137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[16:57]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vissi að það kæmi að því að við hv. þingmaður yrðum giska sammála þegar djúpt væri kafað.

Ég hef ekki sagt að það sé skoðun mín að eigendastefnan sé forsendan. Umsagnaraðilar og gestir sem komið hafa fyrir nefndina hafa bent á þetta, umsagnaraðilar sem ég tel að hafi mikið vit á málum. Þess vegna tel ég það mjög brýnt og hef lagt á það áherslu. (MSch: Við ræðum það á eftir.) — Við ræðum það á eftir, kallar þingmaðurinn fram í, það er rétt en við ræðum það í myrkrinu vegna þess að við erum ekki búin að sjá þessa margumræddu eigendastefnu. Á fallegri sumarnótt munum við standa hér og ræða í kolniðamyrkri um eigendastefnu sem við höfum ekki séð og það er nákvæmlega það sem við deilum um.

Lagaramminn er eitt, stefnumótunin er annað, segir þingmaðurinn. Lítum nú á þetta sem tækifæri. Við erum alltaf að horfa á þessa hluti út frá svartasta svartnætti en lítum á þetta sem tækifæri til þess að byggja upp nýtt, heilbrigt bankakerfi. Eigum við þá ekki að nota það tækifæri til hins ýtrasta og gera hlutina rétt? Vera þá með stefnumótunina klára þegar við förum í lagarammann. Annars munum við, eins og við hv. þingmaður höfum gert í dag, velkjast í vafa um hvað lögin segja, um túlkanir eins og í öðru máli sem við funduðum um í hádeginu. Þar var farið af stað með vanhugsaðar lagabreytingar sem valda okkur vandræðum núna og við í minni hlutanum vöruðum við þá að svo gæti farið. Ég er hrædd um að við verðum aftur í þeirri stöðu og segi enn og aftur: Við þurfum ekki að stíga skrefið til fulls núna varðandi sparisjóðina heldur eigum við að einbeita okkur að því (Forseti hringir.) sem er á borðum okkar þessa stundina.