137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[18:05]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er enginn pólitískur ágreiningur um það að menn vilja verja sparisjóðakerfið. Þess vegna samþykkti Alþingi m.a. neyðarlögin. Þar var hins vegar ekki kveðið á um það að færa þyrfti niður stofnfé af því að það væri forsendan fyrir því að ríkið hefði aðkomu að endurreisn sparisjóðakerfisins. Það sem er nýtt í þessu frumvarpi er einmitt það að gera það að skilyrði fyrir aðkomu ríkisins að stofnféð sé fært niður.

Eins og málin hafa verið að þróast og skýrast í þessari umræðu er algjörlega ljóst, og það er mikilvægt að það komi fram, að hér er verið að leggja drög að því að færa niður stofnfé með mjög umtalsverðum hætti. Það mun hafa þær afleiðingar að stofnfjáreigendur, þúsundir manna úti um allt land, munu skaðast, sveitarfélög munu skaðast um hundruð milljóna og kannski enn þá meira og það sem er verst af öllu, þetta girðir fyrir það að hægt sé að laða að nýtt stofnfé frá almenningi úti á landsbyggðinni. Þess vegna er þetta frumvarp til óþurftar. Það er rangt hjá hv. þingmanni sem hefur haldið því fram hér öðru hverju í dag að þetta eigi allt saman rætur í neyðarlögunum, það er ekki svo og það sést vel ef lesinn er bókstaflega texti 2. gr. þeirra laga.