137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[18:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég mótmæli því að ég hafi hér verið að tala niður til stofnfjáreigenda. Ég var þvert á móti að lýsa því sem fram kom fyrir nefndinni að í sjálfu sér væri eftirsóknarvert og hluti af enduruppbyggingu sparisjóðakerfisins að tryggja að stofnfjáreigendur sæju sér hag í því að vera þar inni áfram. Meðal annars með tilliti til þess var ákvæðum frumvarpsins um arðgreiðslur breytt við 2. umr.

Ég vil einnig segja það hér að það er ekki eðlilegt að láta eitt yfir alla sparisjóði ganga í þessum efnum. Það væri ekki réttlátt, þvert á móti væri það mjög ranglátt vegna þess að þeir eru alls ekki jafnsettir. Það var upplýst fyrir nefndinni að sumir sparisjóðanna eru með jákvæða eiginfjárstöðu, staða annarra er í járnum en hins vegar er meiri hluti þeirra laskaður og þarf á aðkomu ríkissjóðs að halda.