137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[18:28]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti um frumvarp sem er ætlað að stofna opinbert hlutafélag til að stuðla að endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

Það er rétt sem hv. þm. Helgi Hjörvar benti á í framsögu sinni hér við 3. umr. að þetta mál á sér nokkurn aðdraganda. Það er kannski rétt að rifja það upp að í tíð minnihlutastjórnarinnar sem naut stuðnings okkar framsóknarmanna gagnvart vantrausti var það mikið keppikefli hjá hæstv. ríkisstjórn að koma máli sem þessu í gegn. Reyndar var það gjörsamlega ólíkt því máli sem við ræðum hér vegna þess að það frumvarp hafði það yfirbragð að þar væri um að ræða umfangsmikið félag sem ætti að yfirtaka fyrirtæki í allmiklum mæli, a.m.k. var sá misskilningur á ferðinni í umræðunni, sérstaklega hjá mörgum gestum sem komu þá á fundi nefndarinnar. Þar getum við nefnt Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands sem lögðust eindregið gegn samþykkt þess frumvarps enda þótti okkur heilmikill ríkisafskiptastimpill á öllu því frumvarpi.

Það fór heilmikill spuni í gang þegar í ljós kom að við framsóknarmenn sögðumst leggjast gegn því frumvarpi og náði það mál þar af leiðandi ekki fram að ganga í ljósi þess að sú stjórn studdist ekki við meiri hluta á Alþingi og aðrir stjórnarandstöðuflokkar voru á móti því frumvarpi sem við ræddum þá. Í kjölfar kosninganna lagði hæstv. ráðherra fram nýtt frumvarp sem lagt var fyrir efnahags- og skattanefnd og við áttum mikla umræðu um það hér á dögunum við 2. umr. en frumvarpinu sem hæstv. ráðherra lagði þá fram hefur verið breytt í öllum grundvallaratriðum. Það má því segja að þingið hafi nú komið vilja sínum nokkurn veginn fram í þessu stóra máli og ég held að menn geti sagt eftir á að það hafi verið ágætt að það frumvarp sem minnihlutastjórnin mælti fyrir fyrir síðustu kosningar hafi ekki náð fram að ganga, ég held að menn séu almennt sammála um að það hafi margt breyst til mikilla bóta í þessari vinnu þó að sitt sýnist hverjum núna í lokaumræðunni um málið sem er mjög mikilvægt hvað snertir endurreisn íslensks atvinnulífs.

Við 2. umr. flutti ég nefndarálit, minnihlutaálit, og gerði miklar athugasemdir við það hvernig skipa ætti í stjórn þessa félags. Umræðan hér var mjög uppbyggileg og málefnaleg, fannst mér, sama úr hvaða flokki menn komu. Við skiptumst á skoðunum og það var mjög vel tekið í að skoða það sérstaklega á milli 2. og 3. umr. hvernig í þessa stjórn skyldi skipa. Sjálfur hafði ég mikla trú á því að tekið yrði tillit til þeirra sjónarmiða sem við lögðum upp með, annars vegar að skoða þann möguleika hvort við ættum að setja á fót sérstaka valnefnd sem mundi tilnefna í stjórn sem ráðherra gæti síðan staðfest eða breytt eftir efnum, eða það að fleiri enn einn aðili mundu skipa í stjórn þessa félags.

Breytingartillagan sem kemur nú út úr hv. efnahags- og skattanefnd er á þann veg að við 3. mgr. 2. gr. bætist nýr málsliður sem hljóðar svo, með leyfi forseta: „Fjármálaráðherra er heimilt að framselja eignarhlutinn til Bankasýslu ríkisins.“

Bankasýslan er mál sem er seinna á dagskrá þessa fundar og tengist þar af leiðandi þessu máli nú. Ef við kynnum okkur hvað stendur í því frumvarpi sem ríkisstjórnin hefur lagt fram um stofnun sem mun verða gríðarlega valdamikil og undir munu heyra viðskiptabankarnir og væntanlega sparisjóðirnir sem fara á að ríkisvæða. En áður en ríkisstjórnin tilkynnti þessi áform sín um ríkisvæðingu sparisjóðanna bendi ég á að ríkið hafði 90% markaðshlutdeild á fjármálamarkaðnum í gegnum stóru viðskiptabankana þrjá og þau fjármálafyrirtæki sem hafa verið tekin yfir í framhaldi af hruninu. Það er því ekki nóg að ríkið sé eigandi 90% fjármálamarkaðarins heldur á nú að bæta í og sölsa undir það marga sparisjóði sem eru hornsteinar í sinni heimabyggð og hafa skipt mörg byggðarlög vítt og breitt um landið miklu máli, lagt verulega mikið til samfélaganna, sérstaklega á mörgum þéttbýlisstöðum og í dreifbýli á landsbyggðinni. Það er sem sagt hugmyndin að þeir ríkisvæddu sparisjóðir fari undir Bankasýslu ríkisins rétt eins og þetta opinbera hlutafélag sem á að stuðla að endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja. Meiri hluti nefndarinnar leggur það til að fjármálaráðherra megi einfaldlega ráða því hvort hann skipi stjórn þessa félags einn og sér eða hvort Bankasýslan eigi jafnvel bara að skipa í stjórnina sem handhafi alls hlutafjár í þessu og á hluthafafundi.

Þá velti ég því fyrir mér, þegar kemur að störfum þessa opinbera hlutafélags og skipað er í stjórn þess félags af hálfu Bankasýslunnar, hvar ráðherraábyrgðin sé í málinu ef stjórnendur eða stjórn Bankasýslunnar skipar stjórn þessa félags sem getur tekið yfir fyrirtæki — það er ekkert loku fyrir það skotið — og ef það kæmi upp í framhaldinu að stjórn eða stjórnendur þess félags hefðu að einhverju leyti farið á svig við lög og reglur, var það þá fjármálaráðherra sem skipaði fulltrúa sína í þá stjórn? Nei, það voru fulltrúar Bankasýslunnar. Ég velti því þá fyrir mér hvað verði um pólitíska ábyrgð á störfum þessa félags ef fjármálaráðherra kýs svo að gera líkt og meiri hluti nefndarinnar er að heimila hæstv. ráðherra, að Bankasýslan geti tilnefnt í stjórn þessa félags.

Mér finnst þetta í raun og veru alveg þveröfugt við það sem við ræddum hér í 2. umr., um ábyrgð stjórnmálamanna og þá sérstaklega ráðherra. Ég talaði fyrir því að auðvitað ætti ráðherra að skipa í þessa stjórn en ekki einn, það mætti koma til greina að viðskiptaráðherra skipaði einhverja, Seðlabankinn, jafnvel aðilar vinnumarkaðarins, bara að tilnefningin kæmi ekki frá einum einstökum ráðherra. Af hverju segi ég það? Ég segi það vegna þess að þó að hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon sé vandaður maður að virðingu sinni og ágætur félagi á vettvangi Alþingis, þá gæti verið að annar stjórnmálamaður væri orðinn fjármálaráðherra eftir mánuð (Gripið fram í.) og hvaða völd er verið að gefa þeim hæstv. ráðherra? Jú, hann getur skipað fimm manna stjórn og segjum sem svo að sá ráðherra sé úr Samfylkingunni, þá gæti hann skipað fimm einstaklinga úr flokksráði Samfylkingarinnar í stjórn þessa félags.

Minnir það ekki dálítið á liðna tíð? Auðvitað verða stjórnvöld að einhverju leyti alltaf að koma að skipan stjórna sem þessara en ég hefði viljað sjá að skipan í stjórn kæmi frá fleiri en einum aðila. Í raun og veru sé ég ekki rökstuðninginn fyrir því af hverju svo megi ekki vera, ég sé það einfaldlega ekki. Þegar við horfum upp á það að ríkið er komið með 90% af fjármálastarfseminni í landinu og ætlar að sölsa einhvern hluta af restinni, 10%, undir sig með því að ríkisvæða sparisjóðina, velti ég því fyrir mér á hvaða vegferð við erum og þá sérstaklega á hvaða vegferð ríkisstjórnin er. Við horfum til hafta, gjaldeyrishafta sem sett hafa verið á. Þau hafa verið hert og gefið hefur verið í skyn að þau muni þurfa að herða enn frekar.

Það var einmitt í tengslum við heimskreppuna upp úr 1930 sem við Íslendingar settum á höft. Þá voru fjármálastofnanir líka í eigu hins opinbera að mestu leyti. Það tók 50 ár fyrir íslenskt samfélag að losa sig út úr því haftasamfélagi. Hér horfum við upp á að verið er að stofna Bankasýslu ríkisins og stofna opinber hlutafélög til þess jafnvel að taka yfir rekstrarhæf félög. Á hvaða vegferð erum við í samfélaginu? Mér finnst eins og við séum komin marga áratugi aftur í tímann, því miður, og það geti tekið þó nokkurn tíma að koma okkur aftur til nútímans, aftur til þess að fólk geti átt eðlileg gjaldeyrisviðskipti. Getur verið að við endum líkt og hjá Húsnæðismálastjórn forðum þegar þar sátu fulltrúar stjórnmálaflokkanna í stjórn og fólk fékk afhent húsnæðislán á grundvelli flokksskírteinis? Gjaldeyrishöft hljómaði fyrir nokkrum mánuðum síðan sem fáránlegur valmöguleiki, þetta var svo fjarlægt. En þróunin til hins verra, að mér finnst, í samfélaginu er mjög hröð og ég velti því fyrir mér hvort við gætum með síaukinni ríkisvæðingu í samfélaginu horft upp á hluti sem menn horfðu því miður upp á fyrir nokkrum áratugum og allir hafa viljað hverfa frá.

Þess vegna sit ég eftir með þá spurningu hvers vegna í ósköpunum stjórnarliðar vilja að einungis einn ráðherra hafi alræðisvald yfir því hverjir sitja í stjórn þessa félags og hvers vegna menn hafi ákveðið að opna á þann möguleika fyrir hæstv. ráðherra að fela Bankasýslu ríkisins, sem hann skipar líka stjórnina í einhliða, að skipa stjórn þessa félags. Ég spyr enn og aftur: Hvar er þá ráðherraábyrgðin? Hver mun bera ábyrgð ef eitthvað fer úrskeiðis í stjórnun opinbers hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja? Því það er kominn milliliður, það eru komnir aðilar þarna á milli þannig að ráðherrann er í raun og veru kominn frá þessu, en vel að merkja, fulltrúar hans sem við vitum ekkert hverjir verða vegna þess að það má ekki tilnefna valnefnd og það má ekki láta neina aðra koma að tilnefningum í stjórn Bankasýslunnar, hún mun skipa þessa stjórn. Ef við setjum hlutina upp á versta veg og segjum sem svo að valinkunnir flokksgæðingar verði í stjórn Bankasýslu ríkisins og Bankasýslunni verði falið að skipa stjórn þess félags sem við ræðum hér, er þá ekki einhver hætta á því að þeir aðilar skipi skoðanabræður sína og samstarfsfélaga í stjórn þessa félags?

Nú er ég ekkert endilega að tala út frá þeirri ríkisstjórn sem nú situr, ég bið menn að hafa það í huga. Hvað gerist ef það verður kominn einhver annar fjármálaráðherra eftir tvo mánuði, einhver önnur ríkisstjórn? Ég ætla hæstv. fjármálaráðherra ekki svo illan hlut að hann ætli sér að gera þetta en við getum ekki staðið að lagasetningu á Alþingi sem byggir á trúnaðartrausti gagnvart einum stjórnmálamanni því að þeir koma og fara eins og frægt er orðið.

Við hljótum líka að velta því fyrir okkur, frú forseti, hver eigendastefnan sé gagnvart þessu félagi eða Bankasýslunni. Hún liggur ekki fyrir. Í raun og veru vitum við lítið um framtíðaráform stjórnarflokkanna þegar kemur að því hversu umfangsmikil þessi félög verða. Aðilar sem hafa komið með umsagnir um þessi mál hafa lýst því yfir að eigendastefna sé algjört lykilatriði í því þegar kemur að stofnun þessara félaga. Nú ræðum við hér í 3. umr. um stofnun þessa opinbera hlutafélags og eigendastefnan liggur ekki fyrir. Er það svo að Alþingi eigi einfaldlega að stimpla frumvörp sem þetta og síðan verði það fjármálaráðherrans og ríkisstjórnarinnar að móta eigendastefnuna um eitthvert heljarinnar batterí eftir að við höfum samþykkt þetta frumvarp? Hvers vegna bíðum við ekki með að klára afgreiðslu á þessu máli þangað til eigendastefnan liggur fyrir?

Ég held að ég þurfi ekki að minna hv. þingmenn á að fjárlagavaldið liggur hjá Alþingi og við eigum að reyna að hafa stjórn á því hvernig fjármálum ríkisins er háttað. En með því að samþykkja þetta frumvarp án þess að hafa fyrir framan okkur neina eigendastefnu er algjörlega óljóst hvert stjórnarflokkarnir ætla að stefna með þetta batterí.

Þegar menn tala um það, og ég er viss um að menn hafa ágæta hugsun í því, að þetta félag eigi einungis í undantekningartilvikum að taka yfir rekstrarhæf félög vil ég minna á að við lifum á mjög sérstökum tímum, það er hægt að kalla þetta undantekningartíma. Við lifum eina sögulegustu tíma í sögu lýðveldisins þegar kemur að fjármálum ríkisins og almennt og stöðu atvinnulífisins þannig að það getur verið að taka þurfi margar ákvarðanir sem menn geti rökstutt í ljósi þess að um undantekningartilvik sé að ræða, að algjört hrun hafi orðið hér og þar og því þurfi menn að grípa til þess að þetta félag taki viðkomandi fyrirtæki yfir.

Allt byggist þetta á því, frú forseti, hverjir stýra þessu félagi og við komum alltaf aftur og aftur að sömu spurningunni: Er eðlilegt að einungis einn aðili úr einum ranni frá hæstv. fjármálaráðherra, að hæstv. fjármálaráðherra skipi einn stjórn Bankasýslunnar eða þessa félags? Vegna þess að með breytingartillögunni tengjast þessi mál óhjákvæmilega og þau frumvörp sem við ræðum nú og trúlega síðar í kvöld eða á morgun og við hljótum að velta því fyrir okkur hvað verði um ráðherraábyrgðina með þessari breytingartillögu ef eitthvað fer úrskeiðis hjá þessu félagi, þ.e. ef Bankasýslan á að skipa stjórn þessa félags.

Ég held líka að það sé mikilvægt að á sumarþinginu, því miður sést ekkert til lands í því, komum við á fót einhverjum reglum sem fjalla um sölu á eignarhlutum ríkisins, þ.e. að þær reglur verði lögfestar á þinginu en ekki eins og verið hefur í gegnum árin einungis settar með reglugerð af einum ráðherra. Ríkisendurskoðun hefur bent á að það sé nauðsynlegt að Alþingi fjalli um slíkar reglur, fari í gegnum umræðu um það í nefndum þingsins og að á endanum staðfesti Alþingi þessar reglur, því að það verður gríðarlegt verkefni að koma eigum ríkisins aftur í eigu einkaaðila því að ríkið á orðið svo gríðarlega mikið í íslensku samfélagi í dag og það er mikilvægt að við þá meðferð séu reglurnar gegnsæjar og að eftir þeim verði farið. Þess vegna er mikilvægt að fulltrúar allra stjórnmálaflokka, stjórn og stjórnarandstaða, komi að því að setja slíkar reglur á vettvangi þingsins. Þar sem ríkisstjórnin í orði kveðnu segist ætla að reyna að koma eignum ríkisins sem fyrst í verð hefði ég haldið að það ætti að vera eitt af forgangsmálum hennar á sumarþinginu að leggja fram frumvarp um slíkar reglur þannig að við hefðum getað fjallað um það í þinginu í sumar og afgreitt málið þannig að ráðherrar byggju við eitthvert umhverfi, reglur sem Alþingi hefði sett í því vandasama hlutverki sem það er að einkavæða eignir ríkisins að nýju, a.m.k. að einhverjum hluta. Ekki viljum við sjá það þannig í framtíðinni að ríkið verði eignaraðili fjármálafyrirtækja sem eru með 90–95% markaðshlutdeild, ég held að mjög fáir í þessum sal sjái það fyrir sér. Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða og hefðum þurft að vera byrjuð að skoða á vettvangi þingsins.

Ég vil minna á það, frú forseti, að það skiptir máli í þessari endurreisn að við höfum víðtækt samráð og ég verð að segja það — um leið og ég hæli formanni nefndarinnar, hv. þm. Helga Hjörvar, fyrir það hvernig hann að mörgu leyti hefur haldið á málinu og þó að okkur greini á í lokaafgreiðslunni tel ég að hv. þingmaður hafi reynt sitt besta til þess að ná fram einhverri málamiðlun þannig að við getum öll verið sammála um þessi mál — að mér finnst miður, eins og ég hef áður sagt, að við skyldum ekki ná saman um það hvernig við skipum í stjórn þessa félags, því að það er lykilpunkturinn á því hvernig verður haldið á þessu máli og það er þess vegna sem ég mun ekki greiða þessu frumvarpi atkvæði mitt.

Eins og ég minntist á áðan, og það væri ágætt að fá svör við því varðandi þetta félag og hvernig það verður, sjá hv. þingmenn meiri hlutans það fyrir sér að meiri hluti stjórnenda eða stjórn þessa félags verði erlendir, kannski allir? Eða hafa menn þá framtíðarsýn fyrir hönd íslensks samfélags að Íslendingar komi líka eitthvað að endurreisn íslensks samfélags? Við höfum heyrt það utan að okkur að erlendir aðilar eigi að vera mjög ráðandi í þessu. Nú veit ég ekki hvort sá orðrómur er réttur en mér finnst mikilvægt að við fáum það á hreint í þessari umræðu hver hugmyndafræði stjórnarliða er í þessum efnum þar sem ég tel að þeir eigi fleiri samtöl við hæstvirta ráðherra en við sem erum í stjórnarandstöðu á Alþingi Íslendinga. Mér finnst nefnilega skipta máli upp á sjálfsmynd okkar — þó að við þiggjum að sjálfsögðu góð ráð frá erlendum ráðgjöfum — að Íslendingar komi að einhverju leyti að þessari endurreisn vegna þess að það býr gríðarlegur mannauður í landinu og mikil þekking þrátt fyrir allt á fjármálum og þrátt fyrir allt sem á undan hefur gengið megum við ekki afskrifa okkur sem þjóð og tala okkur niður með þeim hætti vegna þess að ég tel að landið búi yfir miklum mannauði og mér finnst að Íslendingar eigi að koma að málum sem þessum, en að sjálfsögðu eigum við líka að leita ráða erlendis frá.

Frú forseti. Þetta mál er orðið margra mánaða gamalt. Við framsóknarmenn stóðum gegn því á vormánuðum að það frumvarp sem þá var til umræðu gengi í gegn og eins og ég sagði áðan held ég að menn séu almennt sammála um að það hafi verið heillaspor að við komum í veg fyrir það á sínum tíma í samstarfi við aðra í stjórnarandstöðunni. Ég er hins vegar efins um að rétt sé að afgreiða þetta mál í þessum búningi en ég skil óþreyju hv. þingmanna stjórnarliðsins fyrir því að koma þessu máli áfram vegna þess að eins og ég sagði áðan eru nokkrir mánuðir síðan það var fyrst lagt fram. Þá vil ég líka minna á að það var mjög takmarkaður áhugi á því á sínum tíma hjá þáverandi ríkisstjórn að taka mikið tillit til sjónarmiða aðila vinnumarkaðarins, Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins, og mér fannst vanta meiri tilraunir til þess að ljúka málinu á því vorþingi. Það var einfaldlega þannig að hæstv. fjármálaráðherra hafði komið fram og sagt: Þetta mál verður að afgreiða. Á honum mátti skilja að þetta mál hefði átt að afgreiða eins og hann hafði lagt það fram. Nú eru þessir sömu ráðherrar komnir í þá skemmtilegu aðstöðu að vera með meiri hluta á þingi en ég vil þó minna á það og ég held að það sé ákveðin undantekning í störfum á Alþingi að þetta mál hefur samt tekið þó nokkrum breytingum til batnaðar þó að hæstv. fjármálaráðherra hafi lagt málið fram og hafi meiri hluta á þinginu og ég vil þakka hv. þingmönnum í efnahags- og skattanefnd fyrir ágætt samstarf í þessu máli.

Eins og ég minntist á áðan er þetta mál orðið nokkurra mánaða gamalt eins og svo mörg önnur mál hjá hæstv. ríkisstjórn. Ég þreytist ekkert á að minna á það að við framsóknarmenn lögðum fram í febrúar efnahagsáætlun í 18 liðum sem ekkert var hlustað á og engum af þeim áætlunum þar, þó að vel hafi verið tekið í þær fyrst, hefur verið komið í framkvæmd. Það eru liðnir margir margir mánuðir síðan endurskipuleggja átti bankana, því hefur verið frestað skipti eftir skipti. Og ég man ekki betur en ríkisstjórnin hafi gefið það út að stýrivextir hér á landi ættu að vera orðnir stjarnfræðilega lágir undir áramótin en þeir eru 12%, einir þeir hæstu í vestrænum löndum, sem bitnar verulega á skuldugum heimilum og skuldugum fyrirtækjum og sú staðreynd sem hv. þm. Þór Saari benti á á fundi efnahags- og skattanefndar um daginn þegar við ræddum umdeilt mál sem Icesave-málið er þá er það svo að á fyrstu mánuðum þessa árs hafa tíu fjölskyldur flutt úr landi á hverjum einasta virkum degi. Þetta er sama fólkið og kallar á aðgerðir ríkisstjórnarinnar en því miður í hverju málinu á fætur öðru eru alltaf frestir.

Þegar ég tala um 12% stýrivexti hefur það komið fram hjá helstu sérfræðingum þjóðarinnar í þeim efnum að þeir hafi ekki verið lækkaðir vegna þess að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar var lengi vel framan af mörgum óljós, það vantaði stefnu í ríkisfjármálin. Það er þess vegna m.a. sem stýrivextir hafa ekki lækkað eins mikið og raun ber vitni. Síðan hafa stjórnarliðar hér á þingi og ríkisstjórnin verið dugleg í að hækka vísitölu neysluverðs með því að hækka neysluskatta sem í ofanálag á þessa gríðarlega háu stýrivexti hefur leitt til þess að lán heimilanna hafa hækkað um 13–14 milljarða kr. Það hljómar ankannalega hjá okkur þingmönnum sem höfum talað fyrir leiðréttingu skulda og lækkun skulda heimilanna að standa svo hér og horfa upp á ríkisstjórnarmeirihlutann í máli eftir máli hækka skuldir íslenskra heimila og fyrirtækja með alveg mögnuðum aðgerðum að ég vil segja. (TÞH: Skipulega.) Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson skýtur hér fram í að það hafi verið gert á skipulagðan hátt og það er alveg rétt. Mér hefur fundist alveg með ólíkindum að fylgjast hér með mörgum stjórnarliðum ýta bara á græna takkann, samþykkt, skipti eftir skipti. Allir sammála því að hækka verð á bensíni, allir sammála því að hækka hitt og hækka þetta. Það er aldeilis agi á stjórnarliðum. Ég efast ekki um að þeir hafi engar efasemdir um að þetta ákvæði með stjórnina í þessu máli sé nokkuð yfir vafa hafið, jafnvel þó að aðrir stjórnmálaflokkar mundu komast að ríkisstjórnarborðinu eftir nokkrar vikur. Ætli málflutningur hv. þingmanna væri þá ekki öðruvísi? Maður hlýtur að spyrja sig að því.

Annars vil ég segja það að lokum, frú forseti, að við höfum talað hér fyrir samstöðu og samvinnu á vettvangi Alþingis, þingmenn stjórnarandstöðunnar, og þá á ég við alla þingmenn stjórnarandstöðunnar, hvort sem þeir koma úr Framsóknarflokki, Borgarahreyfingu eða Sjálfstæðisflokki. Við höfum lagt fram tillögur í efnahagsmálum sem ríkisstjórnin hefur því miður ekki tekið vel í, við höfum lagt fram hugmyndir sem ríkisstjórnin hefur því miður ekki tekið vel í.

Ég verð að segja að ég varð hissa hérna áðan þegar ég sá hæstv. forsætisráðherra allt í einu í salnum vegna þess að hæstv. forsætisráðherra hefur eiginlega verið týnd í þingsölum undanfarna daga og vikur og alltaf sést minna og minna af hæstv. ráðherra. Ég velti því fyrir mér hvort það sé einfaldlega svo að þessir tveir flokkar ráði við stöðu mála eins og hún er í dag. Ég skynja ekki sama eldmóðinn hjá hæstv. ráðherrum Steingrími J. Sigfússyni og Jóhönnu Sigurðardóttur og ég varð var við hér fyrir einu ári síðan. Mér finnst eins og þetta fólk sé orðið mjög þreytt og í raun og veru er uppistaðan í ræðuhöldum þeirra, upphafið og endirinn vanalega, um það hve þetta sé hrikalega erfitt verkefni sem þau eru að glíma við. Þess vegna er það hálfbroslegt þegar við í stjórnarandstöðunni komum hér í fullri einlægni og leggjum fram tillögu í mörgum liðum um hin ýmsu mál að ekkert er hlustað. Þetta eru reyndar ráðherrar sem telja sig greinilega vita meira en stjórnarandstaðan en ég vil halda því fram að innan stjórnarandstöðunnar séu margir hæfileikaríkir einstaklingar sem hafa margt gott til málanna að leggja. Þess vegna vil ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar og þingmönnum stjórnarmeirihlutans í efnahags- og skattanefnd fyrir gott samstarf í þessu máli þó að okkur skilji að á lokaspretti umfjöllunar um þetta mál, en það veldur mér líka vonbrigðum að afstaða stjórnarmeirihlutans gagnvart því hvernig stjórn þessa félags eigi að vera skipuð skuli vera með þessum hætti.

Mér finnst það í raun og veru afturhvarf til fortíðar þegar við erum að tala um að byggja upp nýtt Ísland að við skulum gera stjórnmálin að svo virkum þátttakanda í íslensku viðskiptalífi vegna þess að það er óumdeilt, hvar í flokki sem við stöndum, að stjórnmálaflokkar og atvinnulíf voru áratugum saman nátengd. Við höfum mörg hver, a.m.k. við sem ekki höfum ekki setið á þingi í áratugi, viljað hverfa frá því og þess vegna finnst mér varhugavert að fulltrúar eins manns, eins stjórnmálamanns, verði skipaðir í stjórn sem þessa án þess að nokkur utanaðkomandi aðili fái að koma þar nálægt. Ég hefði haldið að fyrir trúverðugleika ríkisstjórnarinnar og trúverðugleika hæstv. fjármálaráðherra væri best að hafa einhverja sem gætu sagt sitt álit á skipan í stjórn þessa mikilvæga félags.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að þessu sinni. Það getur vel verið að ég biðji aftur um orðið vegna þess að þetta mál er svo stórt og miklu stærra en það lítur út fyrir að vera og vegna þess að það er ekki loku fyrir það skotið að menn geti túlkað þá varnagla sem við þó setjum í þetta frumvarp mjög vítt og það verður að ganga varlega núna, ef svo má segja, um gleðinnar dyr þegar kemur að endurskipulagningu íslensks samfélags. Ég hef varað við því að við tengjum stjórnmálin og viðskiptalífið of mikið saman. Við þurfum að forðast það. Þó að stjórnmálamenn þurfi að sjálfsögðu að koma að tilnefningum í þessa stjórn tel ég það ekki eiga að vera á færi eins manns að tilnefna í slíka stjórn rétt eins og með Bankasýsluna sem mér sýnist verða miklu umfangsmeira batterí en við ræðum hér og þetta er þó nokkuð sem við ræðum nú.

Ég á von á því að við eigum eftir að ræða þessi mál vel en ég hefði gjarnan viljað að frestuðum afgreiðslu á þessu máli þangað til einhver raunveruleg eigendastefna (Forseti hringir.) liggur fyrir hjá stjórnarflokkunum, hvað þeir ætla sér með stofnun þessa félags.