137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[19:09]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst aðeins um yfirtöku á fyrirtækjum. Það kom kannski ekki nægilega skýrt fram hjá mér í ræðu minni að hugmyndafræðin í þessu frumvarpi er mun betri en í því frumvarpi sem lagt var fram á vorþingi, þar sem gert var ráð fyrir því samkvæmt textanum að gríðarlegur fjöldi mikilvægra fyrirtækja mundi fara þarna undir. En í þessu frumvarpi er sagt að taka eigi yfir rekstrarhæf fyrirtæki í undantekningartilvikum.

Segjum sem svo að þarna skipi ráðherrann einvalalið sem túlki undantekningartilvik dálítið vítt, því að það er ekki loku fyrir það skotið að þetta félag geti tekið yfir, gæti það orðið nokkuð umfangsmikið. Þess vegna skiptir stjórn félagsins svo ofboðslega miklu máli í þessu sambandi.

Varðandi auknar álögur á fyrirtæki er búið að hækka tryggingagjaldið. Við horfum upp á mikla verðbólgu og mörg fyrirtæki eiga í miklum erfiðleikum með að greiða laun og opinber gjöld. Ég tel að það sé gríðarlegur fjöldi af fyrirtækjum í miklum greiðsluerfiðleikum nú þegar og þau verða enn fleiri í haust. Hugmyndin í þessu frumvarpi er sem betur fer sú að bankarnir reyni að leysa vandamál þeirra fyrirtækja innan eigin veggja og að þetta félag eigi að hafa ákveðið eftirlit með því að sanngirni sé gætt á milli fyrirtækja þannig að ekki sé verið að mismuna mönnum, t.d. á grundvelli flokksskírteinis.

Enn og aftur komum við að því að það skiptir máli hverjir stýra þessu félagi og að það sé yfir allan vafa hafið hvernig að þeirri skipan er staðið. Ég tek því undir það með hv. þingmanni að það er ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af þessu.

Eins finnst mér það með ólíkindum, og hv. þingmaður er gleggri en ég að benda á það, að það eigi hugsanlega að setja þetta félag undir Bankasýsluna sem hefur ekki verið stofnuð, það er bara sagt að hún verði stofnuð. (Forseti hringir.) Er ekkert þingræði hérna lengur eða er þetta svona auðvelt hjá þessum meiri hluta að menn (Forseti hringir.) geti gefið sér fyrir fram að meiri hluti sé við málið áður en það kemur til atkvæðagreiðslu?