137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[18:18]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það hefði verið fróðlegt að heyra hv. þingmann Álfheiði Ingadóttur svara því í andsvari sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson beindi til hv. þingmanns. Mér fannst í besta falli koma fram í ræðu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur einhvers konar grundvallarmisskilningur. Hv. 10. þm. Reykv. n. Álfheiður Ingadóttir er að reyna að slá á áhyggjur sem komnar eru til af góðum ástæðum. Ekki hefur verið notað tækifærið til að útlista að ekki verði farið með stofnfé niður í núll í nefndinni eða í störfum hennar eða að ganga þannig frá frumvarpinu að það verði ekki gert. Stjórnarliðar hafa ekki komið hér í umræðuna og slegið á áhyggjur eins hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson lýsti og hefur það í rauninni verið þvert á móti.

Í lok umræðunnar kemur hv. þm. Álfheiður Ingadóttir og upplýsir okkur um að það verði gert. En hv. þingmaður segir að það sé í rauninni ekki hlutverk ríkisstjórnarinnar að fara út vegna þess að það sé miklu frekar hlutverk hennar að fara inn, þ.e. að ríkið fari inn, það sé svo stórt verkefni að það þýði ekkert að hugsa um hitt. Þarna er ákveðinn grundvallarmisskilningur á ferð því að ef menn trúa því að sparisjóðirnir séu gott rekstrarform — og nú er ég að vísa í allar þessar ræður sem stjórnarliðar héldu þegar þeir voru í stjórnarandstöðu um að það form sé betra en annað. Hvers vegna? Vegna þess að það er gott að hafa stofnfjáreigendur, þeir hafa sérþekkingu á viðkomandi svæði og veita rekstrinum aðhald, við erum búin að heyra þetta allt saman. Ef við ætlum að ná því markmiði sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir ræddi um, að ríkið fái fjármuni sína til baka, hlýtur það að vera lykilatriði að stofnfjáreigendurnir komi eins sterkt að og mögulegt er.

Að menn séu ekki búnir að nota tækifærið og tímann til þess að útfæra þetta er algjörlega óskiljanlegt að því gefnu að menn trúi því sem þeir segja, sem mér finnst ekkert sjálfgefið. Ef menn segja síðan eins og Álfheiður Ingadóttir sagði: Verkefnið er ekki að fara út, það er að fara inn, þá trúa þeir því. Og síðan í hinu orðinu: Við þurfum að sjá til þess að ríkið fái fjármuni sína til baka, trúa þeir því að það skipti nákvæmlega engu máli að stofnfjáreigendur séu aðilar að viðkomandi sparisjóði, það sé einhvers konar „gimmick“. Ef menn trúa því að það sé gott fyrir rekstur sparisjóðsins hljóta menn nú þegar þeir ganga frá þessu að leggja fram áætlun um það hvernig þeir geta verið áfram stofnfjáreigendur, hvernig þeir geta komið inn og hvernig hægt er að fjölga þeim. Það er ekki gert.

Ég gef lítið fyrir að menn komi hér í lok umræðunnar með einhverja örstutta ræðu um þessa hluti. Það er augljóst, virðulegi forseti, að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir taldi að hér væri verið að ganga frá heildarumgjörð um sparisjóðina, lagaumgjörð, þetta þykir vera björgunaraðgerð, þetta er heildarumgjörðin.

Fjármálaráðuneytið sagði sérstaklega við okkur á síðasta fundi áður en gengið var frá þessu: Takið betri tíma í þetta. Það er alveg ljóst að það er engin umgjörð um hvernig menn geta orðið stofnfjáreigendur eða um neina slíka hluti, það er ekkert farið í það. Við bárum þetta ekki saman við nágrannalöndin og það er engin framtíðarsýn á sparisjóðina í breyttu umhverfi, það er ekki neitt. Hv. þm. Eygló Harðardóttir hefur hvað eftir annað kallað eftir því að gerður verði samanburður við önnur lönd. Það var ekki gert, ekki neitt, ekki af hálfu ráðuneytisins, því síður nefndarinnar.

Virðulegi forseti. Það miðar allt að því að klára þessa umræðu þannig að hægt sé að skófla þessu máli í gegn eins og öðrum málum með einhverjum hraði og það eru vinnubrögð meiri hlutans. En það er pínulítil kaldhæðni í því — þetta er svona í framhjáhlaupi — þegar hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kom hér og gumaði sérstaklega af því að búið væri að setja í lögin að ef tap væri á viðkomandi sparisjóði mætti ekki greiða út arð. Ég minni á að undir forustu Vinstri grænna byrjaði Orkuveita Reykjavíkur á því að þrefalda arðinn alveg burtséð frá því hvort tap eða hagnaður (Forseti hringir.) væri á því fyrirtæki.