137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[19:05]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Meðan á nefndadögum stóð og farið var yfir þetta mál þurfti ég að sinna opinberum erindagjörðum úti í Strassborg og gat því miður ekki setið þá fundi nefndarinnar þegar gestir voru kallaðir til. En ég velti því fyrir mér og ég met það svo að breytingartillaga meiri hlutans breyti þessu máli til hins verra og það koma upp mörg spurningarmerki hjá mér þegar ég velti þessu máli fyrir mér.

Nú veit ég að hv. þm. Pétur H. Blöndal getur ekki komið aftur upp í andsvar en við hljótum að velta því fyrir okkur þegar menn breyta málinu í grundvallaratriðum, að mínu viti, er varðar skipan stjórnar félagsins hvort ekki hefði þurft að fara ítarlega yfir það með umsagnaraðilum og fleiri sérfræðingum. Þá kannski sérstaklega varðandi ráðherraábyrgðina og hver ber ábyrgðina ef stjórnunarhættir þessa félags verða með þeim hætti að við þá verður ekki unað. Við horfum upp á þá staðreynd að það var ekki við ráðherrann að sakast, ráðherrann skipaði ekki stjórn þessa félags. Það voru aðilar sem ráðherrann skipaði í stjórn Bankasýslunnar sem skipuðu í þessa stjórn. Ég tel því að hér sé um að ræða miklu verra mál og að mínu viti hefði verið mun betra að sleppa þessari breytingartillögu vegna þess að hún dregur mögulega úr ráðherraábyrgð ef eitthvað vafasamt kemur upp í framtíðinni hjá einhverjum öðrum ráðherra, hjá einhverjum öðrum flokkum þess vegna. Við skulum ekki einskorða þetta bara við að hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon er hér við völd. Við höfum nú séð mörg merki þess að þessi ríkisstjórn verður ekki endilega svakalega langlíf, ég skal ekki um það segja, en það gæti vel verið að hún lifi ekki í tólf ár eins og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur spáð. Þá koma einhverjir nýir að og er þá ekki betra að við höfum varnagla hvað varðar þessi ákvæði því að Steingrímur J. Sigfússon verður vonandi ekki fjármálaráðherra um ókomna tíð.