137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[18:09]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt það sem við óttumst að muni ekki gerast vegna þess að eins og við höfum bent á vantar allan hvata fyrir nýja stofnfjáreigendur til að koma inn ef búið er að færa stofnféð niður í núll vegna þess að öllum hugmyndum um gólf var hafnað. Hvað svo sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir segir um að þetta sé ekki skylda og að það sé ekki verið að beina tilmælum til þess að þetta fari ekki niður í núll þá er ákveðin hætta þar á og þess vegna vantar hvatann. Það að þetta sé ekki hugsað í heildarsamhengi, gólfið, stofnfjáreigendurnir og hvatinn til að koma og halda áfram og útgönguleiðin, gerir það að verkum að þetta verður ekkert annað en ríkisrekið apparat og þá ætti bara að gera það hreinlegar, gera það bara þannig að ríkið tæki þetta yfir allt saman strax vegna þess að það er það sem mun gerast. Þetta er það sem við erum að benda á.

Svo hefur verið talað hér mikið um sveitarfélögin og áhyggjur þeirra. Það hefði verið fróðlegt að fá einhvers konar kostnaðarmat á það hvernig þetta gæti haft áhrif á fjárhag sveitarfélaganna vegna þess að því er stundum ábótavant. Ég skal nefna eitt dæmi, ríkisstjórnin var að hækka tryggingagjald á atvinnurekendur um daginn á laun. Hvað gerir það? Það gerir ekkert annað en að dýpka þessa kreppu vegna þess að þetta kemur ekki bara niður á einhverjum einkafyrirtækjum úti í bæ sem ríkisstjórninni virðist stundum vera í nöp við, heldur kemur þetta verst við sveitarfélögin í landinu. Ég veit til þess að Reykjavíkurborg ein og sér fær á sig einn milljarð kr. í hækkun á kostnaði vegna þeirrar lagabreytingar og hvað þá með hin sveitarfélögin úti um land sem eru að berjast í bökkum rétt eins og ríkissjóður við að ná endum saman? Þess vegna er ömurlegt að sjá hér að enn á ný (Forseti hringir.) er farið af stað án þess að heildarsýnin og áhrifin á alla þætti séu metin.