137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[16:59]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Eigendastefna tengd málinu sem hér um ræðir er grundvallaratriði til þess að hægt sé að vinna málið og taka afstöðu til þess. Ef eigendastefnan er ekki klár þá er það eins og að setja veiðarfæri í sjó en hafa engan bát, það er ekki flóknara en það. Hitt er umræðutíst og reynsluleysi og við getum ekki byggt lög á því.

Það tíðkast nú trekk í trekk hjá hæstv. ríkisstjórn að bjóða í óvissuferðir, óvissuferðir í stóru sem smáu. Óvissuferðir geta verið skemmtilegar og ágætar út af fyrir sig á tyllidögum og um helgar og á góðum stundum en óvissuferðir eiga ekki heima í framgangi mála sem varða dauðans alvöru, líf þjóðarinnar.

Sparisjóðirnir á Íslandi hafa um langt árabil verið eins konar ankerisfestar vítt og breitt í byggðum landsins. Sparisjóðirnir hafa í rauninni verið byggðir á allt öðrum forsendum úti á landsbyggðinni en til að mynda á höfuðborgarsvæðinu þar sem þeir þróuðust fljótlega upp í það að vera bankar sem fylgdu í kjölfar stóru bankanna og hirtu allar væntingar sem fylgdu sílunum og seiðunum sem fylgdu, virðulegi forseti, hvölunum og nutu góðs af því með háum vöxtum og miklum kostnaði og þess vegna efldust þeir meira sparisjóðir höfuðborgarsvæðisins en sparisjóðir landsbyggðarinnar. Sparisjóðir landsbyggðarinnar þar sem athafnamenn og venjulegt fólk sem hafði ekki úr miklu að spila vildi styrkja sparisjóðinn í byggðarlaginu, ekki til að skapa þar gróðavon fyrir sig heldur til að styrkja það samfélag sem það bjó í og styrkja möguleika á því að hafa eðlilega sveigju í stofnun og rekstri fyrirtækja, styrkingu heimila með tiltölulega lágum lánum sem þóttu nú ekki mjög burðarmikil í gegnum tíðina en skiptu samt máli.

Þessir sparisjóðir hafa byggst upp á stuðningi fólks sem auraði saman án þess að ætla að hafa út úr því einhvern gróða. Það var meira í virðingarskyni við fólkið sitt í byggðarlögunum, við umhverfið, við metnað hvers byggðarlags að menn studdu við sparisjóðina. Þetta þýddi að ákveðinn trúnaður hefur verið byggður upp og lagt var upp með ákveðnum trúnaði sem skiptir máli í allri þróun í þessum efnum. Ef síðan á með einu pennastriki að færa niður stofnfé, slátra framlagi þess fólks sem var og er stofnfjáreigendur í sparisjóðunum er verið að brjóta trúnað, rifta eðlilegum framgangi, opna dyr fyrir einhverjum sem hugsanlega kynnu að vilja gerast frumkvöðlar í nýrri lotu til styrkingar sparisjóðunum og þá er alls ekki hægt að reikna með þessu fólki sem lögin mundu skilja eftir brennt og sviðið í framgangi málsins. Þetta er glórulaus aðferð sem er aðför að fólkinu í byggðum landsins, aðför að fólkinu sem stóð á engan hátt í neinu kapphlaupi eða sýndarmennsku eins og hefur því miður tíðkast og þarf ekki að fjölyrða um í gegnum alla stærri þætti bankakerfisins undanfarin ár.

Auðvitað reyndu sparisjóðirnir og gengu sumir fram í því að auka stofnfjárframlag á síðustu árum til þess að geta keppt við tískufyrirbrigði sem kallað var alþjóðleg bankaviðskipti, alþjóðleg bankaþróun, en það er hvergi um neitt yfirburða fjármagn að ræða í þeim efnum. Það er alls staðar lítið í sniðum og ef maður ber það saman við þróun stóru bankanna á Íslandi hefur það verið gert af miklum vanefnum. En það var gert kannski fyrst og fremst af miklum vilja og kærleik að styrkja bankana í hinum dreifðu byggðum, enda hafa þeir sýnt að öllu jöfnu mun meiri vilja til að tengjast verkefnum og væntingum í sínum byggðarlögum en hægt er að segja um aðrar bankastofnanir á Íslandi.

Gott dæmi er núna uppbygging glæsilegs menningarhúss á Dalvík sem sparisjóðurinn stendur fyrir upp á hundruð milljóna króna og píndi hann enginn til þess, en þar vinna menn af metnaði og eru til fyrirmyndar. Í rauninni hefðu landsmenn átt að taka þráðinn og styrkja þann sparisjóð sem þannig stendur að verki og gerast viðskiptavinir hans því að þarna er sparisjóður sem vinnur í takt við hjartslátt fólksins í landinu og vill því vel.

Stofnfjáreigendur hljóta að líta á stofnfjáreign sem höfuðstólstryggðan sparnað. Lög segja til um það. Það frumvarp sem hér er til umræðu keyrir það sjónarmið ofan í svaðið blygðunarlaust, fast og ákveðið. Það má segja um nánast alla sparisjóðina á Íslandi að gætt hafi verið hófsemi í arðgreiðslum til stofnfjáraðila og ekki gengið á varasjóði, undanfarin ár á bilinu 10–20% og sums staðar ekki neitt. Það er því ekki hægt að reikna með því að stofnfjáreigendur eigi að taka fullan þátt í tapi sparisjóða í landinu við þær aðstæður sem nú eru uppi. Það verður að horfast í augu við það vandamál sem við er að glíma án þess að keyra niður þá sem hafa takmarkaða burði í þessum efnum og hafa ekki farið fram úr sér á neinn hátt og engin dæmi er hægt að færa fyrir því að svo hafi verið gert.

Auðvitað má aðstoð ríkissjóðs við sparisjóði ekki verða með þeim hætti að stofnfjáreigendurnir, sem eru bakhjarlar sparisjóðanna, gangi slyppir og snauðir frá borði. Heimild til fullrar niðurfærslu stofnfjár býður slíkri hættu heim og eins og ég sagði fyrr, virðulegi forseti, slátrar því framlagi sem fólkið í landinu hefur lagt til þar sem af litlu hefur verið að taka en það hefur samt lagt metnað sinn í að leggja lið, leggja hönd á plóginn og taka á árunum til þess að skila árangri í samfélagi okkar.

Það er kannski gott dæmi um þessa breytingu á sparisjóðunum á undanförnum árum þar sem stofnfé í sparisjóði á Vestfjörðum var aukið um 500 millj. kr., úr rúmum 200 milljónum í rúmar 700 milljónir, og það selt til stofnfjáraðila. Auðvitað var tilgangurinn að styrkja stöðu sjóðsins svo að hann gæti haldið sjávarútvegsfyrirtækjum í viðskiptum, fyrirtækjum sem eru lykillinn að stöðu þeirra byggðarlaga sem þannig standa að verki. Þar er sjávarútvegurinn yfir 90% af öllu skapandi afli í byggðarlögunum þegar til að mynda á höfuðborgarsvæðinu má segja að þetta hafi verið innan við 5%. Menn verða að horfast í augu við þetta, ef við ætlum að búa í landinu sem ein þjóð skulum við gæta þess að hafa frið um þetta. Það hefur löngum verið sagt og oft vitnað til að við skulum gæta þess að rjúfa ekki friðinn, gæta þess að komast að niðurstöðu þar sem tekið er tillit til allra þátta í okkar litla fjölskyldusamfélagi. Þegar við þurfum að fjalla um mál í almennri stöðu byggðarlaga, almennri stöðu fyrirtækja og heimila verður þetta sjónarmið að vera ríkjandi en þetta sjónarmið er ekki ríkjandi í þeim lögum sem hér er verið að boða. Þetta er að sumu leyti skemmdarverk á góðum vilja fólksins í byggðunum til að styrkja sparisjóðina. Það er sýndarmennska að leggja þetta frumvarp fram og ætla sér að því sé tekið sem einhverri sanngirni. Þetta er ósanngjarnt, þetta er illa gert, ég skal ekki halda því fram að það sé illa meint en það er vanhugsað.

Það er kannski spegilmynd af mörgu í okkar þjóðfélagi í dag, ekki síst í stjórnmálunum, virðulegi forseti, að það vantar verksvit í þau verkefni sem liggja á borðinu og það er ljóst kannski aldrei frekar en nú að það er ekki nóg að kunna að babla á bók. Það skilar ekki neinni tryggingu hvorki fyrir hamingju né árangur. Venjulega fólkið, sem er ekki langskólagengið og hefur reynslu sína af sveita úr höndum og á enni, hefur ekki síður gengið í gegnum merkilega skóla en aðrir. Við fylgjum því fast eftir að mennt sé máttur og við viljum að okkar fólk gangi til mennta eins og gengur, en við skulum ekki keyra yfir það fólk sem byggir á verksviti, reynslu, brjóstviti og almennu sjónarmiði sem tekur tillit til náungans og boðar ekki neina yfirstefnu í því og mundi aldrei láta sér detta í hug að brjóta egg þess leiks, aldrei.

Þetta er mikið alvörumál og okkur ber skylda til að standa vörð um sparisjóðina sem alvöruankerisfestar (Forseti hringir.) í byggðum Íslands.