137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[17:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Þetta hefur verið góð og ítarleg umræða í dag. Menn hafa farið yfir röksemdir sínar og skýrt mjög vel afstöðu sína og þá einkum andstöðu við það frumvarp sem hér er til 3. umr. Ef ég reyni að draga saman helstu athugasemdirnar sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa reitt fram þá eru þær að hér sé um að ræða ríkisvæðingu, að ríkið sé að ásælast sparisjóðina í landinu, jafnvel til tjóns fyrir byggðir í landinu. Í öðru lagi að vinnubrögð séu ekki nógu vönduð, að allt of stuttur tími hafi verið notaður til að fara yfir málið í þinginu, og loks að það séu engar áætlanir uppi um það hvernig ríkið ætli sér að fara út úr sparisjóðunum. Við ræddum þessi atriði að vísu öll við 2. umr. málsins en ég ætla aðeins að endurtaka það sem kom þar fram hjá okkur talsmönnum stjórnarflokkanna.

Það er rangt að hér sé gerð atlaga að sparisjóðunum, hvað þá byggðunum í landinu. Hér er einungis verið að skapa með lagagrunni umgjörð til að tryggja að ríkissjóður geti komið á grunni jafnræðis að endurfjármögnun sparisjóðanna í landinu í krafti 2. gr. neyðarlaganna frá í haust.

Í öðru lagi hvað varðar þann tíma og vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð við þetta mál þá verð ég að segja að þessi gagnrýni er ekki á rökum reist. Á morgun mun liðinn einn mánuður frá því að nefndin fékk þetta mál til umfjöllunar. Ég hef ekki lengur tölu á þeim fundum sem við höfum haldið um málið en ég tel rétt að nefna það hér að milli 2. og 3. umr. fengum við fulltrúa viðskiptaráðuneytis á tvo fundi og fulltrúa fjármálaráðuneytis á annan af þeim fundum. Það er rétt sem hér hefur komið fram að þar var einkum farið yfir þrjú atriði, þ.e. möguleikann á því að setja gólf í niðurskrift stofnfjár, sem er að finna í 2. gr., og ég hlýt að segja að það er ekki rétt að sá möguleiki hafi ekki verið skoðaður. Þvert á móti fengum við inn á fundinn svipmyndir þriggja sparisjóða, sparisjóðs Papeyjar, Hrollaugseyjar og Kolbeinseyjar, þar sem með dæmum var sýnt hvernig staða sparisjóðanna í landinu er og hvaða áhrif innborgað stofnfé mundi hafa í þá.

Einnig var rætt og beðið um upplýsingar um þá úrvinnslu sem fram fer á vegum fjármálaráðuneytis og Seðlabanka á umsóknum sparisjóða um fé úr ríkissjóði samkvæmt 2. gr. neyðarlaganna. Og það er rétt að það komi fram hér að upplýst var á fundinum að þar færu fram samningaviðræður eða samningaumleitanir sem gerðu ráð fyrir aðkomu kröfuhafa og nýju stofnfé frá ríkinu og jafnvel víkjandi lánum og breytingu krafna sem ríkissjóður á í stofnfé eða lán en að þetta væri gert á grunni reglna frá 17. desember sem settur hæstv. fjármálaráðherra þann dag, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, ritaði undir og upplýst að þær reglur væru í gildi og ekki væri verið að endurskoða þær, ekki væri verið að breyta þeim.

Í þriðja lagi var rædd sérstaða sparisjóðanna og möguleg aðkoma starfsmanna og sveitarfélaga að stjórn þeirra. Í því sambandi kom fram að á vegum viðskiptaráðuneytis er verið að semja frumvarp um hæfis- og hegðunarreglur fjármálafyrirtækja í kjölfar ábendinga Kaarlos Jännäris. Þeirri vinnu hefur seinkað nokkuð, hún hefur frestast fram á haustið greinilega, m.a. vegna þess að von er á nýjum Evrópureglum sem gera ríkari kröfur til hæfis m.a. til setu í stjórnum fjármálafyrirtækja.

Ég vil staðfesta það sem hv. þm. Eygló Harðardóttir sagði áðan að það er meining okkar í viðskiptanefnd að fylgjast mjög vel með þegar að því kemur að breyta lögum um fjármálafyrirtæki hvað þetta varðar og skoða þá sérstaklega stöðu stjórna sparisjóðanna með tilliti til þeirrar sérstöðu sem hér hefur verið nefnd og ítrekuð er í frumvarpinu þar sem í fyrsta sinn eru sett í lög ákvæði um það að í stofnskrám sparisjóða skuli gera grein fyrir samfélagsstefnu þeirra sem þýðir þá væntanlega að byggðafestan er staðfest.

Ég vil, frú forseti, svo ég gleymi því ekki, nefna að sú breytingartillaga sem hér liggur fyrir og sú sem hér stendur er skrifuð fyrir er eingöngu lagatæknilegs eðlis, er ættuð frá nefndasviði og er svonefnd lagatæknileg hreingerning, það var vísað í ranga lagagrein þannig að ég ætla ekki að mæla fyrir henni frekar.

Hér var nefnt að það væru engar áætlanir uppi um það hvernig ríkið ætlaði að fara út úr sparisjóðunum og mér gerð upp þau orð að það væri ekki verkefni núverandi ríkisstjórnar að huga að því. Það sem rétt er í því efni er að ég sagði hér í ræðustól við 2. umr. þessa máls, að ég hygg, að það væru mikilvægari verkefni á borðum ríkisstjórnarinnar nú um stundir en það hvernig ríkisstjórnin ætlaði út úr sparisjóðunum eða fjármálafyrirtækjunum, m.a. er það miklum mun mikilvægara í dag hvernig ríkið getur staðið við þau fyrirheit sem gefin voru með setningu neyðarlaganna um það hvernig það getur komið að uppbyggingu sparisjóðanna til að bjarga því sem bjargað verður þar.

Hér hefur því verið haldið fram, frú forseti, að það sé verið að fara offari með þessari lagasetningu, að það sé ekki eingöngu verið að lögfesta þau atriði sem stjórnvöld telja til björgunar, og þá er vísað til 7. gr. upphaflega frumvarpsins og það mætti sleppa öllu öðru. Ég vil vegna ítrekaðra ábendinga eða athugasemda um þetta segja að í mínum huga er, held ég að ég megi segja, hver einasta grein í þessu frumvarpi grundvöllur undir heilbrigt endurreist sparisjóðakerfi. Með frumvarpinu eins og það nú lítur út eftir 2. umr. er verið að styrkja rekstrargrundvöll og framtíðarlíf sparisjóðanna (Gripið fram í.) með því m.a. að veita víðtækar heimildir til þeirra til þess að þjónusta íbúa í byggðunum, m.a. fyrir önnur fjármálafyrirtæki eða vátryggingafélög. Það er líka verið að lögfesta með 9. gr. upphaflegu mjög mikilvægu ákvæði sem heimila sparisjóðunum samvinnu sín í milli um þau verkefni sem eru þeim hverjum fyrir sig of dýr. Við sem hér höfum fylgst með umræðum þekkjum að Samkeppniseftirlitið hefur haft samvinnu sparisjóðanna til skoðunar á undangengnum árum og verið mjög ósátt við samvinnu sparisjóðanna að þessu leyti. Með lögfestingu þessa frumvarps eru tekin af öll tvímæli um það að sparisjóðirnir hafi heimild, auðvitað að virtum viðskiptalegum reglum og samkeppnissjónarmiðum, til þess að vinna að slíkum málum sem þar eru upp talin og er það þó ekki tæmandi upptalning.

Þarna er verið að styrkja rekstrargrundvöll sparisjóðanna. Það er líka verið að treysta byggðafestu með því að undirstrika samfélagslegt hlutverk sparisjóðanna með ákvæðinu sem ég nefndi áðan um að í stofnsamþykktum skuli tilgreint hverjar samfélagslegar áætlanir eða skyldur sparisjóðanna séu.

Það er einnig mjög mikilvægt að í þessu frumvarpi er að finna skilgreiningu á því hvað sparisjóður er og það er einnig skilgreining á því hvað stofnfjáreigandi er. Sparisjóður er samkvæmt þessu frumvarpi sjálfseignarstofnun sem starfar sem fjármálafyrirtæki samkvæmt þessum lögum. Það eru, eins og ég sagði, skýr ákvæði um skyldur og réttindi stofnfjáreigenda. Sem fyrr, samanber umræðu hér fyrr í dag um 63. gr. laga um fjármálafyrirtæki, bera stofnfjáreigendur ekki ábyrgð á skuldbindingum sparisjóðs umfram stofnfé sitt, en hér er skýrt fram tekið að þeir eigi ekki hlutdeild í öðru eigin fé sparisjóðs en bókfærðu stofnfé eins og það er á hverjum tíma. Með þessu eru tekin af öll tvímæli um það að stofnfjáreigendur geta ekki lagt undir sig varasjóði eða annað eigið fé sjóðsins, þeir eiga ekki hlutdeild í því.

Í frumvarpinu eru einnig mjög skýr ákvæði um ráðstöfun hagnaðar þar sem, ef þetta verður lögfest, aðeins verður heimilt að nýta 50% hagnaðar á hverju ári til þess að auka stofnfé eða greiða út arð en þá aðeins að hagnaður sé af rekstrinum. Hvers vegna skyldi þetta vera mikilvægt? Það er vegna þess að á undanförnum árum og það er ekki lengra síðan en á síðasta ári, árinu 2008, þá greiddu stofnfjáreigendur sér út hagnað jafnvel þótt tap væri af sparisjóðnum. Við þekkjum tölur um þetta, 26 milljarða tap og 13 milljarðar í arðgreiðslur. Þessu frumvarpi er ætlað að koma í veg fyrir svona dellu. Því er þessi grein líka mjög nauðsynleg til að endurreisa heilbrigt og gott sparisjóðakerfi hér á landi.

Einnig eru í þessu frumvarpi ákvæði sem tryggja aukið gegnsæi með því að Fjármálaeftirlitinu er ætlað að setja reglur um stofnfjáraukningu. Í nefndaráliti meiri hlutans sem kynnt var við 2. umr. kom skýrt fram að í slíkum reglum telur nefndin að tryggt eigi að vera að allir eigi jafnan aðgang að því að gerast stofnfjáreigendur í sparisjóði. En það eru líka í þessu frumvarpi ákvæði um það að skrá yfir stofnfjáreigendur skuli öllum opin. Allt þetta sem ég hef talið hér eru mjög mikilvæg atriði.

Hér er einnig að finna ákvæði um það að umframgreiðslur, þ.e. greiðslur umfram nafnverð fyrir stofnfé, renni til sparisjóðsins en ekki til til stofnfjáreigenda. Þetta atriði hefur verið nefnt hér í andsvari hjá hv. varaformanni viðskiptanefndar, Magnúsi Orra Schram. Þetta er líka gríðarlega mikilvægt atriði. Hér eru líka tryggðar reglur um almenn og skýr viðskipti með stofnfé, að það er heimilt að fara með stofnfé og selja það í stað þess sem verið hefur, vafi leikið á um heimildina.

Með þessu frumvarpi er einnig horfið frá hlutafélagavæðingunni en sparisjóðirnir fóru inn á þá braut á undanförnum árum. Þetta hefur líka verið til umræðu hér í dag. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur verið óþreytandi við að benda á þann skaða sem þetta hefur valdið í sparisjóðakerfinu. Með frumvarpinu eru tekin af öll tvímæli um það að hlutafélagavæðingunni er lokið og hlutafélagabönkunum er óheimilt að nota heitið „sparisjóður“ í firmaheiti sínu.

Öll þessi atriði, frú forseti, sem ég hef hér talið eru mikilvæg í mínum huga. Þá er ótalið ákvæðið sem var í upphaflegri 7. gr. um heimild til niðurfærslu stofnfjár. Það er ekki af einhverri illmennsku sem það er til komið heldur hefur það verið upplýst og var fjallað um það við 2. umr. að þetta ákvæði er til komið vegna þess mats að það væri ekki ótvíræð heimild til niðurfærslu stofnfjár að gildandi lögum og það þrátt fyrir 63. gr. sem ég nefndi áðan um ábyrgð stofnfjáreigenda.

Ég vil að lokum, frú forseti, benda að enn steðja miklir erfiðleikar að fjármálafyrirtækjum á Íslandi. Við eygjum kannski von til þess að 17. þessa mánaðar verði tímamót í uppbyggingu nýrra banka á Íslandi en staðreyndin er sú að flestir eða mjög margir sparisjóðanna uppfylla ekki kröfur Fjármálaeftirlitsins og laga um fjármálafyrirtæki um eigið fé. Nýju bönkunum hefur verið gefinn frestur til 17. þessa mánaðar til að uppfylla þær kröfur. Sparisjóðirnir eru í ákveðnu tómarúmi hvað það snertir, þeir uppfylla ekki þessar kröfur en það er verið að reyna að gera þeim það mögulegt með aðkomu ríkisins.

Hinn valkosturinn, að grípa til 77. gr. laga um fjármálafyrirtæki og afturkalla starfsleyfi vegna þess að eigið fé uppfyllir ekki kröfur laganna, er ekki möguleiki eða er ekki leið í mínum huga. Ég tel þvert á móti að stíga eigi þetta skref núna og gera sparisjóðum, sem ráða við það, kleift að taka á móti eiginfjárframlagi frá ríkissjóði auðvitað í þeirri von að þeir komist á legg þannig að ríkið geti eftir einhvern tiltekinn tíma losað þessa hluti sína og selt og ég ætla rétt að vona með hagnaði. Ef okkur tekst að byggja upp bankakerfi og sparisjóðakerfi á heilbrigðari grunni með aðkomu ríkisins eins og nú er ætti ríkissjóður ekki að bera skaða af þessu. Við skulum ekki gleyma því að það fjármagn sem verið er að setja inn í fjármálafyrirtækin í dag, hvort heldur það eru nýju bankarnir, talað er um 200, 300, 400 milljarða kr., eða sparisjóðirnir, 20 milljarðar, er ekki fé sem er sett í eitthvert svarthol. Þetta er fé sem er ætlað til þess að byggja upp fjármálafyrirtækin og koma þeim þannig á legg að þau verði vænlegur fjárfestingarkostur og þar með geti ríkið losað um eignarhald sitt að einhverju leyti.

Ég vil að lokum þakka aftur mjög góða umræðu og öllum þeim sem hafa komið að því að vinna þetta mál. Það voru gerðar verulegar breytingar á því við 2. umr. og það er ekki síst að þakka þeim fjölmörgu sem sendu nefndinni athugasemdir og ábendingar og komu á hennar fund. Það ber að þakka.