137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[19:36]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér stofnun hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu þjóðhagslegra — nei, fyrirgefið, rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja. Þetta mál byrjaði hér í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar og þá fjallaði málið um að það ætti að stofna félag sem gæti yfirtekið þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki. Talað var um að þetta yrði takmarkað magn fyrirtækja og þetta ætti að vera til þess að hjálpa endurstrúktúreringunni á íslensku atvinnulífi. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og fyrirtækið hefur tekið miklum breytingum. Núna er aðalmarkmið þess að tryggja skjóta úrlausn fjármálafyrirtækja á skuldavanda rekstrarhæfra fyrirtækja með því fyrst og fremst að tryggja hlutlæga, sanngjarna, gagnsæja skuldameðferð, ráðgjöf um það, að teknu tilliti til sjónarmiða um jafnræði og samkeppni. Þetta er allt saman gott.

Ef við lítum aðeins yfir hvernig haldið hefur verið á málum í fjármálakreppum hér í kringum okkur — reyndar getum við farið alla leið til Asíu — þá hafa menn sammælst um að meginkostir þess að vera með eignaumsýslufélög séu að þau skapi stærðarhagkvæmni, að sérfræðiþekking á endurskipulagningu er yfirleitt af skornum skammti og það geti verið ábati af því að hún sé saman komin á einum stað. Sérstaklega á þetta við eftir langvarandi uppgang eins og við höfum upplifað hérna undanfarin — allt frá 1995 með undantekningu 2001 og 2002.

Þá er mögulegt þar sem um meiri fjölda eigna er að ræða en í hverjum einstökum banka að hægt sé að búa til seljanlegri pakka en ella. Þetta á einkum við um lánasöfn. Miðlæg eign á lánasöfnum gerir samningsstöðu við lánardrottna betri. Þetta rýfur tengsl á milli lántakenda og banka sem gerir innheimtu hugsanlega auðveldari. Þetta auðveldar bönkum að einbeita sér að hefðbundinni starfsemi, eykur líkurnar á skipulegri endurreisn og setur alla við sama borð þar sem verklagsreglur verða einsleitar. Það hefur reyndar gætt svolítils misskilnings hjá þingmönnum og aðilum atvinnulífsins um að einsleitar verklagsreglur muni verða til þess að samkeppnistækifærum verði eitthvað meira ábótavant en ella. Ég held að það sé misskilningur vegna þess að þetta á að byggja fyrst og fremst á að tryggja jafnræði. Hægt er að gefa eignaumsýslufyrirtækjum sérstök völd sem eykur líkur á endurheimtu lána og endurskipulagningu fyrirtækja.

En það eru líka gallar og þeir hafa verið raktir hérna nokkuð í þessari umræðu. Bankar standa mun betur að vígi en eignaumsýslufélög þar sem þeir hafa safnað skipulega upplýsingum um skuldunauta sína en eignaumsýslufélögin þurfa þá að fá upplýsingar frá bönkunum, sem skapar millilið. Að staðsetja eignarhald í bönkum skapar meiri hvata til þess að endurheimta lán og að koma í veg fyrir tap í framtíðinni vegna þess að hvatarnir í eignaumsýslufélögum eru ekki í þá áttina. Bankar geta útvegað fjármögnun sem alltaf þarf við endurskipulagningu fyrirtækja og ef eignir eru færðar til eignarhaldsfélaga er ekki lengur um virka stýringu að ræða sem getur skaðað greiðsluviljann og leitt til áframhaldandi eignabruna, og það er nær óframkvæmanlegt að tryggja sjálfstæði eignaumsýslufélaga frá stjórnmálunum. Sérstaklega á þetta við þegar um er að ræða stóra hluta bankakerfisins eins og er hér á landi. Við sáum það mjög vel í umræðunni áðan að þetta voru helstu áhyggjur hv. þingmanns sem mælti fyrir minnihlutaáliti þá, það var með stjórnina.

Helsti ágallinn sem ég sé á þessu félagi, þó svo að ég hafi skrifað upp á meirihlutaálit, er nákvæmlega sá sem var talað um, hvernig valið er í stjórn félagsins og því hef ég verið því meðfylgjandi að eignarhlutinn verði framseldur til einhvers konar eignaumsýslufélags. Það þýðir aftur á móti ekki að ég sé sammála því að framselja eignarhlutann til Bankasýslu ríkisins vegna þess að ég hef svo miklar athugasemdir við það fyrirbæri að ég set mjög mikinn fyrirvara við þetta ákvæði.

Jafnframt, ef litið er yfir heildina á þessu öllu saman, þá virðist þetta stangast þó nokkuð hvert á annað, þessi hugmynd um opinbert hlutafélag til að stuðla að endurskipulagningu atvinnufyrirtækja, hugmyndin um Bankasýslu ríkisins, hugmyndin um kjaranefnd, þ.e. að gera laun forsætisráðherra að hæstu launum í hinu opinbera kerfi og síðan það sem var rætt hér fyrr í dag, frumvarpið um hvernig eigi að koma sparisjóðunum til bjargar.

Ef ég byrja á því hvernig þetta tengist sparisjóðunum. Jú, hér í þessu frumvarpi, þ.e. um eignaumsýslufélagið, er mikil áhersla — það var mikil áhersla lögð á það í nefndinni að það ætti að reyna að halda eigendum inni til þess að halda þekkingu, tengslum, viðskiptavild og öðru slíku hjá eigendum og starfsmönnum til þess að fyrirtækin í fyrsta lagi lendi ekki í ríkiseigu beint en fyrst og fremst til þess að félögin yrðu starfhæfari en ella. Þetta prinsipp sem er talað um í þessu frumvarpi eða var andinn í umræðu nefndarinnar er þverbrotið í frumvarpinu um sparisjóðina vegna þess að þar á einfaldlega að stroka eigendurna út og ríkisvæða sparisjóðakerfið. Það er raunverulega þvert á það prinsipp sem við höfum talað um.

Síðan ef við förum yfir í Bankasýsluna þá var nefndarálitið tekið út, getum við sagt, í skjóli nætur. Því miður gat ég ekki verið vegna anna annars staðar, reyndar erlendis, á fundinum þar sem ákveðið var að taka frumvarpið um Bankasýsluna út. Það voru tínd út að minnsta kosti tvö frumvörp þannig að í nefndaráliti er talað um að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins reyndar líka hafi einfaldlega ekki verið á fundinum þannig að við fengum ekki nægt tækifæri til þess að fjalla um þetta eins og ég mun koma að síðar.

Það eru miklir ágallar á frumvarpinu um Bankasýslu ríkisins og helst þeir að þetta eigi að vera í stofnun. Það á að stofna ríkisstofnun sem mun halda á eignarhlutum bæði í fjármálafyrirtækjum og þá í þessu eignaumsýslufélagi og það hefur nokkrar afleiðingar í för með sér. Það fyrsta er að það hefur mikið verið talað um það af þeim sem hafa hvatt til stofnunar þessa félags, Bankasýslu ríkisins, að hægt yrði að ráða til dæmis erlendan forstjóra. Það verður ekki hægt vegna þess að erlendur ríkisborgari getur ekki verið forstjóri yfir íslenskri stofnun eins og Bankasýslu ríkisins.

Í öðru lagi er það skipun stjórnar og þar eiga öll þessi rök við, að fjármálaráðherra getur raunverulega upp á sitt einsdæmi skipað stjórnina. Hann getur þá raðað flokksgæðingum á jötuna. Það sjá allir hvers lags gríðarleg völd það verða ef allt bankakerfið verður undir og sparisjóðakerfið verður undir og síðan verður undir það félag sem hefur með ráðgjöf og úrlausnir við endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja að gera. Gríðarleg völd safnast því þarna á einn stað og það að fjármálaráðherra geti, þrátt fyrir að hann sé góður maður, raðað sínum gæðingum þar er ógnvænleg tilhugsun vægast sagt.

Allt þetta, þ.e. Bankasýslan og eignaumsýslufélagið, snýr að því meginmarkmiði að byggja upp trúverðugleika íslensks efnahagslífs á ný, tryggja gagnsæi í meðferð skuldara og jafnræði skuldara og að það verði tryggt að hérna — eða alla vega gerð tilraun, alvarleg tilraun til þess að hérna skapist ekki einhvers konar gjá eftir að öllu þessu er lokið milli fólks, eins og gerðist til dæmis í Finnlandi þar sem var ekki nægilega vel staðið að því hvernig fyrirtæki voru seld sem skapaði gjá á milli fólks sem ekki er búið að brúa enn þar.

Þá kemur að raunverulega fjórða frumvarpinu eða fjórðu hugmyndinni, þ.e. að ætla einhvern veginn að handstýra eða réttara sagt að ætla að setja þak á laun opinberra starfsmanna vegna þess að það verður óneitanlega opinber starfsmaður sem verður forstjóri Bankasýslu ríkisins og við vitum orðið nokkurn veginn hvaða skilyrði hann þarf að undirgangast. Hann verður Íslendingur. Hann má ekki vera með meira en 935 þúsund á mánuði og veruleg hætta er á því að hann verði flokksfélagi fjármálaráðherra. Þetta takmarkar því raunverulega nokkuð hverjir geta séð um þennan eignarhlut eða eignarhlutina í fjármálakerfinu og í einkageiranum. Þessi spor sem verið er hér að taka geta verið mjög hættuleg. Verið getur að þetta takist allt saman mjög vel, að hér fáum við Íslending sem hefur mikla reynslu af endurskipulagningu fyrirtækja — þó svo að ég viti ekki hver það er — sem sé tilbúinn til þess að þiggja það sem mundi vera kallað í bankakerfinu og þessum bransa lágmarkslaun og sem sé algjörlega pólitískt óháður. Vel má vera að hægt sé að finna þennan einstakling en líkurnar á því eru afskaplega litlar og ég held að það sé okkar hlutverk að girða fyrir það.

En þessi breyting hérna, ef um hefði verið að ræða eignarhaldsfélag sem hefði verið hlutafélag á hlutafélagaformi þar sem stjórn hefði verið kosin á gagnsæjan hátt sem væri hafin yfir alla gagnrýni þá hefði þetta ekki verið slæm breyting. En á Bankasýslu ríkisins líst mér ekki.