum vanda sem við þekkjum.

Það er 7. gr., sem er núna 9. gr., sem mest ókyrrð er um og kannski það hvernig ríkið ætli að fara með þennan hlut, hvernig það ætli sér að fara inn í þetta og það sem kannski mestu skiptir, hvernig það ætlar að fara út úr þessu aftur. Núna eru það sparisjóðirnir sem við höfum áhyggjur af hvernig við ætlum að fara út úr aftur en þetta á við um allt íslenska fjármálakerfið, þetta á við um alla bankana líka sem ríkið er núna orðið eigandi að, nokkuð sem við höfðum ekki hugsað okkur að yrði árið 2009 en svona er það. Við þurfum, stjórnvöld, og ríkisstjórnin þarf að fara að velta því fyrir sér hvernig hún ætlar að afsetja þær miklu eignir sem eru komnar á herðar ríkisins núna.

Ég hef margoft tekið það dæmi, sem mér finnst kannski hvað furðulegast við allt þetta, þegar ríkisritfangaverslunin Penninn er skyndilega komin til sögunnar. Hvernig ætlar ríkið að koma sér út úr þeim rekstri? Hvaða fyrirtæki eru það sem ríkið ætlar sér að eiga í langan tíma eða telur sig þurfa að eiga í langan tíma og hvaða fyrirtæki eru það sem ríkið neyðist til að hlaupa undir bagga með um stutta hríð og ætlar síðan að losa sig við fljótt aftur? Ég held að þetta mál snúist kannski um akkúrat þetta. Hér erum við að tala um mál þar sem við erum annars vegar að ræða um sparisjóði sem voru af fullum þunga í þeirri útrás og í þeim gjörningum eða því gjörningaveðri sem fjármálaóróinn var.

Við þekkjum þetta með Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis sem var svo samofinn Kaupþingi að vart var hægt að skilja á milli, eignatengslin svo flókin að það var engin leið að vita hver átti hvað. Þetta er nokkuð sem hafði margoft verið gagnrýnt í sölum Alþingis og margir höfðu haft áhyggjur af lengi. Síðan er Sparisjóður Þórshafnar sem er bara allt öðruvísi og það er svo erfitt að ætla að fara að taka þessa tvo sparisjóði eða sambærilega sparisjóði og leggja þá að jöfnu í því hvernig eigi fara með þá hluti sem að þeim snúa. Hvað ætlar ríkið að gera norður á Þórshöfn og reka sparisjóð? Og hvað ætlum við að gera gagnvart þeim aðilum sem vissulega vissu að þeir gætu hugsanlega tapað sínu stofnfé, menn vita alltaf þegar þeir ákveða að setja fé í fyrirtæki að það getur tapast aftur en væri með einhverjum hætti hægt að tryggja það að þeir aðilar sem höfðu áður verið stofnfjáreigendur og hafa gríðarlega mikil tengsl í sínu samfélagi og skilja það betur en nokkur annar, skilja líka afskaplega vel hvaða fyrirtæki það eru sem eru þess eðlis að það sé nauðsynlegt fyrir byggðarlagið og þær stofnanir sem þar eru að styrkja það, hefði verið hægt að hugsa sér að til þeirra stofnfjáreigenda væri leitað að einhverju leyti í sambandi við þá uppbyggingu sem fram undan er?

Það er alveg rétt sem fram hefur komið að sú ákvörðun var tekin strax í haust, og þá með aðkomu sjálfstæðismanna í ríkisstjórn, að ríkið færi inn í þessi fjármálafyrirtæki. Ég ætla ekkert að neita því að það var ákvörðun sem var tekin og við stóðum á bak við þá ákvörðun. (ÁI: Allir þingmenn.) Það gerðum við og ég stend enn á bak við þá ákvörðun og ég er ekki að fara að bakka út úr því. Ég velti því hins vegar fyrir mér þegar um er að ræða fyrirtæki sem eru svona óvenjuleg, svo ólík öðrum fyrirtækjum eins og sparisjóðirnir eru vítt um land, hvort hægt væri að hugsa sér aðra leið þar. Þess vegna hefði ég gjarnan viljað sjá útfærslu á því.

Ég spyr mig að því: Er það kannski hugsun ríkisins, þótt það komi ekki fram hér, að það verði einhvern veginn með þeim hætti sem þessi leið verður útfærð? Það kemur ekkert fram um það. Það er erfitt að gera sér grein fyrir hvort svo sé. En aðalatriðið eru sparisjóðirnir í litlu bæjunum úti um allt land. Þegar þeir eru komnir mjög nálægt ríkinu sem hefur í mjög mörgu að snúast um þessar mundir, fyrir utan alla þá banka sem það rekur, fyrir utan öll fyrirtækin sem undir það eru komin, það eru svo mörg önnur verkefni sem að ríkinu standa, þá læðist að manni sá grunur að ríkið muni ekki hafa þá möguleika eða þann skilning sem þeir stofnfjáreigendur sem áður voru í þessum sparisjóðum hafa. (Gripið fram í.)

Þetta finnst mér vera meginatriðið í málinu. Menn geta síðan deilt um það fram og til baka hvort önnur ákvæði í frumvarpinu séu tímabær eða hvort fara eigi öðruvísi með einstaka þætti, það er allt saman matsatriði í sjálfu sér hversu langt eigi að ganga og hvenær menn eigi að klára þetta mál eða hitt málið. Allt þetta er eitthvað sem menn geta haft ólíkar skoðanir á. En, virðulegi forseti, það að menn geri sér grein fyrir þessu sérstaka eðli sparisjóðakerfisins held ég að sé meginatriðið í því verkefni sem við stöndum frammi fyrir núna.

Ég held að margir hafi vonast til þess að til þessa þyrfti ekki að koma, að við þyrftum ekki að fara með þessum hætti inn í sparisjóði landsins. En kannski var það barnalegt að halda að það yrði þannig, að nokkru yrði eirt þegar hrunið varð svona mikið. Það getur vel verið að það hafi verið barnaskapur að halda að hægt væri að bjarga þeim fullkomlega. Þarna er verið að gera það með ákveðnum hætti, ríkið er að hlaupa undir bagga en sú spurning stendur alltaf eftir: Á allt að gerast á forsendum ríkisins sjálfs, á alltaf að hugsa þannig að ríkið þurfi að koma beint að hlutunum eða er hægt að hugsa sér aðra leið sem er þannig að menn skilji þetta sérkennilega eðli sparisjóðanna, sérstaklega þeirra sem eru úti á landi?

Málið er núna komið til 3. umr. og ég á ekki von á öðru en að það verði samþykkt. Ég vonast til að menn hlusti samt eftir þeim sjónarmiðum sem hér hafa verið færð fram, ég held að það sé ástæða fyrir stjórnarmeirihlutann að gera það og velta fyrir sér hvort hægt sé þá í framhaldinu að hafa þessi sjónarmið í huga þannig að hægt sé að leggja betri grunn að því framtíðarkerfi sem sparisjóðirnir eru. Við viljum að þeir lifi, við viljum halda áfram að reka þessi fyrirtæki, en við viljum að byggðirnar og þeir sem nota þau ráði þar mestu um.