137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[19:14]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef þá trú að stjórnendur bankanna gætu ráðið við þetta verkefni í framtíðinni og við gætum þess vegna slegið þessu á frest í ljósi þess að eigendastefnan liggur ekki fyrir. Við vitum í raun og veru ekki hvað ríkisstjórnin ætlar sér. Það sem við höfum heyrt hæstv. fjármálaráðherra og fleiri tala um er að ekki standi til að gera hitt og ekki þetta þegar við höfum spurt hvort það standi virkilega til að ríkisvæða atvinnulífið. Svo fáum við svör við því, að það eigi ekki að gera. Síðan spyrjum við hvort standa eigi vörð um sparisjóðina í landinu og hæstv. fjármálaráðherra segir að það eigi að gera það. En hvað horfum við svo upp á? Það á að ríkisvæða sparisjóðina. Er það að standa vörð um sparisjóðinn í sinni heimabyggð? Nei, takk fyrir.

Það er sem mér sýnist að þessir flokkar, sem margir hverjir hallast verulega til vinstri, hafi ofurtrú á því að best sé að reka fjármálakerfið og jafnvel stóran hluta af atvinnulífinu undir forræði hins opinbera. Það er það sem ég hræðist þrátt fyrir fögur fyrirheit hæstv. ráðherra og ég bendi frú forseta á, sem er eini stjórnarliðinn hér í þessum sal, að enginn þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er viðstaddur þessa umræðu. Það er voðalega leiðinlegt að tala um fjarstatt fólk, stjórnarliðar eiga að vera við umræðuna rétt eins og við í stjórnarandstöðunni. Þess vegna finnst mér það sárt, af því að ég reyni að vera ærlegur, að tala um Vinstri hreyfinguna – grænt framboð og það er enginn þingmaður frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði í salnum. Þó erum við að tala um alveg ofboðslega mikilvægt mál sem hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon lagði höfuðáherslu á að yrði klárað í vor. Enginn vinstri grænn í salnum. Hvað er að marka málflutninginn hjá forustumönnum þessarar ríkisstjórnar?