137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[17:42]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Ég þakka lærða ræðu þingmanns um þingsköp og hvernig mér beri að haga mér. Það er mjög gott að fá ráðleggingar frá sér reyndari manni, ekki ætla ég að draga það í efa.

Ég ætlaði bara að segja tvennt: Ég lít svo á að þetta frumvarp sem við erum að labba með í umræðu í dag og verður vonandi að veruleika sem allra fyrst séu björgunaraðgerðir og ekkert annað en björgunaraðgerðir. Allt það sem við erum að gera núna lýtur að því að koma sparisjóðunum til bjargar og þar er hver dagur dýrmætur eins og fram hefur komið í nefndinni. Vonandi munum við svo fara í heildarendurskoðun á fjármálafyrirtækjum og fjármálalöggjöf í haust og mikilvægur liður í þeim björgunaraðgerðum sem fram undan eru er bankasýslufrumvarpið sem er á dagskrá þingsins. Við getum vonandi rætt það ítarlega þegar á líður, hvort sem það verður í nótt eða á morgun.

Við erum að fást við björgunaraðgerðir núna vegna slæmrar stöðu sparisjóðanna og tökum eitt skref í einu. Við erum að taka fyrsta skrefið núna.