137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[16:47]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Umræðan í dag hefur að mörgu leyti verið mjög áhugaverð og mér finnst hún sýna það líka að þetta mál, eins og við höfum haldið fram, er hvergi nærri útrætt. Mér fannst mjög athyglisvert að hlusta á það sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson sagði um muninn á stofnfé og hlutafé og tek undir það.

Mig langaði aðeins, vegna orða hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur í andsvari áðan, að leiðrétta þingmanninn í upphafi þessarar stuttu ræðu minnar. Þar sagði hún að við sjálfstæðismenn værum misvísandi í málflutningi okkar, við töluðum ýmist um 7. gr. sem leið til björgunar eða að hún væri stórhættuleg. Ég vil mótmæla því að við tölum um 7. gr. sem leið til björgunar. Ég hef sagt að það væri eina greinin sem þyrfti að breyta vegna þess að núverandi stjórnvöld telja ekki ásættanlegt að koma með eigið fé án þess að fara með niðurfærsluna í gegn. Þar er stór munur á. Ég tel ekki endilega að 7. gr. sé einhver björgunaraðgerð. Það sem ég segi og sagði í fyrri ræðu minni, til að það sé algjörlega skýrt, var: Það sem fram kom í vinnu nefndarinnar frá fulltrúa fjármálaráðuneytisins var að þessi grein dygði til að björgunarhlutanum væri fullnægt en það þyrfti ekki að fara í aðrar breytingar. Síðan höfum við sjálfstæðismenn lagt áherslu á að við tökum okkur lengri tíma. Við tökum þar með undir umsögn Fjármálaeftirlitsins m.a., það þarf að koma skýrt fram og leiðréttist hér með.

Vegna orða hv. þm. Magnúsar Orra Schrams í andsvari segi ég að ég mundi gjarnan vilja hlusta á 20 mínútna ræðu þína aftur vegna þess að ég er ekki sannfærð frekar en þú ert eftir þessa ræðu hér. Komdu endilega með hana aftur og reyndu að sannfæra mig vegna þess að ég vil svo trúa því að þín leið sé rétta leiðin, ég bara trúi því ekki.

Ég varð enn þá áhyggjufyllri þegar þingmaðurinn fór í andsvar vegna þess að þetta átti jú allt að gerast í gegnum Bankasýsluna að hans mati. Hann var spurður um hvernig ríkið ætlaði að fara út úr sparisjóðakerfinu. Jú, það verður allt ákveðið í Bankasýslunni, svaraði hann. Það finnst mér dálítið hættulegt vegna þess að við munum kannski ræða Bankasýsluna seinna í dag og þar höfum við nú ekki alveg verið sammála. Við höfum talið að við þyrftum að vita aðeins meira um málið áður en það væri tekið úr nefnd, þar á meðal um eigendastefnu ríkisins sem er víst að vænta úr ríkisstjórn einhvern tíma á næstu dögum. Ég áttaði mig bara á því þegar sem við sátum hérna og ég var að hlusta á hv. þingmann að varað var við því í nefndinni í bankasýsluumræðunni að tala um eina eigendastefnu fyrir alla bankana.

Ég verð að viðurkenna að þá var ég bara að hugsa um þessa þrjá. En nú erum við líka að hugsa um það að ríkiseigendastefnan, sem við höfum reyndar ekki séð og ég get ekki svo sem fullyrt mikið um hana fyrr en ég sé hana, á líka að ná yfir allt sparisjóðakerfið. Þá spyr ég eins og gestur sem kom fyrir viðskiptanefndina spurði: Hvað gerist ef þessi eigendastefna er röng? Hvað gerum við ef við erum búin að byggja hér upp nýtt bankakerfi á grunni þess bankakerfis sem hrunið er og reisum annað til framtíðar og byggjum það á einni eigendastefnu? Hvað gerist ef hún reynist svo röng eftir allt saman? Þá erum við að horfa til framtíðar og höfum eina ríkiseigendastefnu hvort sem það varðar banka eða sparisjóði og mér finnst það skelfileg framtíðarsýn. Að ekki skuli vera útgönguleið, framtíðarsýn og heildarhugsun í þessu máli finnst mér stórhættulegt vegna þess að við verðum að vita hvert við stefnum þegar haldið er í leiðangurinn.

Þetta vildi ég segja í þessari stuttu ræðu og útiloka ekki að ég þurfi að kveðja mér hljóðs aftur ef mér sýnist svo.