137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[19:12]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætissvör. Það er ljóst að menn hafa miklar áhyggjur af því hvernig skipað verður í stjórnina. Þá langar mig að velta því upp, vegna þess að menn hafa víða skipað flokksgæðinga í stjórnir til að hlýða fyrirmælum ráðherranna, að ég held að komið hafi fram í fréttum — og hann getur hugsanlega staðfest það — að hæstv. fjármálaráðherra hafi lýst því yfir á framboðsfundi austur á fjörðum að þegar eitthvert ákveðið félag yrði komið í hans umsjón mundi hann sem ráðherra hugsanlega stýra því hvað það gerði. Mundi það ekki hræða hv. þingmann?

Ég benti á áðan hvernig staðið var að því að selja Síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði, sem er heimabær … (Gripið fram í: Þormóð ramma.) Þormóð ramma? Fyrirgefið, já, það er ágætt að maður sé leiðréttur, það hefur verið Þormóður rammi. Það er það sem maður hræðist mest í þessu, hvernig staðið var að sölu fyrirtækisins.

Síðan kemur á óvart, eins og hv. þingmaður benti á, að menn segi að þeir fari inn í félög sem ekki er búið að stofna samkvæmt lögum. Hv. þingmaður svaraði því ekki hvort bankarnir gætu hugsanlega séð um þetta þangað til búið væri að afgreiða málið og að menn gæfu sér lengri tíma til þess. Hvað finnst hv. þingmanni um hraðann á málinu?