137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[17:18]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Árni Johnsen bendir enn á ný á áhugaverða punkta . Og þegar hann ber saman annars vegar þá upphæð sem ríkið er að hugsa um að setja sem stofnfjárframlag inn í sparisjóðina, 20 milljarða, og þá upphæð sem núna er verið að setja í glerbygginguna hérna við höfnina — hvort haldið þið að skipti íslenskt samfélag meira máli, að við verðum með eitthvert tónlistarhús niðri á hafnarbakka eða lifandi og sterka sparisjóði?

Við sjáum líka upphæðirnar. Við erum að tala um sirka 20 milljarða öðrum megin og eru það ekki 20 milljarðar hinum megin? Mér finnst það sláandi. Mér finnst líka sláandi að við ætlum að koma svona fram við fólk sem gerði ekkert annað en að styðja við sína sparisjóði, vildi byggja upp samfélag sitt. Og þegar við báðum um að fá málið til nefndar á milli 2. og 3. umr., að menn skyldi ekki einu sinni vera tilbúnir til þess að skoða það að setja eitthvert ákveðið lágmark, eins og var tillaga sem kom frá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, formanni fjárlaganefndar, um að miðað yrði við að það færi ekki lengra en niður fyrir einn að nafnvirði. Nei, það var ekki hægt að skoða það. Og það var ekki hægt að skoða neinar hugmyndir sem komu frá minni hlutanum um hvernig hægt væri að auka tengslin, að tryggja þessi verðmætu tengsl við viðkomandi heimabyggð. Nei, það var heldur ekki hægt að skoða það.

Menn eru hins vegar tilbúnir til þess að setja 20 milljarða plús í einhverja glerhöll niðri á hafnarbakka.